08.11.1967
Sameinað þing: 10. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 544 í D-deild Alþingistíðinda. (3061)

194. mál, framkvæmd stefnuyfirlýsingar

Jónas Árnason:

Herra forseti. Ég verð að segja eins og hv. 6. þm. Reykv., að ég er litlu nær eftir svar hæstv. forsrh. við fsp. hans. Í hverju mundi sú endurskoðun vera fólgin, sem fyrir dyrum stendur, hverjir mundu helzt verða spurðir ráða? Hvað segir reynslan okkur um þau efni?

Hershöfðingjar og flotaforingjar Atlantshafsbandalagsins hafa öðru hverju heimsótt Ísland til að láta ljós sitt skína, einkum bandarískir og þar á meðal ýmsir þeir, sem mestu ráða í þessum félagsskap. Tilgangurinn með þessum heimsóknum hefur bersýnilega ávallt verið einn og hinn sami fyrst og fremst, að sannfæra íslenzku þjóðina um það, að hún mundi stofna sjálfri sér, jafnvel lífi sínu og tilveru í hættu, að ógleymdum vörnum og öryggi hins svonefnda frjálsa heims, ef hún vísaði hinum bandaríska her úr landi og afnæmi herstöðvarnar. Og stjórnarvöldin og málgögn þeirra hafa birt þjóðinni boðskap hinna borðalögðu gesta af ámóta trúarlegri hrifningu eins og strangkaþólskir menn flytja boðskap frá páfanum í Róm, sem, eins og allir vita er samkv. þeirra „ritúali“ óskeikull.

Þó liggur í augum uppi, að fáum mundi síður treystandi til að ráða okkur heilt í þessum efnum heldur en einmitt þessum hershöfðingjum. Þeir eiga hagsmuna að gæta í sambandi við hernað. Völd þeirra og áhrif byggjast á því, að hernaður Atlantshafsbandalagsins og þá fyrst og fremst hernaður Bandaríkjanna sé sem viðtækastur. Það mætti jafnvel segja, að með því að viðurkenna það, sem öllum má nú vera orðið ljóst, að herstöðvum á Íslandi fylgir ekkert öryggi, allra sízt fyrir okkur Íslendinga, heldur þvert á móti mundu þær kalla yfir okkur hinn ægilegasta háska ef til stríðs kæmi. Með því að viðurkenna slíkt væru slíkir menn ekki aðeins að tefla í tvísýnu áhrifum sínum, völdum og virðingu, heldur einnig beinlínis atvinnumöguleikum sínum.

Ég vildi því mega vænta þess, að nú, þegar fyrir dyrum stendur endurskoðun á þessum málum, láti íslenzk stjórnarvöld af þeim ósið að sækja álit sitt vit í hershöfðingja. Og ég vildi einnig mega vænta þess, að sú endurskoðun verði ekki aðeins látin taka til hinna bandarísku herstöðva í landinu, heldur einnig til íslenzkrar utanríkisstefnu í heild. Og ef íslenzk stjórnarvöld skyldu enn ekki treysta sér til þess að marka þá stefnu án þess að spyrja útlendinga álits, má benda þeim á, að ýmsir óeinkennisklæddir menn útlendir, einnig bandarískir, hafa haft sitthvað athyglisvert að segja um þessi efni, og það ætti að vera óhætt fyrir okkur að hlusta á ráðleggingar þeirra, þó að þeir séu ekki hershöfðingjar, eða öllu heldur vegna þess að þeir eru ekki hershöfðingjar.

Vegna takmarkaðs ræðutíma verð ég að láta í þetta sinn nægja að vitna aðeins í einn slíkan.

Einhver glæsilegasti og einarðasti fulltrúi frjálslyndra afla í Bandaríkjunum var hér ferð í vetur leið, William Fulbright, formaður utanríkismálanefndar bandarísku öldungadeildarinnar. Hann kom hingað ekki til þess að þakka íslenzkum ráðamönnum fyrir skilyrðislausan stuðning þeirra við utanríkisstefnu bandarískra stjórnvalda. Bandaríkjamaðurinn William Fulbright kom hingað ekki til þess að leggja blessun sína yfir það viðhorf, sem virðist ríkjandi með íslenzkum stjórnarvöldum, að vinátta við bandarísku þjóðina sé það sama og að lúta í einu og öllu vilja stjórnarvalda hennar. Fulbright kom hingað til þess að setja ofan í við þá, sem þannig hugsa. Hann mæltist til þess, eins berum orðum og honum var unnt undir þessum kringumstæðum, að við Íslendingar færum að rétta úr okkur gagnvart

Bandaríkjunum og öðrum stórveldum. Hann kom til þess að eggja okkur lögeggjan, að við tækjum upp nýjar umgengnisvenjur á alþjóðavettvangi, færum að standa þar uppréttir. Og hann gerði þetta til þess að biðja okkur um aðstoð, aðstoð í þeirri baráttu, sem hann hefur háð fyrir auknu frjálslyndi í heimalandi sínu.

Megininntakið í boðskap hans var það, að stærð og máttur stórveldanna og þá ekki sízt Bandaríkjanna hafi stigið þeim svo til höfuðs, að allt skynsamlegt vit sé þar óðum að víkja fyrir hrokanum, the arrogance of power, valdhrokanum, sem Fulbright nefnir svo og hefur fjallað um af mikilli skarpskyggni í bók, sem ber þetta heiti. Þið Íslendingar og aðrar smáþjóðir, sagði Fulbright, hafið mikilvægu hlutverki að gegna á alþjóðavettvangi, og það er að ganga fram í einni fylkingu og hamla gegn þessum hroka og þeim háska, sem af honum stafar. Það fór ekki á milli mála, að þessi bandaríski stjórnmálaskörungur taldi það skyldu okkar Íslendinga, gagnvart sjálfum okkur og gagnvart mannkyninu öllu að stuðla að samkomulagi og sáttum á alþjóðavettvangi og venja okkur af því viljaleysi og dáðleysi í hugsun, sem helzt til lengi hefur einkennt utanríkisstefnu okkar.

Fimm mínútur eru ekki lengi að líða. Ég verð víst að slá botninn í þetta að sinni. En ég vil leyfa mér að endurtaka að endingu tilmæli mín til hæstv. ráðamanna sem eiga að fjalla um þá endurskoðun í varnarmálunum svonefndu, sem fyrir dyrum stendur: Látið ykkur ekki nægja að leggja eyrun aðeins við því, sem hershöfðingjar kunna að hvísla að ykkur. Leggið líka eyrun við því, sem óeinkennisklæddir menn hafa um þetta að segja. Og umfram allt, hlustið á það, sem ykkar íslenzka samvizka kynni að segja um þessi mál. Það er mikið í húfi, að hún komi sínum sjónarmiðum á framfæri, og þó að mikill skarkali fylgi stjórnmálavafstri ykkar, trúi ég ekki öðru en að röddin sú sé nógu sterk til að yfirgnæfa hann.