07.02.1968
Sameinað þing: 34. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 612 í D-deild Alþingistíðinda. (3126)

109. mál, bandaríska sjónvarpið

Fyrirspyrjandi (Magnús Kjartansson) :

Herra forseti. Það er í sjálfu sér næsta óeðlilegt að bera fram fsp. um sjónvarpsmál hér á Alþ, og fara fram á, að hæstv. utanrrh. svari. Lögum samkv. hefur ríkið einkarétt á allri útvarpsstarfsemi á Íslandi, og eðli sínu samkv. heyrir sú starfsemi undir hæstv. menntmrh., sem ætti að svara fsp. um sjónvarpsmál, ef allt væri með felldu. En því miður er ekki allt með felldu á þessu sviði. Ríkisstj. Íslands afhenti bandaríska hernámsliðinu hluta af einkarétti sínum með lagaheimildum, sem ég hef aldrei komið auga á, fyrst til hljóðvarpsstarfsemi og síðan til sjónvarpsstarfsemi. Og síðan hafa íslenzk stjórnarvöld í verki framfylgt þeirri stefnu, að hljóðvarps- og sjónvarpsstarfsemi hernámsliðsins væri undanþegin íslenzkri lögsögu, hvorki Alþingi Íslendinga né ríkisstj. mættu hlutast til um þessar athafnir í herstöðinni. Hafa verið gerðar ítrekaðar tilraunir til þess að fá Alþ. og ríkisstj. til þess að mæla fyrir um útvarpsstarfsemi hins erlenda liðs, en árangurslaust. Hernámsliðið var talið ríki í ríkinu á þessu sviði, og þess vegna hefði orðið að fara þá leið að biðja hæstv. utanrrh. að hagnýta diplómatísk tengsl sín við hið erlenda ríki til þess að útvega Alþ. vitneskju um þennan þátt sjónvarps á Íslandi.

Hér er því miður ekki ráðrúm til þess að rekja sögu dátasjónvarpsins, þótt hún sé ákaflega lærdómsrík, enda ætti hún að vera flestum hv. alþm. í fersku minni. Allir vita, hvernig hernámsliðið hagnýtti einkaaðstöðu sína til þess að tryggja sér daglegt áhrifavald á mörgum þúsundum heimila, en sá menningarlegi og pólitíski yfirgangur leiddi svo aftur til þess, að menn úr öllum stjórnmálaflokkum risu öndverðir gegn þessari innrás stórveldisins í íslenzka menningarhelgi. En einnig eftir að Íslendingar höfðu unnið fullan, málefnalegan sigur í þessari baráttu; eftir að hæstv. menntmrh. hafði viðurkennt, að ástandið væri óviðunandi og ósamboðið Íslendingum sem sjálfstæðri menningarbjóð; eftir að formaður útvarpsráðs, hv. alþm. Benedikt Gröndal, hafði viðurkennt, að málið væri andstyggileg sjálfhelda; eftir að ritstjóri Morgunblaðsins, Matthías Johannessen, hafði flokkað starfsemi dátasjónvarpsins undir fákunnáttu og klaufaskap, slys eða óhapp í stjórn íslenzkra menningarmála einnig eftir allar þessar játningar var haldið fast við það af hálfu stjórnarvalda að Íslendingar mættu ekki skerast í leikinn og vernda þjóðlega hagsmuni sína. Frumkvæðið yrði að koma frá hernámsliðinu sjálfu, og síðan kom frumkvæðið eftir þeirri boðleið, hvernig sem aðdragandinn hefur verið 6. sept. 1966 skrifaði Weymouth aðmíráll á Keflavíkurflugvelli hæstv. utanrrh. bréf og greindi honum frá því, að vegna hagsmuna hernámsliðsins sjálfs yrði að takmarka sendingar dátasjónvarpsins við herstöðina eina, þegar íslenzka sjónvarpið hæfi starfsemi sína. Hæstv. utanrrh, svaraði daginn eftir og komst m.a. svo að orði, með leyfi hæstv, forseta:

„Með tilliti til þess ástands, sem þér lýsið, mun ríkisstj. Íslands ekki vera mótfallin till. yðar um að draga úr sjónvarpssendingum yðar, þannig að þær verði takmarkaðar við venjulega sjónvarpsmóttöku á heimilum i næsta nágrenni Keflavíkur.“

En einnig kom hæstv. ráðh. á framfæri þeirri ósk sinni, að breytingar á dátasjónvarpinu yrðu samræmdar tilkomu íslenzka sjónvarpsins. Í þeirri ósk reyndist felast sú afstaða að sendingar íslenzka sjónvarpsins voru taldar tilraunasjónvarp fyrsta árið, en á meðan fór hæstv. utanrrh. sem sé fram á það, að starfsemi dátasjónvarpsins héldi áfram.

16. ágúst í fyrra skrifaði hæstv. utanrrh. bandaríska aðmírálnum loksins nýtt bréf og lýsti yfir því, að af Íslands hálfu væri nú ekkert því til fyrirstöðu, að Bandaríkjamenn gerðu hinar fyrirhuguðu breytingar á sjónvarpssendingum sínum. Og nokkrum dögum síðar sendi yfirmaður hersins frá sér fréttatilkynningu, þar sem svo var komizt að orði, með leyfi hæstv, forseta:

„. . að útsendingar sjónvarps varnarliðsins verði takmarkaðar í samræmi við samkomulagið frá sept. 1966. Þar af leiðandi verða útsendingar sjónvarps varnarliðsins, AFRTS, takmarkaðar við Keflavíkurflugvöll og næsta nágrenni hans frá og með 15. sept. 1967.“

Um sömu mundir lýsti aðmírállinn yfir því í viðtölum við íslenska sjónvarpið og hérlend blöð, að sendingar bandaríska sjónvarpsins yrðu takmarkaðar svo tryggilega, að þess yrði t.d. enginn kostur að sjá þær í Reykjavík, ekki heldur þótt menn reistu risagálga á þökum húsa sinna og keyptu sér hina öflugustu magnara.

Nú eru senn liðnir 5 mánuðir frá þeim degi, þegar takmörkunin átti að koma til fullra framkvæmda, en samt fer því enn mjög fjarri, að sendingarnar séu takmarkaðar við Keflavíkurflugvöll og næsta nágrenni hans. Sendingarnar sjást enn viðast hvar á Reykjavíkursvæðinu, og þar sem myndgæðin eru ekki nægilega góð, hlaupa sjónvarpsvirkjar undir bagga og bæta úr skák með nýjum loftnetum og mögnurum. Hinar skýlausu yfirlýsingar aðmírálsins hafa reynzt ómerkar allt til þessa. Því spyr ég hæstv. utanrrh.: Hvað veldur? Hvenær má vænta fullra efnda á samningsbundnum loforðum Bandaríkjanna við ríkisstj. Íslands og skýlausum fyrirheitum Stones aðmíráls?