06.12.1967
Sameinað þing: 18. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 567 í D-deild Alþingistíðinda. (3082)

34. mál, skólarannsóknir

Vilhjálmur Hjálmarsson:

Herra forseti. Aðeins örfá orð í sambandi við þessa fsp., sem hér er til umr. Það er vissulega mjög ánægjulegt að hlýða á hinar ýtarlegu upplýsingar hæstv. menntmrh. um skólarannsóknir og um fjölmargt, sem verið er að vinna á sviði skólamálanna um þessar mundir. Það er auðvitað öllum ljóst, hversu mikið er hér í húfi, og það hlýtur þess vegna að gleðja hvern mann að heyra um það starf, heyra svo ýtarlega frá því starfi sagt, sem þarna er verið að vinna. Hitt er svo annað mál. að þegar maður er búinn að heyra á ræðu hæstv, ráðh, um þessa hluti og hefur fengið innsýn í það, hversu margt er þarna unnið, og vafalaust vel unnið, þá fer maður að halda, að það hafi bara verið ljótur draumur, sem maður þó veit því miður, að er staðreynd, það, sem gerist nú ár eftir ár í málefnum unglingafræðslunnar, a.m.k. á Austurlandi. Ég skal ekki fullyrða um, hvernig það er í öðrum landshlutum.

Það hafa um hríð verið mjög miklir erfiðleikar á því, að fá skólavist fyrir ungmenni á skyldunámsstiginu, og þeir erfiðleikar hafa verið svo miklir, að það hefur í mörgum tilfellum reynzt ómögulegt með öllu. Ég þekki persónulega alveg frá fyrstu hendi dæmi um þetta. Og ég hef heyrt um mýmörg önnur hliðstæð. Ég get aðeins vikið að einu sérstöku, sem átti sér stað s.l. haust. Stúlka sem lokið hafði námi 1. bekkjar unglingastigsins, sótti um upptöku í 2. bekk í heimavistarskóla, því að ekki var kostur á frekari skólagöngu í hennar skólahverfi. Einkunn hennar var rétt neðan við 8. mig minnir 7.8. Henni var synjað um inntöku, vegna þess að það sóttu fleiri en hægt var að taka á móti og vegna þess að aðrir höfðu hærri einkunnir. Það var leyst úr þessum vanda þarna eftir ýmsum krókaleiðum, með því að kippa út öðrum nemanda, sem gat fengið inngöngu í skóla annars staðar, þar sem ekki var heimavist, en hann átti hins vegar til kunnugra að víkja. En þetta hefur því miður ekki tekizt nema stundum, og persónulega er mér kunnugt um annað atvik frá s.l. ári, þar sem mál réðust þannig, að viðkomandi fékk ekki inngöngu í skóla og með mjög óheppilegum afleiðingum.

Þetta er vægast sagt mjög ömurlegt, að þannig skuli vera á,statt á þessu stigi í okkar skólakerfi á því herrans ári 1967, þannig ástatt, að það geti komið fyrir, að börn á skyldunámsstiginu fái ekki inngöngu í skóla. Þetta er óneitanlega blettur á skólakerfi okkar, því að þarna er um að ræða grundvallaratriði, mannréttindamál hreint og beint, það, að allir þeir, sem skylt er að sækja skóla, fái notið tilskilinnar kennslu. Ég sé satt að segja engan mun á því að vísa heim 13—14 ára gömlu barni, sem ekkert er athugavert við á neinn hátt, og hinu, að vísa heim barni miklu yngra og neita því um kennslu. Ég sé engan mun á því.

Ég vildi nota þetta tækifæri, af því að verið var að ræða skólamálin, og vekja athygli á þessu vandamáli Og ég vil leyfa mér að varpa fram tveim fsp. til hæstv, menntmrh. í fyrsta lagi, hvort honum sé kunnugt um þetta ástand — og það raunar hygg ég hljóti að vera, því að hann gat þess m.a. í sinni ræðu, að það hefði verið sett n. fyrir 10 árum til þess að kynna sér framkvæmd fræðslulaganna — og í öðru lagi, ef svo er, hvað hafi þá verið gert til þess að ráða bót á þessu sérstaklega. Það er sjálfsagt hægt að gera það á tvennan hátt: Með auknu skólahúsnæði og með betra skipulagi skólamálanna á viðkomandi landsvæði, betri nýtingu þess skólahúsrýmis, sem þegar er fyrir hendi.