26.01.1968
Sameinað þing: 30. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 594 í D-deild Alþingistíðinda. (3106)

196. mál, lánveitingar úr Byggingasjóði ríkisins

Jón Þorsteinsson:

Herra forseti. Hv. 4. þm. Austurl. gat þess hér áðan í sinni ræðu, að ríkisstj, hefði svikið samkomulagið við verkalýðshreyfinguna frá árinu 1965, þar sem hún hefði ekki staðið við það eða væri fyrirsjáanlegt, að hún stæði við það að byggja 1250 íbúðir í Reykjavík á fimm árum eða ljúka því fyrir árslok 1970. Það er að vísu alveg rétt, að það má fullyrða það nú þegar, að þessum 1250 íbúðum verði ekki lokið í árslok 1970, en þar með er alls ekki sagt, að um þetta sé við ríkisstj. að sakast.

Eins og kunnugt er, þá var skipuð sérstök framkvæmdanefnd til þess að sjá um byggingu þessara íbúða, og ég er þessum málum nokkuð kunnugur, af því að ég er formaður þessarar n. og mér því málið æði skylt, en í þessari framkvæmdanefnd eru tveir af fimm mönnum, sem þar eru, fulltrúar frá verkalýðsfélögum, þ.e.a.s. frá A. S. Í. og frá fulltrúaráði verkalýðsfélaganna í Reykjavík, og allar ásakanir um það, að þessar íbúðir verði ekki tilbúnar á réttum tíma, þær eiga að skrifast á reikning þessarar framkvæmdanefndar, en ekki á reikning ríkisstj., því að það hefur ekki staðið á neinu frá ríkisstj. hálfu, þannig að það sé hennar sök á einhvern hátt, að ekki er hægt að byggja þessar íbúðir á fimm árum. Ég vil taka það fram, að í öllum þeim áætlunum, sem þessi framkvæmdanefnd hefur gert, hefur ekki verið nokkur minnsti ágreiningur innan n, um, hvernig væri að þessu staðið. Og ég skal skýra þetta nokkru nánar.

Menn verða að athuga það, að þessari framkvæmdanefnd er falið fleira en að byggja 1250 íbúðir á fimm árum. Það eru fleiri skyldur, sem hvíla henni á herðum, og þessar skyldur koma fram í þessari yfirlýsingu ríkisstj. um húsnæðismál, sem er raunar í samkomulagi við verkalýðshreyfinguna, en þar segir m.a. svo, að það skuli byggja hagkvæmar og ódýrar íbúðir í fjölbýlishúsum, að það skuli stefnt að því að nota fjöldaframleiðsluaðferðir og með byggingum þessum verði gerð tilraun til þess að sannreyna, hve mikið megi lækka byggingarkostnað með góðri skipulagningu og fullkomnustu tækni, sem við verður komið En þetta ber þannig að, að þessar skyldur geta rekizt á, og þá verður framkvæmdanefnd að vega og meta. Á n. fyrst og fremst að leggja áherzlu á það að klára 1250 íbúðir á þessum 5 árum og ganga þá ekki eins langt í hinum þættinum og hún hefði talið æskilegt, að taka hér upp nýjar byggingaraðferðir og reyna að sannreyna, hve mikið megi lækka byggingarkostnaðinn, því að það kostar geysimikinn undirbúning og langa og vandlega athugun og könnun á margan hátt? Þarna geta þess vegna þessi tvö sjónarmið rekizt á, og ég verð að segja það sem mína persónulegu skoðun, að ég tel það, þó að það sé vissulega mjög mikilvægt að ljúka þessum byggingum á réttum tíma og það sé margt fólk, sem bíður eftir húsnæði þarna þá lít ég svo á, að hitt sé enn þá mikilvægara að reyna að koma á nýrri byggingartækni og lækka byggingarkostnað, því að það hefur stórkostlega framtíðarþýðingu fyrir allar íbúðarbyggingar í landinu. Og menn verða að átta sig á því, að þegar gort er svona samkomulag, ég vil segja samkomulag á nokkrum dögum, þar sem ákveðið er að byggja 1250 íbúðir í einu sveitarfélagi, borg, á næstu 5 árum, þá er ekki nokkur minnsti tími á einni viku eða nokkrum dögum til þess að kanna þetta mál til nokkurrar hlítar, hvort þetta sé í raun og veru hægt. Ég vil t.d. benda á það, að þegar á að fara að byggja svona stóra áfanga, þarf auðvitað í fyrsta lagi að skipuleggja byggingarsvæði. Það eru auðvitað til ónotuð landsvæði, sem eru ætluð undir byggingar og bíða eftir skipulagningu. Þessi svæði þarf að taka og skipuleggja. Þegar þessari skipulagsvinnu er lokið, þarf að undirbúa framkvæmdir, framkvæmdir, sem eru nauðsynlegar til þess að svæðið verði byggingarhæft, þ.e.a.s. undirbúa og planleggja og teikna og áætla framkvæmdir um vegalagningu, holræsalögn, vatnsleiðslu, rafmagn og annað þess háttar. Síðan, þegar búið er að gera slíka áætlun og bjóða þessi verk út til verktaka þarf tíma og fjármagn til þess að ljúka verkefnunum. Og síðan þegar þessu er lokið, loksins þá er svæðið byggingarhæft, og það má telja það nokkurn veginn lágmarkstíma, að frá því að maður byrjar á ónumdu landi og þangað til hægt er að byggja fyrstu íbúðirnar, líði 21/2 ár. Það eru þessir annmarkar, sem maður verður að taka með í reikninginn og sem gera það m.a. að verkum, að það var í raun og veru, ég vil segja næstum því útilokað frá upphafi að byggja þessar 1250 íbúðir á 5 árum.

Það var eitt af fyrstu verkum framkvæmdanefndarinnar að gera ríkisstj. grein fyrir því, að fyrir þessar fyrstu 250 íbúðir, sem var þarna áætlað að byggja á árinu 1966, væri ekkert byggingarsvæði tilbúið til byggingar, þó að n. hefði verið tilbúin að láta teikna þessar íbúðir, sem ekki heldur var, teikna þær og fá verktaka og annað slíkt, sem var nauðsynlegt. Þannig var aldrei raunhæfur grundvöllur fyrir hendi, enda vil ég undirstrika að það var enginn tími til að kanna það á þeim stutta tíma, sem þetta samkomulag var gert, og ég tel, að n. hafi alveg stefnt í rétta átt með því að leggja þó enn þá meiri áherzlu á hitt atriðið, þ.e. nýja byggingartækni.

En ég vil svo aðeins að lokum benda á það, að hér í þessu samkomulagi er tekið skýrt fram, að samið verði við Atvinnuleysistryggingasjóð um lánveitingar út á þessar íbúðir, er komi til viðbótar lánum frá húsnæðismálastjórn, þannig að það er auðvitað alveg ljóst, að frá þessum tveimur stofnunum á meginhluti fjármagnsins að koma. Og menn mega heldur ekki gleyma því, þegar þessi mál eru rædd, að ef þessi byggingaráætlun, sem menn eru að tala um, að taki lánsfé frá fólki, væri ekki í framkvæmd, mundu allmiklu fleiri einstaklingar vera að byggja í dag, sem heimtuðu þá sín lán líka. Það, sem er langraunhæfasta aðferðin, þegar maður horfir lengra fram í tímann, til þess að reyna að fullnægja öllum umsóknum um lán og íbúðarbyggingar, er auðvitað að vinna að því af alvöru að gera stórt átak til þess að lækka byggingakostnaðinn, og það er einmitt það, sem verið er að gera með þessari byggingaráætlun og sem ég hef vissulega trú á. að muni takast.