26.01.1968
Sameinað þing: 30. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 589 í D-deild Alþingistíðinda. (3102)

196. mál, lánveitingar úr Byggingasjóði ríkisins

Félmrh. (Eggert G. Þorsteinsson) :

Herra forseti. Umfram það, sem ég hef þegar sagt, hef ég ekki miklu við að bæta, en ég vil í sambandi við þau orð, sem hv. 2. fyrirspyrjandi lét falla hér, hv. 5. þm. Austf., aðeins minna á það, að í fyrsta lagi tel ég, að það séu ekki margar lánastofnanir í landinu, sem geti fullnægt öllum þeim kröfum, sem til þeirra eru gerðar. Og það er ekkert nýtt fyrirbrigði í íslenzkum lánsfjármálum. Auk þess hafði ég um margra ára skeið allnáin kynni af starfsemi húsnæðismálastjórnar og vann þar í tæp 8 ár, og þykist ég þess vegna þekkja mjög vel til þess ástands, sem þar hefur ríkt frá því að stofnun þessi hóf sín störf á síðari hluta ársins 1955. Og ég vil undirstrika það, að ef maður skiptir starfstíma þessarar stofnunar í tvennt, þessum 111/2 árs starfstíma þolir síðari helmingur starfstímans mjög vel samanburð við þann fyrri.

Nú blöskrar hv. 5. þm. Austf. alveg sérstaklega, að ekki skuli í ársbyrjun 1968 vera hægt að fullyrða um endanlega afgreiðslu allra umsókna, sem komu inn eftir fyrsta ársfjórðung 1967. Það voru til umsóknir á vegum húsnæðismálastjórnarinnar eða á hennar snærum, sem voru fullkomlega löglegar og lánshæfar, sem urðu að bíða allt upp í fimm ár eftir afgreiðslu, en þá fóru aðrir menn með stjórn þessara mála, og þá heyrðist ekkert orð af vörum þessa ágæta þm., sem hefur yfirleitt orð á sér fyrir að vera mjög orðvar, um að slæmt ástand væri í þessum málum. Það raknaði hins vegar svo úr, að í þrennum lánveitingum í röð var hægt að fullnægja í fyrsta sinn í sögu stofnunarinnar öllum lánsumsóknum.

Það hefur aftur sigið á ógæfuhlið, því er ekki að leyna. Umsóknir hlaðast upp og eru mikið örari en fjárhagsgeta stofnunarinnar leyfir. En þetta eru eðlilegar afleiðingar, sama og átti sér stað á árunum 1956 til 1960. Þrátt fyrir þetta, þrátt fyrir þær auknu biðraðir, sem myndazt hafa hefur stofnunin samt sem áður gert meira en að standa við þau loforð, sem gefin voru í hinu margnefnda júní-samkomulagi við verkalýðsfélögin. Þar var talað um, að stofnunin mundi beita sér fyrir að útvega 750 almenn lán á hinum almenna lánamarkaði, burtséð frá hinum framkvæmdunum, sem einnig voru fyrirhugaðar í Breiðholtshverfi. Tölur um þetta efni gæti ég upplýst hv. Alþ. um, ef þess yrði óskað, og það yrði fullkomlega sannað, að það hefði verið gert meira en að standa við þessi fyrirheit. Það skyldi vera fjarri mér að reyna að lýsa þessum hlutum þannig, að þeir væru eins og ég helzt kysi eða hæstv. ríkisstj. kysi. Það er eigi að síður staðreynd, að það hefur ekki reynzt mögulegt að útvega meira fé en gert hefur verið, en það er samt staðreynd, að það hefur heldur aldrei verið meira fé til umráða á vegum þessarar stofnunar en verið hefur síðastliðin 3—4 ár.