13.12.1967
Neðri deild: 38. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 344 í B-deild Alþingistíðinda. (314)

75. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Skúli Guðmundsson:

Herra forseti. Ég vil gera að umtalsefni með nokkrum orðum ákvæði 2. gr. frv. og vil taka undir það, sem hér hefur þegar komið fram, að ég tel, að það eigi að fella hana úr frv. En í sambandi við það mál virðist mér full ástæða til að spyrja hæstv. ráðh. um það, hvað líði því fasteignamati, sem unnið hefur verið að um árabil. Það voru sett lög um fasteignamat og fasteignaskráningu árið 1963, tímanlega á því ári, þau eru nr. 28. Í þeim lögum kemur fram, að þá hefur aðalmat fasteigna verið í undirbúningi. En þrátt fyrir það og þrátt fyrir það, þótt svona langt sé um liðið, þá hefur það ekki enn séð dagsins ljós. Ég tel þetta mjög óeðlilegan drátt, sem orðið hefur á því að ljúka þessu mati. Og ég tel, að hæstv. stjórn eigi að verulegu leyti sök á því. Mér er sagt, að hún hafi skipað fyrir formann í yfirfasteignamatsnefnd rektor Háskóla Íslands. Ekkert efast ég um, að hann sé vel fær um að gegna því starfi, en hitt er annað mál, að ég lít svo á, að forstöðumaður æðstu menntastofnunar þjóðarinnar hafi þar ærið verkefni og það sé ekki heppilegt að fela honum til viðbótar umfangsmikil aukastörf. Það hefði þess vegna verið réttara að ráðstafa því starfi með öðrum hætti og fela það manni, sem hefði betri tíma til að sinna því. Ég vildi sem sagt óska upplýsinga um það, hvað þessu verki líður.

Í 2. gr. frv. er lagt til, að virðing á fasteign til eignarskatts skuli miðuð við gildandi fasteignamat nífaldað. Skv. þessu er til þess ætlazt, að fasteignamatið sé hækkað jafnmikið í öllum kaupstöðum og kauptúnum landsins. Nú er það kunnugt, að hér í Reykjavík og nágrenni hennar hafa verið húsnæðisvandræði um mörg ár, vegna þess, hvað margt fólk flytur sig hingað og vill búa hér á þessu suðvesturhorni landsins. Og ein af afleiðingum þess er sú, að hér hafa fasteignir hækkað mjög í verði og íbúðarhús eru hér í hærra verði en víðast annars staðar á landinu. En þannig er hins vegar ástatt í ýmsum kaupstöðum og kauptúnum út um land, að hús eru þar illseljanleg, og þó sölur fari þar fram, er verð á þeim húsum langtum lægra í hlutfalli við fasteignamat heldur en hér í Reykjavík og nágrannakaupstöðum hennar. Þess vegna tel ég það alrangt að leggja jafnmikið ofan á fasteignamatsverð húsa á þeim stöðum eins og hér í Reykjavík. Það tel ég alrangt, og ef þetta verður framkvæmt með þessum hætti, verður mikið ranglæti framið.