13.12.1967
Neðri deild: 38. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 341 í B-deild Alþingistíðinda. (311)

75. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Fjmrh. (Magnús Jónsson):

Herra forseti. Frv. það til breytinga á lögum um tekju- og eignarskatt, sem hér liggur fyrir, felur í sér nokkur efnisatriði. Í fyrsta lagi er um að ræða heimild til þess, að öllum sjómönnum verði veittur sami sérfrádráttur, 3000 kr. á mán., sem hingað til hefur aðeins verið veittur fiskimönnum. Þetta þykir eðlilegt að gera, þar sem farmenn eru einnig undir það seldir að þurfa að vera langdvölum fjarri sínu heimili, þannig að ekki þykir ástæða til þess að gera þennan mun á og ekki heldur rök fyrir því að telja, að aðrir geti gert kröfur til þess sama eða það skapi nokkurt fordæmi, þó þessi heimild sé veitt farmönnum almennt, eða skipverjum á ísl. skipum, og er það þá bundið við, að það séu engir skyndiskipverjar, heldur menn, sem starfi þar að staðaldri og hafi starfað þar a.m.k. 6 mán. á skattárinu.

Annað atriði frv. er þess efnis, að fasteignamat til ákvörðunar eignarskatti skuli vera með þeim hætti, að núgildandi fasteignamat verði nífaldað, með þeirri undantekningu, að fasteignir í sveitum skuli aðeins margfaldaðar með helmingi þeirrar upphæðar eða 4,5. Svo sem hv. þdm. mun í fersku minni, þá var hér í haust í frv. um efnahagsráðstafanir gert ráð fyrir því að tólffalda fasteignamatið. Enda þótt breyting hafi orðið á aðstöðu allri frá því að það frv. var lagt fram, eftir að gengisbreytingin kom til, þá þykir ekki ástæða til þess að falla frá þessari ákvörðun efnislega, m.a. vegna þess að nauðsynlegt er að afla fjár til þess að standa undir ýmsum aðgerðum í sambandi við gengisbreytinguna og til að létta áhrif hennar, og það er ljóst, að einmitt við breytingu sem þessa, þar sem verðmæti eigna helzt, þegar aftur á móti verðmæti peninga rýrnar, eru fullkomin rök fyrir því, að einhver skatthækkun eigi sér stað, einmitt á eigendum fasteigna. Ástæðan til þess, að breyting er gerð frá hinni upphaflegu till., þar sem gert var ráð fyrir tólfföldun fasteignamatsins, er sú, að vegna þess kostnaðarauka á ýmsum sviðum, sem orðið hefur, þá hefur aðstaða sveitarfélaganna versnað mjög, og það þykir sanngjarnt og eðlilegt, enda í samræmi við óskir þeirra, að þau fái aðstöðu til þess að afla þess tekjuauka fremur með eignarskatti heldur en hækkun útsvara. Það er því fyrirhugað að leggja fyrir þingið nú í dag eða á morgun frv. um breytingu á tekjustofnamálum sveitarfélaga, þar sem m.a. er svo ákveðið, að þeim verði heimilt að hækka fasteignamat við ákvörðun útsvars um sömu fjárhæð og hér er gert, þ.e.a.s. nífalda matið í kaupstöðum og kauptúnum, en margfalda það með 4,5 í sveitum.

Í 3. gr. frv. er sama ákvæði og var í efnahagsfrv., um það, að hækkuð verði skattfrjáls eign um helming, þ.e.a.s. úr 100 þús. í 200 þús. kr. Og þessi breyting öll, enda þótt til komi þetta margfeldi mats, sem hér er um að ræða, mun valda því, að skattskyldum aðilum skv. þessum ávæðum mun fækka en ekki fjölga.

Í 4. gr. er um það að ræða að veita heimild til þess, að oddvitar verði skyldaðir til þess, ef ástæða þykir til, að vera umboðsmenn skattstjóra í sínum hreppum. Nú er gert ráð fyrir því, að það séu hreppstjórarnir, sem gegna þessum starfa, það er í mörgum greinum svo, en hins vegar, ef sumir þeirra hafa skorazt undan því af ýmsum ástæðum, hafa aðrir menn verið til þess skipaðir í þessum sveitarfélögum. Hins vegar þykir full ástæða til þess, þar sem sveitarfélag á mikið í húfi, að þetta gerist með eðlilegum hætti, þar sem framtölin eru einnig undirstaða ákvörðunar á útsvörum til sveitarfélags, að oddvitarnir taki þetta að sér, ef hreppstjórarnir telja sér ekki fært að gegna þessum störfum. Þetta er það efnislega ákvæði, sem í þessari gr. felst.

Önnur efnisatriði eru ekki í þessu frv. Í 5. gr. er lagt til að fella úr gildi nokkur lagaákvæði, en það eru lagaákvæði, sem nú eru í gildi um það margfeldi fasteignamats, sem hingað til hefur gilt, fyrst þreföldun og síðan sexföldun, og af eðlilegum ástæðum falla því þau ákvæði úr gildi.

Ég vil svo leggja til, herra forseti, að þessu frv. verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og hv. fjhn., og miðað við innihald frv., sem hv. þm. mun ljóst vera, þá er það brýn nauðsyn, að það geti orðið afgreitt nú fyrir jólaleyfi og þess vegna vildi ég leyfa mér að óska þess, að n. reyndi að hraða störfum sínum eins og frekast er auðið.