26.01.1968
Sameinað þing: 30. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 598 í D-deild Alþingistíðinda. (3109)

196. mál, lánveitingar úr Byggingasjóði ríkisins

Jón Þorsteinsson:

Herra forseti. Mér er ljúft að reyna að svara þessum fsp. hv. 11. þm. Reykv. og þótt fleiri hefðu verið. En hann spurði, hvernig reynslan hefði verið af þessum timburhúsum, og vildi bera þau saman við timburhús, sem reist voru við Mývatn og framleidd af Iðju á Akureyri.

Þegar spurt er um reynslu, getur falizt mikið í því, og ég vil segja, að ef maður er að tala um reynslu af timburhúsum, fæst hún ekki fyrr en eftir nokkur ár, þ.e.a.s., hvernig endast þessi timburhús og hvernig líkar fólkinu að búa í þeim, hver er viðhaldskostnaðurinn o.s.frv. Þetta er spurning, sem að sjálfsögðu er ekki hægt að svara núna. Ef hann hins vegar á við kostnaðarverðið, var kostnaðarverð dönsku timburhúsanna lægra á fermetra heldur en húsanna fyrir norðan, en hins er að gæta, að þar sem dönsku húsin, sem byggð eru í Reykjavík, eru frá 105 og upp í 113 fermetra en húsin fyrir norðan eru, held ég, 85 fermetrar, er það að sjálfsögðu eðlilegt, að kostnaður á fermetra sé dýrari í minna húsi, þannig að ég vildi segja að þetta væru nokkuð sambærilegt. Auðvitað er hægt við annað tækifæri að ræða þessi mál betur. Ég vil alveg taka skýrt fram, að það var í samkomulaginu við verkalýðshreyfinguna að n. var falið það hlutverk beinlínis að flytja inn timburhús. Það var ekki fyrir það, að hún hefði sjálf sérstaklega trú á því, að með þessu væri hægt að leysa einhvern þátt byggingarmálanna hér. Það, sem gerir verð timburhúsanna hér fyrst og fremst óhagstætt, er það, að grunnarnir eru svo dýrir og náttúrlega miklu dýrari en við Mývatn. Hér verður t.d. að borga 110 þús. kr. í gjöld til Reykjavíkurborgar, gatnagerðargjöld, holræsagjöld, heimtaugagjöld og allt slíkt. Þetta þarf ekki að borga við Mývatn að sjálfsögðu. Hér þarf að gera heimreiðar að húsunum, bílastæði og ýmislegt, sem krafizt er, og grunnarnir verða einnig mjög dýrir, en ef maður talar bara um húsin sjálf sem sambærileg, mundi ég segja að verðið væri svipað og jafnvel heldur ódýrara á þessum dönsku húsum. Um gæðamismun hins vegar treysti ég mér ekki til þess að segja

Þá var þessi hv. þm. einnig að spyrja um, hvernig þessi samanburður væri við hús, sem væru byggð annars staðar af öðrum aðilum. Það er nú svo, því miður, að það er ákaflega erfitt að fá raunhæft kostnaðarverð upp hjá öðrum aðilum. Hins vegar vil ég benda á og undirstrika það, að í Breiðholtinu, þar sem framkvæmdanefndin er að byggja sex fjölbýlishús, eru á sama tíma aðrir byggingaraðilar að byggja átta fjölbýlishús alveg af sömu lögun og svipaðri gerð á sama tíma. Þarna eru byggingarsamvinnufélög, þarna eru einstaklingar og ýmsir aðilar, sem eru að þessu, og ég álít, að þegar allir eru búnir að reisa sín fjölbýlishús þarna í Breiðholtinu, sé einmitt sérstakt tækifæri til þess að gera ýtarlegan samanburð. En þá þarf auðvitað að reyna að fá sem nákvæmastar upplýsingar hjá þeim aðilum öðrum, sem eru að byggja. Ekki mun standa á framkvæmdanefndinni að gefa nákvæmar upplýsingar um allan kostnað, sem þar verður. Hinu er ekki að leyna, að það er farið að auglýsa íbúðir í Breiðholti hjá þeim, sem eru að byggja við hliðina á framkvæmdanefndinni, þó að þessi hús séu kannske fokheld eða ekki nema teiknuð. Það er farið að auglýsa hjá sumum, og ég vil segja það, að miðað við það verð, sem þar er gefið upp, er framkvæmdanefndin ákaflega vel samkeppnisfær. En þarna verður að spyrja að leikslokum.

Hitt vil ég svo enn undirstrika að vegna þeirrar lögunar, sem þarna er á blokkunum, eru þær ákaflega óhagstæðar fyrir nýja byggingaraðferð. Það var bara ekki um neinar aðrar blokkir að ræða til þess að skila verulegu magni íbúða en þessar, og þess vegna reiknar framkvæmdanefndin með mun betri árangri á því svæði, sem hún fær að skipuleggja sjálf. Það vil ég undirstrika. Þetta eru tilraunabyggingar.

En þá vil ég að lokum aðeins koma inn á það, sem hv. 4, þm. Austf. sagði hér, að það hefði ekki verið staðið við það að byggja 250 íbúðir á ári. Ég vil enn á ný undirstrika að ef þarna er um sök að ræða, er sú sök ekki hjá ríkisstj. Það hefur ekki staðið á fjármagni frá ríkisstj. til þessara framkvæmda og ég hef enga ástæðu til þess að ætla að það verði í framtíðinni. Það getur að vísu enginn okkar fullyrt í dag, en ég hef enga áatæðu til að ætla það af fenginni reynslu, þannig að ef um sök væri að ræða væri þessi sök hjá framkvæmdanefndinni, en ekki neinum öðrum. Markið var að byggja 1250 íbúðir á 5 árum eða 250 íbúðir á ári. En ef við segjum nú svo, eins og þessi hv. þm., að þetta séu svik hjá ríkisstj., hún hafi svikið þetta samkomulag við verkalýðshreyfinguna, væri þá ekki miklu eðlilegra að það væri verkalýðshreyfingin sjálf og hennar fulltrúar, er stóðu að þessu samkomulagi, sem kæmu til ríkisstj. og segðu: Herrar mínir. Þið hafið svikið þetta, sem þið lofuðuð okkur. Væri ekki eðlilegt, að það kæmu fulltrúar frá verkalýðshreyfingunni til ríkisstj. og ásökuðu hana um þetta og bæðu um leiðréttingu, en ekki hv. 4. þm. Austf. og 11. þm. Reykv.? En þetta hefur verkalýðshreyfingin ekki gert. Hún á fulltrúa í þessari framkvæmdanefnd, og hún skilur vel rökin fyrir því, að það er ekki hægt að ljúka að fullu 1250 íbúðum fyrir árið 1970.