22.11.1967
Sameinað þing: 14. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 552 í D-deild Alþingistíðinda. (3070)

55. mál, raforkuþörf Vestur-Skaftfellinga austan Mýrdalssands

Fyrirspyrjandi (Björn Fr. Björnsson) :

Herra forseti. Við hv. 2. þm. Sunnl. höfum leyft okkur að bera fram svofellda fsp. til raforkumálarh. :

„Hvað líður framkvæmd þál., samþykktrar á Alþ. 5. maí 1966, um rannsókn varðandi lausn á raforkuþörf Vestur-Skaftfellinga austan Mýrdalssands?“

Á Alþ. 5. maí 1966 var samþ. þáltill., þar sem skoðað var á hæstv. ríkisstj. að láta rannsaka til fullnustu, hvernig hagkvæmast mundi vera að leysa raforkuþörf Vestur-Skaftfellinga þeirra sem búa austan Mýrdalssands, og vinna að framgangi þess máls svo fljótt sem auðið væri.

Á þingunum 1965 og 1966 urðu töluverðar umr. um raforkumál austurhluta Vestur-Skaftafellssýslu, þ.e.a.s. 5 hreppa, Álftavers-, Leiðvallar-, Skaftártungu-, Kirkjubæjar- og Hörglandshreppa. Eins og háttar til í héraðinu nú, er það svo, að rafmagnslína er komin fyrir nokkru til Víkur í Mýrdal og hún tengd Sogsvirkjunarkerfinu eða aðalveitukerfinu. Hún flytur rafmagn í tvo vestustu hreppa sýslunnar. En við það ástand hefur síðan verið búið og eigi lengra haldið með þá línu. Vitanlega hafa það orðið vonbrigði mörgum þar eystra, að eigi var haldið áfram línulögninni. Þess má þó geta, að línulögn þarna hlýtur að vera nokkuð dýr, og enn fremur er verulega langt á milli bæja í austurhlutanum, þannig að það fer yfir það mark að nokkru leyti, sem raforkumálastjórnin hefur sett sér í sambandi við línulagnir á milli bæja í dreifbýlinu. En um nauðsyn rafmagns að nútímahætti á þessum slóðum þarf auðvitað ekki að ræða, og að því viljum við öll keppa að sem flestir verði aðnjótandi þessara nauðsynlegu þæginda og fæstir afskiptir.

Þess ber þá að minnast í þessu máli, að Vestur-Skaftfellingar voru brautryðjendur í byggingu vatnsaflsstöðva og voru þá bæjarlækir virkjaðir. Þannig fengu mörg býli rafmagn, sem þau búa við enn í dag. Í þessu sambandi má líka geta snillingsins Bjarna í Hólmi, sem vann æðimörg afreksverk á þessu sviði, bæði í sinni sýslu, Vestur-Skaftafellssýslu, og enn fremur í nálægum héruðum. Og enn er í sýslunni búið við þessar einkavatnsaflsrafstöðvar, sem að sjálfsögðu eru farnar að láta á sjá eftir mjög langan notkunartíma. Og einnig eru á þessu svæði nokkrar einkadísilstöðvar.

Það hygg ég, að ekki verði um það deilt, að leysa beri þessa raforkuþörf Skaftfellinga af opinberri hálfu. Til þess liggja að sjálfsögðu hin fyllstu rök. Spurningin er því aðeins sú, með hverjum hætti skuli leysa þennan vanda, og auðvitað verða sérfræðingar að koma til og segja fyrir um, hvert þeirra álit sé í þessu efni. Spurningin er þessi: Á að teygja aðalveitulínuna austur yfir Mýrdalssand og láta hana halda áfram gegnum hina 5 hreppa, eða á að hyggja á smærri virkjanir eða fara enn aðrar leiðir? Eins og ég sagði, er að sjálfsögðu treyst á, að sérfræðingar kunni bezt að meta hverja leið á að fara og þess vegna mun hafa verið borin fram þáltill., sem var samþ. á árinu 1966 hér á hinu háa Alþ., og óskað rannsóknar í þessum efnum. Nú viljum við flm. fsp, spyrjast fyrir um það hjá orkumálaráðh., hvað þessari athugun líði, og sé henni lokið, hver niðurstaðan sé.