06.12.1967
Sameinað þing: 18. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 566 í D-deild Alþingistíðinda. (3081)

34. mál, skólarannsóknir

Fyrirspyrjandi (Matthías Á. Mathiesen):

Herra forseti. Tími minn hér gefur mér ekki tækifæri til þess að hefja umræður um einstaka þætti í ræðu hæstv. ráðh., en ég vil þakka honum þau svör, sem hann gaf hér um það, að hverju skólarannsóknir menntmrn. hafa aðallega beinzt fram til þessa, og svo skoðun hans á því, hver verkefni þessarar stofnunar verði í framtíðinni.

Hins vegar gerði hann í upphafi ræðu sinnar töluvert úr því, að þess misskilnings gæti mjög hjá þeim aðilum, sem ræddu þessi mál og um þau rituðu, að það þyrfti að endurskoða fræðslulöggjöfina, en hér væri nánast miklu fremur um að ræða endurskoðun á ýmsum reglugerðum og öðrum framkvæmdaratriðum, sem mundu rúmast innan þess ramma, sem fræðslulöggjöfin kveður á um.

Enda þótt svo sé orðað hér í fsp., held ég, að engum hafi blandazt hugur um það, þegar hæstv. forsrh. í sinni ræðu gat um, að fram mundi fara á vegum ríkisstj. allsherjarendurskoðun á fræðslukerfinu, eins og hann orðaði það, að að sjálfsögðu væri fræðslulöggjöfin innifalin í þeirri athugun, sem þar er gert ráð fyrir að fram fari. Hitt má svo vel vera, og er sjálfsagt mikið til í því, sem hæstv, ráðh. sagði, að það þurfi kannske ekki ýkjamiklar breytingar á sjálfri löggjöfinni til þess að hægt sé að gera verulegar breytingar á fræðslukerfinu, eins og það er í dag. En hitt er ljóst, og einmitt til þess er þessi fsp, fram borin, að menn eru mjög „krítískir“ á þá hluti, þ.e.a.s. framkvæmd fræðslukerfisins í dag. Ég geri ekki ráð fyrir því, að þeir séu fjölmargir hér í sölum Alþ., sem hafa á sínum skóla árum verið undir því fræðslukerfi, sem nú er. Ég hygg, að það sé aðeins einn hv. þm. auk mín, sem hóf nám í milliskólum, eftir að þessi löggjöf var samþykkt, en reynsla af ýmsum þáttum í fræðslukerfinu hefur verið með þeim hætti, að þeir hinir fjölmörgu, sem ég gat um áðan í minni frumræðu, hafa talið ástæðu til þess að gera aths. þar um. Margt af því, sem hæstv. ráðh. benti á sjálfur, eru einmitt atriði, sem raunverulega þarf að taka til mjög rækilegrar endurskoðunar, og það, sem ég vildi leggja sérstaka áherzlu á nú, er, að þessi endurskoðun, hvort sem hún er á fræðslukerfinu sem slíku og ekki orðalagi í fræðslulöggjöfinni, sé betur samhæfð en raun ber vitni. Við getum aðeins minnzt þess, að í blöðum fyrir nokkrum vikum eða mánuðum sáum við einmitt m.a. ritsmíðar forstöðumanns skólarannsókna, sem er formaður landsprófsnefndar — ég held, að ég fari með rétt mál — og tveggja skólastjóra um það, með hverjum hætti námsefnið eða prófefni var valið til landsprófs s.l. vors og með hvaða hætti búast mátti við árangri nemenda með tilliti til þess, hvernig valið hafði verið. Þessir hlutir svo og fjölmargt annað, sem fram hefur komið og á hefur verið bent bæði af kennurum, skólastjórum, fræðslumálastjórninni, svo og fjölmörgum öðrum, eins og ég sagði í minni frumræðu, er með þeim hætti, að ég vil mjög taka undir þau orð og veit, að hæstv, ráðh. og ríkisstj. mun að sjálfsögðu leggja áherzlu á, að sú endurskoðun á fræðslukerfinu, sem gert er ráð fyrir, megi fara fram sem allra fyrst og þá verði tekið mjög tillit til þeirrar reynslu, sem fengizt hefur á því fræðslukerfi, sem við nú búum við í dag og hefur verið gildandi hér um aldarfjórðungsskeið.