07.02.1968
Sameinað þing: 34. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 623 í D-deild Alþingistíðinda. (3139)

198. mál, framkvæmdaáætlun fyrir Norðurland

Fyrirspyrjandi (Eyjólfur K. Jónsson):

Herra forseti. Ég flyt hér ásamt hv. 4. þm. Norðurl. v. fsp. til hæstv. fjmrh. um Norðurlandsáætlun. Það er alkunna, að við gerð Norðurlandsáætlunar eru miklar vonir bundnar. Hinu er ekki að leyna, að mönnum finnst dragast um of, að lokið sé gerð áætlunarinnar. Mér er að vísu ljóst, að þótt formlega hafi ekki verið gengið frá Norðurlandsáætlun, hefur mikið verið gert til að bæta atvinnuástandið norðanlands á undangengnum árum, enda hafa fjárveitingar úr Atvinnujöfnunarsjóði og Atvinnuleysistryggingasjóði þegar haft verulega þýðingu ásamt starfsemi atvinnumálanefndar Norðurlands. Þá má heldur ekki gleyma stórverkefnum eins og byggingu kísilgúrverksmiðjunnar við Mývatn, kaupum Hafarnarins og síldarflutningum til Siglufjarðar og nú síðast ákvörðuninni um byggingu strandferðaskipanna á Akureyri. Allt eru þetta dæmi um þá nýju byggðastefnu, sem hefur verið að ryðja sér til rúms.

Víst er það rétt, að við Íslendingar lifum nú erfiðleikatímabil og ekki er nema eðlilegt, að það taki menn nokkurn tíma að átta sig á breyttum aðstæðum. En við ætlum okkur að sjálfsögðu að sigrast á þessum erfiðleikum til þess eru þeir. Og þess er þá að geta, að á atvinnusviðinu hafa erfiðleikarnir verið mestir norðanlands og því eðlilegt, að megináherzla sé lögð á lausn þeirra, eins og að er stefnt í Norðurlandsáætluninni.

Ég skal ekki fjölyrða um þau verkefni, sem nefnd hafa verið í sambandi við gerð Norðurlandsáætlunar. Þau eru fjölmörg, eins og raunar er um viðfangsefni um land allt, og bíða þess að verða leyst. Þar með er þó vissulega ekki sagt, að lítið hafi verið gert hérlendis á liðnum áratugum. Þvert á móti hefur í öllum landshlutum verið staðið þannig að framfaramálum, að þótt það kunni að hafa verið rétt, að Íslendingar byggju í harðbýlu landi, hafa ein eða tvær kynslóðir breytt því svo, að nærri stappar, að það sé þegar bezta land veraldar. Við skulum ekkert vera að gera lítið úr eigin ágæti, dugnaði íslenzku þjóðarinnar. Ég hygg, að okkur sé nauðsynlegt að trúa því, að við séum a.m.k. engir eftirbátar annarra. Við þurfum sjálfsagt á talsverðu stolti að halda til að byggja upp þetta fámenna samfélag. En við værum meira en lítið drýldnir, ef við gleymdum því, að það eru landgæðin, auðurinn til sjávarins og til landsins, sem velgengni okkar hefur verið byggð á. Skoðun mín er sú, að við höfum öll skilyrði til að breyta þeirri vörn, sem við höfum haldið uppi að undanförnu, í nýja stórsókn til aukinna framfara ef við höfum djörfung til að takast á við verkefnin um land allt, nýta landgæðin hvar sem þau er að finna leita nýrra leiða til atvinnurekstrar og stofna félög almennings til að hrinda þessu í framkvæmd. Að því eiga framkvæmdaáætlanir eins og Norðurlandsáætlun að miða. Okkur ber að hraða sem mest má verða rannsókn á auðlindum landsins og sjávarins, og það ætti að vera barnaleikur þeirrar kynslóðar, sem nú er á bezta starfsaldri, að halda áfram starfi þeirra, sem eldri eru, og bæta svo lífsafkomu þjóðarinnar, að hvergi væri betri lífskjör að finna en einmitt hér. Og ljóst er það, að batnandi lífskjör þjóðarinnar ber að nota til að efla menningu hennar, listir og vísindi, svo að til Íslands verði litið sem fyrirmyndarlands, þar sem jafnræði, menning og lýðræði skipi öndvegi. Gerð Norðurlandsáætlunarinnar er einn þáttur í þessu starfi — og ekki sá ómerkasti, því að við verðum að gera okkur grein fyrir því, að fólkið í landinu á að búa við sem jöfnust lífskjör og njóta sem jafnastrar aðstöðu til menntunar og menningarlegs þroska, hvort sem það býr sunnanlands eða norðan, austanlands eða vestan, því að landið allt verðum við að byggja og nýta alla þess auðlegð.

Fsp. sú, sem hér er rædd, er flutt í trausti þess, að umr. um hana megi verða til þess, að landsmenn geri sér gleggri grein fyrir nauðsyn atvinnuuppbyggingar úti um land en ella, og einnig, að þær yrðu til þess, að hraðað yrði framkvæmdum við Norðurlandsáætlun, sem vissulega er lífshagsmunamál byggðanna á Norðurlandi.