13.12.1967
Neðri deild: 38. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 343 í B-deild Alþingistíðinda. (312)

75. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Eysteinn Jónsson:

Herra forseti. Það eru tvö atriði í þessu frv., sem mig langar til að segja um örfá orð, áður en málið fer til n., og vil ég mæla með öðru, en í móti hinu.

Það er fyrst út af 1. gr. Þar er gert ráð fyrir því, að sérstakur frádráttur frá skattskyldum tekjum, sem heimilaður hefur verið fiskimönnum, gildi einnig fyrir farmenn. Ég hef átt þátt í því oftar en einu sinni að setja í lög, að sérstakur frádráttur verði heimilaður fiskimönnum með því móti eða hliðstæðu móti og nú er í gildandi l. Þetta hefur verið gert skv. þeirri hugsun, að vegna þess hversu sjómenn eru mikið að heiman, verði heimilishald þeirra yfirleitt dýrara en annarra manna og örðugra og þeir geta minna unnið fyrir sjálfa sig en aðrir. En það, sem menn vinna fyrir sjálfa sig, er yfirleitt ekki talið til skatts. Hefur mér því ævinlega fundizt þetta vera sanngjarnt, að heimila sérstakan frádrátt hjá sjómönnum til að jafna þetta. Ég vil því fyrir mitt leyti mæla með því, að það sem hér er stungið upp á, verði samþykkt, að þetta gildi einnig fyrir farmenn. Mér sýnist sanngjarnt, að þetta gildi einnig fyrir sjómenn á flutningaskipum. Og ég vil segja það sem mína skoðun, að ég álít, að aðrar stéttir geti ekki með rökum fundið að því, þó þetta sé veitt sjómönnum sérstaklega eða skírskotað til þessara ákvæða til þess að rökstyðja sams konar hlunnindi handa sér. Ég tel, að sjómenn hafi að þessu leyti sérstöðu og er sammála því, sem hæstv. ráðh. sagði um það.

Hitt ákvæðið, sem ég vildi minnast á, er í 2. gr. Mér finnst, að það ætti að fella þá gr. niður úr frv. og hætta við þá fyrirætlun, sem þarna kemur fram um að hækka eignarskattinn, skattinn á fasteignum, því það er það, sem þarna er raunverulega stungið upp á, að hækka mjög skattinn á fasteignum. Þetta finnst mér, að ætti að falla niður.

Ég bendi á í því sambandi, að ríkið fær nú geysilega miklar nýjar tekjur, of fjár, sem flæða inn í ríkissjóðinn á næstunni umfram útgjöld, a.m.k. miðað við óbreytta tekjuöflunarlöggjöf, og því engin þörf á því að seilast eftir nýjum tekjustofnum eins og nú er ástatt, síður en svo.

Í öðru lagi vil ég svo sérstaklega leggja áherzlu á, að fyndist mönnum það skynsamlegt að auka gjöld af fasteignum, þá virðist mér miklu skynsamlegra og réttlátara, að sveitar- og bæjarfélögin njóti þess eingöngu. Þeim mun sannarlega ekki af því veita, ef slíkt yrði talið fært á annað borð. Þess vegna vil ég strax við þessa 1. umr. benda einnig á þetta, að þessa 2. gr. ætti að fella niður úr frv.