26.01.1968
Sameinað þing: 30. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 588 í D-deild Alþingistíðinda. (3101)

196. mál, lánveitingar úr Byggingasjóði ríkisins

Vilhjálmur Hjálmarsson:

Herra forseti. Ég vil fyrir mitt leyti þakka hæstv. ráðh. fyrir hans greinargóðu svör. Hitt er svo annað mál. að það kemur glöggt fram í svörum ráðh., að ekki er ástæðulaus sá uggur, sem menn hafa alið í brjósti um það, að mjög þunglega horfi um íbúðalánin í heild. Mér finnst það einkenna þessi svör, hversu gífurlega mikil óvissa er fram undan um allt það, er þessi mál varðar. Mér er kunnugt um það úr mínu kjördæmi, að þar bíður afgreiðslu fjöldi umsókna, margar umsóknir þeirra manna sem sóttu um lán fyrir 15. marz 1967, þó svo að byggingarnar væru fokheldar strax á miðju sumri eða fyrr. Og það er ekki glæsilegt að fá þær fréttir nú, að von um fyrstu útborgun fyrri hluta lána til þessara manna sé bundin við septembermánuð þessa árs. Það er upplýst, að nú verði tekið til við að afgreiða þessar umsóknir, og auðvitað skiptir það máli fyrir menn að fá ákveðið að vita hvað fram undan er, en glæsilegt er það ekki, ef þetta er rétt, sem auðvitað er ekki að efa, að engin von sé um útborgun fyrr en í sept. í haust. Við það bætist svo, að um lánsumsóknir þær, sem borizt hafa eftir 15. marz 1967, er enn þá ekkert hægt að segja ekki neitt um horfur á fyrirgreiðslu til þessara manna. Það er þess vegna áreiðanlega ekki djúpt tekið í árinni, þó að sagt sé, að útlitið í dag fyrir húsbyggjendur, það sé ákaflega skuggalegt.

Upplýsingar þær, sem gefnar voru um framkvæmdir í Breiðholti, staðfesta það einnig, sem að minnsta kosti ég hafði heyrt og almennt hafði verið álitið, að fjárútvegun af opinberri hálfu til þessara mála hefur ekki verið með miklum myndarskap. Það er því enginn vafi á, að það er brýn nauðsyn nú að gera nýtt átak í þessum málum, þó að erfitt sé um á mörgum sviðum. Það er hins vegar ljósi punkturinn í svari ráðh., að það er þó að minnsta kosti til athugunar að hverfa frá vísitölubindingu húsnæðismálalánanna, enda skil ég nú ekki satt að segja, hvernig annað væri hugsanlegt, eftir þá atburði, sem nú hafa gerzt og öllum eru kunnir.