26.01.1968
Sameinað þing: 30. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 605 í D-deild Alþingistíðinda. (3114)

196. mál, lánveitingar úr Byggingasjóði ríkisins

Þórarinn Þórarinsson:

Herra forseti. Ég ætla ekki að blanda mér í þessar umr. almennt, en aðeins víkja að einu atriði. sem kom fram hjá hæstv. félmrh.

Félmrh. hélt því fram, að aðstaða manna til að koma sér upp íbúðum, eignast sitt eigið húsnæði, hefði verið miklu lakari á vinstristjórnartímunum en hún væri nú. Það er náttúrlega að ýmsu leyti erfitt að gera samanburð á þessu. En þó hygg ég, að með einu móti megi gera það nokkuð örugglega, og það er að bera saman tölu fulllokinna íbúða á hvoru tímabilinu um sig. Og svo vill til, að hér í tölfræðihandbókinni, sem þm. fengu fyrir nokkru síðan, eru upplýsingar um þetta hvað snertir kjördæmi okkar hæstv. ráðh., Reykjavík. Þar segir, að á árinu 1957 hafi tala fulllokinna íbúða í Reykjavík verð 935 og árið 1958 865, eða á þeim tveimur árum, sem vinstri stjórnin fór með völd, hafi til jafnaðar verið fulllokið 900 íbúðum í Reykjavík.

En hvernig hefur ástandið verið síðan? Hefur þessi tala ekki stórkostlega hækkað, vegna þess að nú sé miklu betur búið að húsbyggjendum heldur en áður var? Ja, hvað segir tölfræðihandbókin um það? Þær tölur, sem eru í henni um þetta atriði, hljóða á þessa leið: Árið 1960, þá nam tala fulllokinna íbúða í Reykjavík 642, árið 1961 541, árið 1962 598, árið 1963 665 og árið 1964 574. Lengra ná þessar tölur ekki, og mér sýnist af þessu, að á þessum 5 viðreisnarárum hafi tala fullokinna íbúða í Reykjavík verið kringum rúmlega 600 á ári eða um 300 færri árlega en var á vinstristjórnarárunum.

Ég hygg, að þessi tala sé alveg glöggur mælikvarði á það, á hvorum tímunum hafi verið auðveldara að koma upp íbúðum hér í Reykjavik. Það má vel vera, að lán húsnæðismálastjórnar hafi verið eitthvað hærri á síðara tímabilinu en á hinu fyrra. En það er ekki eingildur mælikvarði í þessum efnum. Það verður einnig að taka það til greina, hvaða möguleika menn hafa til að afla sér lánsfjár utan við húsnæðislánakerfið. Og það er bersýnilegt á þessum tölum, að það hefur verið miklu betra á fyrra tímabilinu en á því síðara. Til. þess liggur alveg augljós ástæða, því að síðan núv. ríkisstj. kom til valda, hafa helgreipar Seðlabankans meira og minna tekin sparifé úr lánastofnunum og bundið það á fastan reikning. Áður fyrr gátu sparisjóðir og viðskiptabankar og ýmsar stofnanir aðrar greitt fyrir mönnum til að koma upp sínu eigin húsnæði. Síðan þessar reglur Seðlabankans komu til sögunnar, þá má heita að þetta sé sama og útilokað, og það er þetta, sem gerir gæfumuninn í þessum efnum. Ég fullyrði þess vegna alveg hiklaust og byggi það á þessum tölum, sem ég hef lesið upp úr tölfræðihandbókinni, að það hafi verið miklu auðveldara fyrir menn að koma sér upp sínu eigin húsnæði á fyrra tímabilinu heldur en nú er.