13.12.1967
Neðri deild: 38. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 343 í B-deild Alþingistíðinda. (313)

75. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Lúðvík Jósefsson:

Herra forseti. Skv. þessu frv. er gert ráð fyrir því, að fasteignaskattur til ríkisins verði hækkaður allverulega frá því, sem hann nú er, og einnig er það boðað, að útsvör af fasteignum eigi að hækka. Ég tók eftir því, að hæstv. fjmrh. rökstuddi þessar till. varðandi hækkun á fasteignaskattinum með því, að afla þyrfti ríkissjóði tekna til þess að hægt væri að gera ýmsar ráðstafanir, sem talið var að gera þyrfti vegna gengislækkunarinnar. Ég hef ekki getað heyrt rök flutt fyrir því hér, þegar gengislækkunarmálið hefur verið rætt, að það sé nein brýn þörf á því, að ríkissjóður fái þennan nýja tekjuauka af fasteignum til viðbótar við þá tekjustofna, sem ríkið hefur í sambandi við gengisbreytinguna. Þvert á móti er það augljóst mál, að tekjur ríkissjóðs munu stórhækka vegna gengislækkunarinnar, og meðan ekki liggur annað fyrir en það, að þær tekjur muni stóraukast frá því, sem áður var, og reyndar er heldur ekki farið að gera grein fyrir þeim öðrum ráðstöfunum, sem eiga að fylgja með gengislækkuninni og valda munu ríkissjóði útgjöldum, þá get ég fyrir mitt leyti ekki fallizt á það, að þessi nýja skattahækkun verði látin ná fram að ganga.

Ég vil benda á það, að þessi skattur, sem hér er um að ræða, mundi að öllum líkindum koma til með að hvíla á svo að segja öllum aðilum í í landinu, sem eiga sína eigin íbúð. Þeir yrðu tiltölulega fáir íbúðaeigendurnir í landinu, sem slyppu við þennan nýja skatt. Með því að gert er ráð fyrir því að nífalda fasteignamatið, t.d. á íbúðum, þá eru þær komnar í það verð, að ég hygg, að þó að heimilaður frádráttur sé hækkaður úr 100 þús. kr. upp í 200 þús. kr. í þessum efnum, þá verði flestallir íbúðaeigendur eignaskattsskyldir skv. þessu ákvæði. Hér er því um það að ræða, hvort nú þyki tímabært að ákveða það að leggja til viðbótar við allar aðrar álögur sérstakan skatt m.a. á íbúðaeigendur í landinu. Ég fyrir mitt leyti er á móti því og er því andvígur þessu meginatriði í frv.

Varðandi það atriði, sem fram kemur í 1. gr., um það að útfæra þennan sjómannafrádrátt, sem miðaður hefur hingað til verið við fiskimenn eina, til annarra sjómanna, get ég vel fallizt á það, en þó er mér ljóst, að það er allmikill munur á aðstöðu fiskimanna og annarra sjómanna, svo ég legg það ekki að jöfnu í sambandi við þessa frádráttarliði. En ég tel þó, að aðrir sjómenn en fiskimenn eigi fullan rétt á því að fá þennan litla frádrátt, sem hér er um að ræða, og þannig sé tekið tillit til þess, að þeir afla tekna sinna með þeim hætti, að þeir eru fjarri heimilum sínum og geta ekki notið margvíslegra fríðinda, sem þeir njóta, sem heima geta verið. En eigi að síður læt ég þá skoðun mína í ljós, að ég teldi fulla þörf vera á því að auka enn frá því sem er í lögum frádráttinn til fiskimanna, en þeir verða vitanlega að hafa margvíslegan algjöran aukakostnað fram yfir aðra í sambandi við störf sín, sem rétt er að taka tillit til. Þeirra störf eru með þeim hætti. Ég vil sem sagt hér við 1. umr. um þetta mál lýsa því yfir, að ég er andvígur þeirri hækkun á fasteignaskattinum, sem lagt er til með þessu frv. að gera, og ég tel, að það hafi engin rök komið fram af hálfu ríkisstj. um það, að það sé þörf á því, að ríkissjóður fái þennan viðbótartekjustofn.