07.02.1968
Sameinað þing: 34. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 614 í D-deild Alþingistíðinda. (3127)

109. mál, bandaríska sjónvarpið

Utanrrh. (Emil Jónsson):

Herra forseti. Út af þessari fsp. hv. 6. þm. Reykv. hef ég óskað eftir því við formann varnarmálanefndar, að hann gefi mér skýrslu um þetta mál. en varnarmálanefnd og formaðurinn sjálfsagt alveg sérstaklega fylgjast með þessu máli eins og öðrum, sem varnarliðið snertir. Hann hefur nú gefið mér stutta skýrslu um málið, sem ég, með leyfi hæstv. forseta, vildi lesa upp, því að ég held, að hún skýri málið bezt. Hún er svo hljóðandi:

„Frá 15. sept. 1967 hafa verið gerðar margs konar ráðstafanir í því skyni að torvelda móttöku sjónvarpsmynda utan varnarsvæðanna frá sjónvarpsstöð varnarliðsins. Þessar ráðstafanir hafa gert það að verkum, að sjónvarpsmyndin er ekki lengur nothæf fyrir langflesta íbúa Reykjavíkursvæðisins. Hins vegar hafa ófyrirsjáanlegir tæknilegir erfiðleikar við að stilla sjónvarpsmastur orðið þess valdandi, að ekki hefur verið unnt að útiloka með öllu sjónvarpssendingar til Reykjavíkursvæðisins án þess að valda truflunum á Keflavíkursvæðinu. Tilraunum til þess að ráða bót á þessu er stöðugt haldið áfram. Hinn 6. og 7. des. s.l. fékk yfirmaður varnarliðsins íslenzka útvarpsvirkja til þess að rannsaka árangur þeirra lagfæringa, sem gerðar höfðu verið á sjónvarpsmastri Keflavíkursjónvarpsins frá 15. sept. s.l. Voru framkvæmdar 45 skipulagsbundnar mælingar í Reykjavík og nærliggjandi byggðarlögum. Að undanteknum fjórum stöðum, er lágu langt hver frá öðrum, gáfu allar hinar mælingarnar til kynna, að útsending stöðvarinnar væri lakari en svo, að hún væri nothæf á Reykjvíkursvæðinu. Þar með var yfirgnæfandi meiri hluti íslenzkra sjónvarpsnotenda útilokaður frá að sjá stöðina, en ráðstafanir til þess að draga úr sendikrafti til áðurnefndra fjögurra staða hafa þó verið gerðar. Hinn 26. f. m., þ.e.a.s. 26. jan., fékk varnarliðið sérstök tæki frá Bandaríkjunum til þess að setja á útvarpsmastrið, en erfið veðurskilyrði hafa fram að þessu hindrað, að unnt væri að koma þeim fyrir. Þau verða sett upp strax og veður leyfir. Er þess vænzt, að hin nýju tæki dragi svo úr allri útsendingu til Reykjavíkursvæðisins, að sjónvarpsmynd verði þar með öllu ónothæf. Ef þessar aðgerðir reynast enn ekki nægilegar, hefur varnarlíðið heitið því, að enn frekari ráðstafanir verði gerðar.“

Þetta er í örstuttu máli saga málsins. Ég get aðeins bætt því við, að ég hef sjálfur reynt að taka Keflavíkursjónvarpið á sjónvarpstæki, sem ég hef undir höndum og nokkurs staðar annars staðar, og minn dómur eða reynsla af því er sú, að það sé algerlega ónothæft þar, sem ég hef reynt það. Mitt mat á þessu sker auðvitað ekki úr, en það, sem sker úr, er umsögn útvarpsvirkjanna sem kannað hafa málið og gert mælingar á 45 stöðum með þeim árangri, að 41 staður hefur verið útilokaður, en 4 virðast nokkurn veginn geta séð sjónvarpið. En það verður svo lagað, þegar hin allra nýjustu tæki koma. Vænti ég, að þetta sé nægilegt svar við fsp.