08.11.1967
Sameinað þing: 10. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 548 í D-deild Alþingistíðinda. (3065)

195. mál, rekstur Iceland Food Center í London

Fyrirspyrjandi (Gils Guðmundsson) :

Herra forseti Í árslok 1965 var opnuð íslenzk matsala í London. Hafði verið stofnað sérstakt fyrirtæki um þann rekstur, Iceland Food Centre, og var ríkissjóður stærsti aðilinn, en meðeigendur nokkrar íslenzkar stofnanir og fyrirtæki. Tilgangurinn var sagður sá að kynna og gera tilraun til að auka sölu á íslenzkum matvælum, einkum dilkakjöti. Vel má vera að rétt hafi verið að gera slíka tilraun, þótt árangur hlyti að teljast næsta óviss. Hitt drógu þó ýmsir kunnugir menn í efa þegar frá upphafi, að tilhögun þessarar kynningarstarfsemi væri með þeim hætti, að mikils væri af henni að vænta sölu íslenzkra afurða til framdráttar. Svo mun einnig hafa farið, að erfiðlega gekk með þennan rekstur, og eins og oft vill verða undir slíkum kringumstæðum, komust á kreik sögusagnir um tilfinnanlegt tap fyrirtækisins. Þar sem ríkið á hér hlut að máli, hefur mér þótt rétt að æskja nokkurra upplýsinga um þetta fyrirtæki og þó einkum um skuldbindingar ríkissjóðs í sambandi við stofnun þess og rekstur. Því hef ég á þskj. 34 borið fram fsp. um málið. Ég tel, að fsp. mín, sem er í 4 liðum, skýri sig sjálf, og hef því ekki fleiri orð um þetta að sinni.