26.01.1968
Sameinað þing: 30. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 606 í D-deild Alþingistíðinda. (3115)

196. mál, lánveitingar úr Byggingasjóði ríkisins

Vilhjálmur Hjálmarsson:

Herra forseti. Ég held, að þessi fsp. okkar þremenninganna hafi verið gagnleg og þær umr., sem fram hafa farið, nauðsynlegar og skýrt nokkuð málið.

Hæstv. ráðh. virtist kunna því illa, hvað ég lagði mikla áherzlu á það, að þunglega horfði um þessi mál, í þeim fáu orðum, sem ég sagði hérna áðan. Hann vildi bera saman við fyrri tíma, meðan húsnæðislánakerfið var enn í mótun. Það er að sjálfsögðu engin ástæða til þess að skorast undan slíkum samanburði, enda sé þá tekið tillit til aðstæðna. Framsóknarmenn þurfa ekki neitt að hika við það, en það er bara enginn tími til þess að fara í slíkan samanburð í fyrirspurnatíma.

Það er orðin nokkuð glögg mynd og þó í fáum dráttum af ástandi þessara mála, sem hér hefur komið fram nú. Það var strax upplýst í fyrstu ræðu ráðh., hve gífurleg bið það er, sem blasir við þeim, sem nú eru að byggja. Þeir, sem höfðu allt tilbúið til lántöku á s.l. sumri miðju, þeir hafa von um byrjunarlán í sept. á þessu ári. Hæstv. ráðh. sagði, að það þyrfti að bíða í mörgum lánakerfum. Það þykir nú ekki allt í sóma hjá okkur í lánamálum landbúnaðarins. En svona afgreiðslu þekkjum við varla í því kerfi, Og svo sagði hæstv. ráðh.. að þeir, sem ekki hefðu sótt um fyrr en eftir 15. marz s.l., um þeirra mál væri ekkert að segja!

Það hefur líka komið hér fram, svo ekki verður um villzt, að Breiðholtsframkvæmdirnar, sem auðvitað eru mjög gagnlegar á sínum stað, að þær hafa orðið baggi á hinu almenna íbúðalánakerfi, gagnstætt því, sem þær áttu að vera samkv. júní-samkomulaginu. Og þetta er vegna þess, að það hefur ekki verið staðið við fjárútveganir annars staðar frá. Og það leikur sterkur grunur á því, að einnig í sambandi við Breiðholtsmálið alveg sérstaklega og úthlutun til einstakra bygginga þar, hafi lög verið brotin, þannig að það hafi verið lánað út á íbúðir þar fyrr en þær voru lánshæfar skv. ákvæðum l. Það leikur sterkur grunur á þessu.

Það hefur verið upplýst hér, að það hefur ekki verið staðið við júní-samkomulagið í ýmsum greinum, m.a. um byggingu ákveðins fjölda sérstakra íbúða sem þá var samið um. Og það er vitanlega brot á júní-samkomulaginu að láta vísitölubindingu húsnæðislána haldast, eftir að allur grundvöllur er undan því atriði fallinn, eins og allir sjá, að nú er orðið. Ætti ekki að þurfa miklar vangaveltur til þess að komast að niðurstöðu um að afnema það ákvæði, eins og málum er nú komið.

Mér skildist á hæstv. ráðh. áðan, að óvissan færi sífellt minnkandi hjá húsbyggjendum, að hún hafi aldrei verið minni en í dag. Þetta er hraustlega mælt. Ég vil aftur á móti undirstrika það gagnstæða. Óvissan í þessum málum nú er alveg geigvænleg. Og það hefur ekkert komið fram í þessum umr., engar minnstu upplýsingar um það, að ríkisstj. hafi ný áform á prjónunum um auknar fjárútveganir. Það er þó vissulega tvöföld ástæða til slíkra aðgerða nú, eftir að gengið hefur verið lækkað. Annars vegar sú, að þá hækkar byggingarkostnaður stórkostlega og hagur húsbyggjenda þrengist af þeim sökum. Hin er sú, að atvinnuleysi hefur þegar gert vart við sig, og af þeirri ástæðu væri einnig mikil ástæða til þess að vinna að nýrri og aukinni fjáröflun í íbúðalánakerfið, til þess að koma í veg fyrir stórfelldan samdrátt í byggingariðnaði. Svo er það auðvitað almennt talað brýn nauðsyn að halda íbúðalánakerfinu gangandi, að reka þá lánastarfsemi á eðlilegan hátt, en því fer fjarri, að það sé gert nú.