06.12.1967
Sameinað þing: 18. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 576 í D-deild Alþingistíðinda. (3091)

43. mál, sameining Landsbókasafns og Háskólabókasafns

Menntmrh. (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Í framhaldi af ályktun Alþ. 1957 ritaði menntmrn. borgarstjóranum í Reykjavík 7. júní sama ár og fór fram á, að fyrirhugaðri safnbyggingu yrði ætluð lóð á svæðinu sunnan íþróttavallarins, vestan við háskólahverfið, eftir nánara samkomulagi við húsameistara ríkisins og forstöðumenn nefndra safna.

Borgaryfirvöldin í Reykjavík tóku vinsamlega undir beiðni um lóð undir nýtt safnahús, en þótt beiðni rn. um, að nýju safnahúsi yrði ákveðinn staður, hafi verið endurnýjuð, hefur enn ekki verið tekin fullnaðarákvörðun um það mál. Þess skal og geta að Alþ. hefur ekki enn veitt neinar fjárveitingar til byggingar nýs safnahúss né heldur til undirbúnings að slíkri byggingu. Húsnæðismál bókasafnanna hafa engu að síður verið til ýmiss konar athugunar í menntmrn. og söfnunum sjálfum.

Þar eð augljóst er, að nýrri stórbyggingu, er gæti tekið við bæði Landsbókasafni og Háskólabókasafni, verður ekki komið upp alveg á næstunni, en húsnæðismál safnanna beggja eru orðin mjög alvarleg og fara vaxandi ár frá ári, þótti mér rétt, að enn á ný yrði gerð athugun á þessu máli öllu. 6. júní í fyrra skipaði ég því dr. Finnboga Guðmundsson landsbókavörð, dr. Björn Sigfússon háskólabókavörð og Birgi Thorlacius ráðuneytisstjóra í nýja n. til þess að athuga hversu málum vísindalegra bókasafna verði skipað hér á landi til frambúðar, þar á meðal um tengsl Háskólabóka5afns og Landsbókasafns. Skilaði n. álitsgerð 18, ágúst s. l. Í nál. þeirra segir m.a., með leyfi hæstv. forseta:

„Vér teljum, að meginrök bókasafnsnefndar þeirrar, sem skipuð var 11. sept. 1956 og skilaði áliti 11. jan. 1957, séu enn í fullu gildi, og leyfum oss að vitna til umrædds álits, sem lagt var sem fskj. með fyrrnefndum þáltill. Vér viljum hér sérstaklega taka undir þá till. í niðurlagi nefndarályktunarinnar frá 1957, að reist verði bókasafnshús hér í næsta nágrenni við Háskólann, til þess að sameining safnanna verði framkvæmanleg. Vér erum allir sammála um, að nýtt hús fyrir bæði söfnin, og þar af leiðandi sameining safnanna, hvernig sem henni verður svo háttað, sé sú lausn safnamála, er farsælust muni reynast, þegar til lengdar lætur. Með byggingu nýs bókasafnshúss yrði ekki aðeins leystur vandi umræddra bókasafna heldur einnig Þjóðskjalasafns, er fengi eðlileg afnot af húsrými Landsbókasafns, er losnaði við flutning þess í ný húsakynni. Þyki hins vegar ekki fært að byggja nýtt hús yfir Landsbókasafn og Háskólabókasafn, gerum vér til vara svofellda till.: 1) Að allt safnahúsið verði fengið Landsbókasafninu til umráða. 2) Að reist verði nýtt hús við hæfi Þjóðskjalasafns og hafinn undirbúningur að teikningu og smíði, eins fljótt og unnt er. 3) Að byggt verði við Háskólabókasafn eftir þörfum.“

Hér lýkur tilvitnuninni í nál.

Svo sem kunnugt er, mun byggingu húss yfir Handritastofnunina ljúka á næsta ári. Hún hefur nú mikið húsnæði í Landsbókasafnshúsinu, og munu Landsbókasafn og Þjóðskjalasafn að sjálfsögðu fá það húsnæði til afnota þegar á næsta ári. Mun það stuðla nokkuð að því að leysa brýna húsnæðisþörf þeirra. Sú bráðabirgðalausn, sem auk þess er til athugunar fyrir öll söfnin þrjú, Landsbókasafn. Þjóðskjalasafn og Háskólabókasafn, er að leigja góðar bókageymslur annars staðar fyrir þær bækur og þau skjöl, sem tiltölulega sjaldan þarf að hreyfa og skipuleggja flutningskerfi á milli bóka- og skjalageymslnanna og safnanna sjálfra. Hefur ýmislegt geymslurými komið til athugunar í því sambandi. Má t.d. geta nýjustu hugmyndarinnar, sem komið hefur til greina. Í kjallara Norræna hússins er mikið og vandað geymslurými, sem ekki er þörf á vegna starfsemi Norræna hússins, og hafa ýmsir talið, að það væri fyrirtaks bókageymsla. Landsbókavörður vill þó ekki hagnýta það geymslurými, en háskólabókavörður telur það koma til greina. Í kjallara Háskólabíós mætti og innrétta geysimiklar bóka- og skjalageymslur. Bæði landsbókavörður og háskólabókavörður telja þau geymsluskilyrði hagkvæm. Athugun þessara mála mun verða haldið áfram á næstunni. Þangað til hafizt verður handa um byggingu heildarbyggingar fyrir Landsbókasafn og Háskólabókasafn og jafnvel Þjóðskjalasafn líka, virðist eina færa leiðin vera sú að bæta starfsskilyrði safnanna hvers um sig með því að fá beim til umráða vandaða bókageymslu utan þess húsnæðis, sem söfnin starfa í. Er slíkt algengt annars staðar og þarf ekki að vera starfsemi safnanna til neins verulegs trafala, ef flutningur milli aðalbyggingar og bókageymslu er vel skipulagður.