01.11.1967
Sameinað þing: 8. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 538 í D-deild Alþingistíðinda. (3054)

193. mál, dreifing sjónvarps

Sigurvin Einarsson:

Herra forseti. Hæstv. menntmrh. gat þess í svari sínu hér áðan, að ráðgert væri, að sjónvarp yrði komið í alla landshluta á árinu 1969. Nú vil ég spyrja hæstv. ráðh.: Á að skilja þetta svo, að þá verði komnar upp aðalstöðvarnar og líka dreifistöðvarnar í landshlutunum, eða telur hann, að sjónvarpið sé komið í alla landshluta, ef komnar eru upp stöðvarnar á Skálafelli, Stykkishólmi, Vaðlaheiði og Fjarðarheiði? Hvernig á að skilja þetta? Mér sýndist, að það sé ljóst mál, að sjónvarp er ekki komið í alla landshluta, þó að þessar stöðvar séu komnar upp. Eða meinar hæstv. ráðh, það, að þá verði líka komnar upp litlu dreifistöðvarnar í landshlutunum á þessu ári, 1969? Þetta skiptir allmiklu máli, því að auðvitað getur dregizt alllengi að koma sjónvarpi á í ýmsum landshlutum, þó að aðalstöðvarnar séu komnar upp.