26.01.1968
Sameinað þing: 30. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 607 í D-deild Alþingistíðinda. (3116)

196. mál, lánveitingar úr Byggingasjóði ríkisins

Félmrh. (Eggert G. Þorsteinsson) :

Herra forseti. Hv. 1. þm. Austf, sagði hér áðan: Því var yfir lýst, að þessir peningar, þ.e.a.s. það, sem þyrfti að nota til byggingarframkvæmdaáætlunarinnar, ættu að koma annars staðar frá. Ég vil gjarnan óska eftir því varðandi framhaldsumr. um málið, að hv. þm. finni orðum sínum stað og skýri frá því, hvar þessi yfirlýsing er niður komin og hver hafi gefið hana. Það er mjög æskilegt upp á framhaldsumr. um málið.

Varðandi það atriði, að þessar byggingarframkvæmdir í Breiðholti hafi leitt til þess, að menn fengju lægri lán, eins og hv. 1. þm. Norðurl. e. sagði, þá er það algjör misskilningur. Lánaupphæðin er bundin í l. og bundin ákveðin árleg hækkun samkv. ákveðinni viðmiðun. Ég geri hins vegar ráð fyrir því, vil leggja þetta þannig út, að færri almenn lán hafi verið veitt, það sé hugmynd þm. Ég vil enn fremur undirstrika það, sem ég sagði áður og kom fram í ræðu hans, að ég er reiðubúinn til að gefa allar frekari upplýsingar um, hvernig hinar almennu lánveitingar hafa átt sér stað, eftir öllum möguleikum og nota alla möguleika sem í því efni gefast, til að láta allan þingheim vita það sanna og rétta í þeim málum, eins og ég tel mig hafa gert í þeim svörum, sem ég gaf upphaflega í þessum umr. við fyrirspurnum hv. fyrirspyrjenda. Þær eru frá hlutaðeigandi aðildum komnar, en ekki tilbúnar af mér.

Varðandi skiptinguna á milli byggðarlaga, sem hv. þm. minnti á, þá reyndi um skeið ekki á það, að til þess þyrfti að koma, meðan hægt var í þrennum lánveitingum að fullnægja öllum fyrirliggjandi lánsumsóknum. Og um þá skiptingu gilda ákveðnar reglur, og efa ég það ekki, að sú stjórn, sem skipuð er fulltrúum allra flokka húsnæðismálastjórn, sjái um löglega framkvæmd þessara hluta, Ég hef enga ástæðu til þess. Ég bekki þá menn alla sem þar starfa, að samvizkusemi um það að fylgja lögum og reglum í þessu efni, og ég vil ekki láta því ómótmælt, að þeir brjóti þær reglur, sem þar eru fyrir þá lagðar.

Varðandi fullyrðingar hv. 4, þm. Reykv. um það, að hagstofutölurnar sýndu, að byggingar eða íbúðaframkvæmdir í Reykjavík væru minni nú í tíð hæstv. núv. ríkisstj. en í tíð hæstv. vinstri stjórnar, þá segja þær tölur ekkert um það, hvort lán húsnæðismálastjórnar í þeim heildartölum, sem þar eru, hafi verið fleiri eða færri á þessum árum. Það er algjör blekking að halda því fram, að þátttaka húsnæðismálastjórnar hafi verið minni samkv. þessum tölum en á árunum á undan. Það er vísvitandi verið að blekkja menn með slíkum fullyrðingum. Húsnæðismálastjórn eða ríkisstj. á hverjum tíma verður hins vegar ekki sökuð um það, hvort aðrar lánastofnanir, sem ekki heyra undir hennar stjórn, hvort geta þeirra til íbúðabyggingalána eða eins og annars sé minni á þessum tíma eða öðrum.

Ég tel, eins og ég sagði áðan, að þessar umr. hafi verið mjög gagnlegar, og ég tek undir það með fyrirspyrjendum, að það hafi verið þörf á því að hreyfa þessum málum hér, og e.t.v. gefst síðar betri aðstaða til að ræða þessi mjög svo umfangsmiklu mál en gert er í fyrirspurnatíma á Alþ., þó að við höfum nú notað nánast allan fundartímann.