07.02.1968
Sameinað þing: 34. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 620 í D-deild Alþingistíðinda. (3135)

109. mál, bandaríska sjónvarpið

Dómsmrh. (Jóhann Hafstein):

Herra forseti. Mín afskipti af þessu máli voru að reyna að leggja lið þessum áhugasömu mönnum, sem hér telja sig berjast þjóðhollri baráttu. Ég hélt þess vegna að þessari till. minni mundi verða fagnað af þessum hv. þm., sem telja að sjónvarp frá Keflavík sé mjög þjóðhættulegt og til mikils angurs fyrir alla þá, sem horfa á sjónvarp. Að koma skoðanakönnun í gang hlýtur að vera mjög auðvelt, því að það eru skráðir allir sjónvarpseigendur, svo að það þyrfti ekki annað en að láta fylgja svolítinn reit með, þegar verið væri að innheimta sjónvarpsgjaldið. Þar gætu menn sett í lokaðan reit og þar með sent innsiglað til sjónvarpsins, hver væri afstaða þeirra í þessu máli. Menn mega ekki misskilja það, að ég var að reyna að leggja þeim þarna vopn í hendur, sem telja sig hafa sterka afstöðu í þessu máli.