08.11.1967
Sameinað þing: 10. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 549 í D-deild Alþingistíðinda. (3066)

195. mál, rekstur Iceland Food Center í London

Landbrh. (Ingólfur Jónsson) :

Herra forseti. Það er nú ekki nema eðlilegt, að þessi fsp. komi fram, sem hér liggur fyrir. Það er vitað mál, að það hefur ýmislegt verið sagt um þessa stofnun, Iceland Food Centre í London, og sumir halda því fram, að þetta væri þjóðinni ekki til sæmdar og frá upphafi hafi það verið hrein vitleysa að ráðast í þetta fyrirtæki. Ég vil þá í fáum orðum svara fsp., eins og þær liggja fyrir á þskj. 34.

Fyrsta fsp. er: Hversu miklu ríkisfé hefur verið varið til stofnunar og rekstrar fyrirtækisins Iceland Food Centre í London? Svar við þessum lið spurningarinnar er það, að ríkissjóður Íslands á helming hlutafjár fyrirtækisins, 4 millj. kr. Hlutaféð allt er 8 millj. Ríkissjóður hefur lánað fyrirtækinu 2 millj. kr. Þetta er það, sem ríkissjóður hefur lagt fram.

Önnur spurning: Hvernig er háttað fjárskuldbindingum ríkisins gagnvart fyrirtækinu? Svar við því er, að ríkissjóður ber þær fjárskuldbindingar gagnvart fyrirtækinu, sem hlutafélagalög segja fyrir um. Ég vil þó hins vegar taka það fram, að ef tap fyrirtækisins verður meira en það, sem hlutafénu nemur, kemur mér ekki til hugar annað en að hluthafarnir, ríkissjóður og aðrir hluthafar, borgi það, sem á vantar.

Þriðja spurning: Hvernig hefur reksturinn gengið? Rekstrarhalli til þess tíma, sem uppgjör nær til á þessu ári, nemur samkv. reikningum fyrirtækisins alls 48.963 £ eða sama sem 5.865.000 kr. Frá þessu má draga afskriftir, sem eru 11.138 £ eða 1.346.000 kr., og nemur þá rekstrartapið um 4.5 millj. kr.

Fjórða spurning: Hverjar áætlanir eru á döfinni um framtíð Iceland Food Centre? Félagsstjórnin, en í henni eru 5 menn, stendur nú í samningum við brezka matvælafyrirtækið Angus Steak Houses í London, um að það félag fái keyptan eignarhluta Iceland Food Centre og það taki að sér að sjá um reksturinn í London og kynni íslenzkar afurðir í hinum fjölmörgu veitingahúsum sínum í Englandi, og er þá gert ráð fyrir, að Angus Steak Houses Ltd. eignist helminginn í fyrirtækinu.

Hluthafar hafa frá upphafi verið misjafnlega hrifnir af því, hvernig reksturinn hefur gengið, og hafa ýmsir viljað losna út úr fyrirtækinu, t.d. eins og Loftleiðir, og einnig mun það hafa heyrzt stundum á forstjóra S.Í.S., að hann vildi losna úr fyrirtækinu, af því að það hefur verið rekið með tapi og það hefur ekki náð þeim árangri, sem ætlað var í fyrstu. En eftir að samningar voru teknir upp við forstöðumenn Angus Steak Houses, hafa Loftleiðir ekki óskað eftir því að selja, heldur lýst því yfir, að þær vilji vera með, og ég hef grun um, að þótt S.Í.S. hafi áður viljað losna, sé það hætt við að selja sinn hluta. Ríkissjóður á helming í fyrirtækinu, framleiðsluráð landbúnaðarins, að mig minnir, 1/4 og Loftleiðir og S.Í.S. 1/8 hvor.

Framleiðsluráð landbúnaðarins og ég trúðum því, að það mætti eitthvað gera til þess að auka sölu á landbúnaðarvörum. Við höfðum séð það, að Norðmenn, Danir, Þjóðverjar o. fl. höfðu opnað matvælastöðvar í stórborgum heimsins og gert það með góðum árangri. Tilgangur þeirra er að kynna þær vörur, sem þarf að selja, og hafa landkynningu með. Okkar tilgangur var sá sami, að kynna íslenzkar vörur í þeim tilgangi að fá greiðari sölu og betra verð fyrir þær. Okkar tilgangur var einnig sá, að það kæmi samvinna milli flugfélaganna og þessa fyrirtækis um það að kynna landið og fá þannig óbeinan hagnað af auknum ferðamannastraum til landsins eftir þessa kynningu.

Í erfiðleikum hafa nú ýmsir lent fleiri en Íslendingar, þegar ráðizt hefur verið í fyrirtæki sem þetta. Norðmenn opnuðu sinn Food Centre í London ári á undan okkur. Í því fyrirtæki er einnig 5 manna stjórn. Meiri hl. þeirrar stjórnar fór þeirra erinda til London, eftir að fyrirtækið hafði starfað í eitt ár, að loka fyrirtækinu, vegna þess að það var taprekstur, sem Norðmenn vildu vera lausir við, og þeir sáu ekki aðra leið en að loka fyrirtækinu. En vegna þess að þeir hittu mann í London, sem ráðlagði þeim að fresta því að loka, en endurskipuleggja heldur fyrirtækið, var það ekki gert, og það hefur ekki verið gert og stendur ekki til að gera héðan af, því að Norðmenn eru komnir yfir tapreksturinn og hafa nú álit á því, að þetta fyrirtæki geti gert norskum útflytjendum gagn.

Það er ekki unnt fyrir okkur að reka fyrirtæki til lengdar með tapi. Og ég hef ekki viljað fara fram á það, að ríkissjóður legði áfram fé í þennan taprekstur, svo nokkru næmi. Sama máli gegnir með framleiðsluráð landbúnaðarins. Þótt það hafi haft og hafi áhuga á þessu máli, eru líka takmörk fyrir því, sem það getur eða vill leggja í það. Það lá þess vegna ekkert annað fyrir á s.l. sumri en að loka, af því að við höfðum ekki vissu fyrir því, að við gætum endurskipulagt þetta á eigin spýtur þannig, að það væri öruggt, að við gætum losnað við tapið. En það var um tvennt að ræða, annaðhvort að loka eða reyna að búa þannig um hnútana, að það væri öruggt, að taprekstrinum væri lokið. Við vorum þess vegna búnir að sætta okkur nokkurn veginn við það að loka fyrirtækinu og játa það, að þessi tilraun hefði mistekizt, kannske að einhverju leyti fyrir óheppni. En á s.l. sumri komst formaður félagsstjórnarinnar, Ólafur Jónsson, í samband við mann, sem er áhrifamikill í Angus Steak Houses. Og þeir tóku tal saman um þetta og niðurstaðan var sú, að samtölum var haldið áfram. Fulltrúar frá brezka fyrirtækinu hafa komið hingað heim, og það lítur þannig út, að það náist samningar og samkomulag við þetta fyrirtæki um það, að þeir kaupi hálfan eignarhlutann í Iceland Food Centre og taki að sér reksturinn, en þó þannig, að íslenzkar vörur verði á boðstólum, ekki aðeins á þessum veitingastað, heldur og í fjöldamörgum veitingahúsum þessa fyrirtækis í London, eftir því sem okkur þykir ástæða til eða eftir því sem við höfum þörf fyrir. Og það er þetta. sem hefur breytt viðhorfi þeirra hluthafa, sem áður vildu losna út úr fyrirtækinu, að þeir, eftir að hafa kynnt sér það, sem nú er verið að semja um, telja líkurnar svo miklar fyrir því, að hægt sé að koma fyrirtækinu á trausta fætur, að þeir vilja nú gjarnan vera hluthafar áfram.

Það er nú svo, að það hafa ekki verið undirskrifaðir samningar enn við brezka fyrirtækið, en stjórn Iceland Food Centre segir mér, að það séu 99% líkur fyrir því, að það verði gert, og þeir allir, þessir 5 menn, sem eru í stjórn Iceland Food Centre, hafa mjög mikinn áhuga fyrir því og allt á því, að það geti orðið okkur til mikils gagns að koma okkar vörum, ekki aðeins lambakjöti heldur öðrum framleiðsluvörum okkar, inn í þennan stóra veitingahúsahring í London. Reynslan sker úr því, hvort þetta verður okkur til hagnaðar. En ætlunin með því að semja við þetta fyrirtæki er sú, að kynna íslenzkar vörur í stórborginni og vinna upp það tap, sem orðið hefur, þannig að ríkissjóður og aðrir hluthafar þurfi ekki að láta meira af hendi, og þegar tapið hefur verið greitt, geti þetta orðið hagnaður fyrir hluthafana.

Ég held, að ég hafi svarað þessum fsp., sem þarna eru fram bornar, eftir því sem ástæða er til að ætla, og vænti ég þess, að fyrirspyrjandi láti sér það nægja.