07.02.1968
Sameinað þing: 34. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 624 í D-deild Alþingistíðinda. (3140)

198. mál, framkvæmdaáætlun fyrir Norðurland

Fjmrh. (Magnús Jónsson) :

Herra forseti. Seint á síðasta þingi var flutt fsp. um Norðurlandsáætlun. Þeirri fsp. var ekki svarað hér á Alþ., því að störfum þess lauk áður en hægt væri að taka fsp. til meðferðar eða svars af hálfu ráðh., og ég svaraði þá fsp. með því óformlega að senda þm. þess kjördæmis, sem, ef ég man rétt, var Norðurl. v., er stóðu að þeirri fsp., grg. um málið eins og það þá stóð.

Hv. fyrirspyrjandi nú, 1. þm. Norðurl. e., hefur gert hér alveg réttilega grein fyrir upphafi þessa máls og hvernig það stóð á s.l. ári, þegar það var síðast til umr., og ég hygg enda, að það sé öllum hv. þm. ljóst og a.m.k. fyrirspyrjendum þessa máls, þannig að ég þarf ekki að fara langt út í að rekja forsögu málsins, en get vísað á það, sem fram kom í því efni.

Það er alveg rétt, að það var gert ráð fyrir því í svari mínu, sem átti að vera svar við fsp. í lok síðasta þings, að að því var stefnt, að áætluninni gæti orðið lokið nú um síðustu áramót. Að því var ákveðið stefnt, og Efnahagsstofnunin hafði gert ráð fyrir því í álitsgerð sinni til mín um málið, að það mundi takast að ljúka úrvinnslu gagna fyrir þann tíma. Efnahagsstofnunin hóf athugun málsins í marzmánuði 1966, og hefði það í rauninni ekki verið langur tími að eiga að sjúka slíkri áætlanagerð á um það bil 11/2 ári, jafnviðamikilli og henni var ætlað að verða. Það þurfti vitanlega strax að gera ýmsar undirbúningsathuganir, sem tækju sinn tíma fyrst og fremst gagnasöfnun.

Það, sem fyrst gerðist í þessu efni, var, að hafin var úrvinnsla gagna um mannfjölda og mannfjöldahreyfingar, tekjur og tekjuþróun á Norðurlandi. Sumarið 1966 ferðuðust svo starfsmenn Efnahagsstofnunarinnar, sem að þessu verkefni unnu, um Norðurland. Á þessu ferðalagi heimsóttu þeir alla kaupstaði og kauptún í landsfjórðungnum og allmarga sveitahreppa, skoðuðu flest atvinnufyrirtæki, opinberar stofnanir og framkvæmdir og áttu viðræður við sveitarstjórnir, sýslunefndir, forustumenn verkalýðsfélaga og atvinnurekenda á hverjum stað. Síðan var gengið frá bráðabirgðaskýrslum fyrir hin einstöku svæði, eins og hér hefur verið vikið að, og þær voru síðan afhentar stjórn Atvinnujöfnunarsjóðs og einnig ríkisstj. til athugunar, en stjórn Atvinnujöfnunarsjóðs taldi mjög æskilegt að fá þessar bráðabirgðaskýrslur um atvinnuástandið strax og þær væru tilbúnar til þess að geta haft þær til hliðsjónar við ákvarðanir sínar um umsóknir til sjóðsins um lán og styrki til ýmissa framkvæmda á þessu svæði. Þá fóru fram viðræður milli fulltrúa samtaka sveitarstjórnanna á Norðurlandi og við fulltrúa Alþýðusambands Norðurlands, en Alþýðusamband Norðurlands hafði einnig sent Efnahagsstofnuninni ýtarlega álitsgerð og till. varðandi atvinnumál á Norðurlandi. Þessari gagnasöfnun og ferðalögum öllum var lokið að mestu leyti í árslok 1966, og raunar sum af þeim atriðum, sem ég hef hér vikið að, gerðust ekki fyrr en fyrri hluta árs 1967, viðræður við ýmsa þá aðila, sem ég gat um. En í framhaldi af þessari ýtarlegu gagnasöfnun og þeim bráðabirgðaskýrslum, sem gerðar hafa verið um atvinnuástand á öllu þessu svæði, var ætlunin að ganga á s.l. sumri frá heildarskýrslu um Norðurland allt og síðan á grundvelli þeirrar heildarskýrslu að ákveða till. eða áætlanagerð um það, hvernig ætti að vinna að framgangi þeirra mála í einstökum atriðum, sem höfuðmáli skipta varðandi alhliða uppbyggingu á þessu landssvæði.

Því miður hefur reynslan orðið sú, að Efnahagsstofnunin hefur ekki sem skyldi nú síðustu mánuði ársins, þegar átti að vinna að úrslitum þessa máls, getað sinnt verkefni sinu á þessu sviði. Stofnunin hefur yfir mjög takmörkuðu starfsliði að ráða og starfsmenn hennar, sem hafa unnið að þessari áætlunargerð, hafa einnig haft ýmsum öðrum verkefnum að sinna. Það er að vísu svo, að í stofnuninni vann mestan hluta þessa tíma sérstaklega einn sérfræðingur stofnunarinnar að Norðurlandsáætluninni, en því miður fór svo, að þessi maður lét af störfum hjá stofnuninni á fyrri hluta s.l. árs og réðst þá sem bæjarstjóri til Akureyrar, og það tókst ekki að ráða þá annan mann í hans stað til þess að starfa fast að þessum málum, og það var ekki fyrr en í árslok eða byrjun þessa árs, sem tókst að fá annan mann til þessa starfs á vegum stofnunarinnar. Þetta sleit nokkuð þráðinn í þessu starfi, því miður, og olli því, að ekki var hægt að vinna að því með eðlilegum hraða og raunar sáralítið síðustu mánuði s.l. árs, enda, eins og öllum hv. þm. er kunnugt, komu þá til slík óvenjuleg verkefni fyrir Efnahagsstofnunina, að það hlaut að leiða til þess, að ýmislegt yrði að sitja á hakanum vegna þeirra vandamála, sem þá steðjuðu að, bæði í sambandi við gengisbreytinguna og ýmsa aðra þætti flókinna efnahagsvandamála, sem upp komu seinni hluta s.l. árs og þurfti að vinna að með miklum hraða og einbeita öllum kröftum stofnunarinnar að. Það eru auk þess fjölþætt önnur viðfangsefni, sem Efnahagsstofnunin vinnur að lögum samkv., bæði þjóðhagsreikningum, allsherjarathugunum í sambandi við þróun efnahagsmála, skýrslugerð fyrir Hagráð, sem er mjög vaxandi verkefni, og enn fremur er í stofnuninni unnið að áætlanagerð til langs tíma um einstaka þætti opinberra framkvæmda auk byggðaáætlananna. Í öðrum löndum mundu þessi verkefni væntanlega vera á vegum a.m.k. fjögurra stofnana, en hér í okkar litla þjóðfélagi hefur orðið að fela þessi verkefni öll einni stofnun með mjög fámennu starfsliði, sem ekki hefur verið fjölgað neitt að ráði á undanförnum árum, bæði vegna skorts á mönnum, sem hafa þá reynslu og þekkingu, sem á þarf að halda til að geta komið verulega að gagni við slík störf, og jafnframt að sjálfsögðu vegna þess mikla kostnaðar, sem það hefur í för með sér.

Það hefur hins vegar öllum aðilum málsins verið ljóst mikilvægi þess, að ekki dragist úr hófi að ljúka Norðurlandsáætlun, og eins og ég segi, verður að játa það, að henni hefur nú þegar seinkað nokkuð, því að ætlunin var, að hún yrði tilbúin nú um síðustu áramót, og þó að það sé ekki langur tími, sem því starfi hefur seinkað, er enn þá eftir að vinna mikið starf að því að forma ákveðnar till. og ganga frá samsetningu áætlunarinnar í einstökum atriðum, enda þótt gagnasöfnun vegna hennar sé í öllum meginefnu m lokið, þannig að það sé þegar fenginn grundvöllur til þess, að það sé hægt að ljúka þessu starfi á ekki allt of löngum tíma.

Eins og ég vék að áðan, var í byrjun þessa árs á vegum stofnunarinnar ráðinn nýr starfsmaður, sem eingöngu á að starfa að byggðaáætlunum og byggðamálum yfirleitt. Og það hefur verið afráðið, að þessi starfsmaður hafi aðsetur á Akureyri. Enda þótt starfssvið hans eigi ekki að takmarkast við Norðurland eitt, þá verður það að sjálfsögðu fyrsta verkefni hans að vinna að því í samráði við aðra sérfræðinga stofnunarinnar og forstöðumenn hennar að ganga endanlega frá Norðurlands áætluninni.

Það eru nú uppi ýmsar ráðagerðir um tilhögun og framhaldandi starf að byggðaáætlunum yfirleitt, sem vonazt er til, að verði framkvæmanlegri en ella, vegna ráðningar þessa nýja starfsmanns og einnig vegna þess, að menn vona, að Efnahagsstofnuninni gefist nú um sinn meira tóm til að sinna þessum málum en verið hefur nú síðustu mánuðina. Það er ætlunin nú í fyrsta lagi að ljúka áætlunum um þróun samgöngumála á Norðurlandi, en jafnframt er unnið að almennri samgönguáætlun um allt landið, eins og hv. þm. er kunnugt. Þá er í öðru lagi gert ráð fyrir að ljúka áætlun um þróun skólamála á Norðurlandi, en skólamálin hafa einnig verið í heild í deiglu hjá Efnahagsstofnuninni um alllangt skeið. Þá er í þriðja lagi ætlunin að ljúka á eins skömmum tíma og frekast er auðið þeim athugunum á sviði atvinnumála, sem gerðar voru á árinu 1966 og lokið þá að meginhluta til, en þarf að sjálfsögðu enn að safna ýmsum nýjum gögnum í því sambandi og miða við tímana eins og þeir eru nú, og það starf verður unnið í samráði við Atvinnujöfnunarsjóð, og niðurstöður og till. jafnframt lagðar fyrir þann sjóð og að sjálfsögðu svo fyrir ríkisstj., þegar áætlunargerðinni er lokið, og þá vitanlega gerð grein fyrir henni og þeim till., sem þar er um að ræða.

Varðandi atvinnumálin má gera ráð fyrir því, að það verði fyrst og fremst verkefni Atvinnujöfnunarsjóðs, þegar þar að kemur, varðandi einstakar framkvæmdir, og í því sambandi veltur auðvitað ekki aðeins á því, að áætlunargerð sé lokið, heldur jafnframt verði séð fyrir fjármagni, því að áætlunargerðin, þó að hún sé góðra gjalda verð, leysir út af fyrir sig engan vanda ef ekki er jafnframt séð fyrir því, að fjármagn verði til ráðstöfunar í sambandi við framkvæmdir. Að því máli hefur verið unnið skipulega í sambandi við þann þátt Vestfjarðaáætlunar, sem lokið hefur verið endanlega, þ.e.a.s. samgönguáætlunina. Eins og hv. þm. er kunnugt, var aflað sérstaks fjár til framkvæmda þeirrar áætlunar og miðað þá við tiltekið árabil og tryggt fé til framkvæmda á þeim þætti áætlunargerðarinnar. Sama hátt verður að sjálfsögðu að hafa varðandi Norðurlandsáætlun eða einstaka þætti hennar, ganga verður frá ákveðinni fjáröflun, því að Atvinnujöfnunarsjóður er þess auðvitað ekki megnugur með því fjármagni, sem hann hefur til ráðstöfunar af sinni föstu fjáröflun á ári hverju, að sinna þessu verkefni að nokkru ráði, þó að sjóðurinn hafi vitanlega lagt fram þýðingarmikla aðstoð í sambandi við einstakar atvinnuframkvæmdir, bæði á Norðurlandi og annars staðar. Það hefur þess vegna nú þegar verið gerð athugun á því af hálfu ríkisstj., hvort ekki væri auðið að afla fjár með nokkuð svipuðum hætti og gert var í sambandi við Vestfjarðaáætlun, og hafa menn þá haft í huga um 100 millj. kr., sem leitað hefur verið eftir, hvort hugsanlegt væri að fá með svipuðum kjörum og í sambandi við Vestfjarðaáætlun. Það er ekki enn niðurstaða fengin um þá málaleitan, en henni hefur verið tekið vel, og ég er næsta bjartsýnn um, að það takist að leysa þá hlið málsins. Áður en slíku fé yrði ráðstafað, þá þarf að sjálfsögðu að binda það við einhverja ákveðna þætti í framkvæmd þessarar uppbyggingar á Norðurlandi.

Ætlunin er, að starfsmaður Efnahagsstofnunarinnar, sem fæst við byggðamálin sérstaklega og ég hef getið um, hafi náið samband við sveitarfélögin og samtök þeirra við lokaaðgerðir í þessu máli og síðan framkvæmd byggðaáætlana. Og það er jafnframt gert ráð fyrir því, að hann verði til ráðuneytis og aðstoðar við einstök sveitarfélög við undirbúning framkvæmdaáætlana til langs tíma að svo miklu leyti sem óskir koma fram um það og tími vinnst til þess. En eins og hv. þm. er kunnugt, hafa ýmis byggðarlög og sveitarfélög hafizt handa um gerð slíkrar áætlunar, m.a. Akureyrarkaupstaður, sem er það vel settur varðandi það mál, eins og ég gat um áðan, að þangað hefur ráðizt sem bæjarstjóri sá maður. sem einmitt hefur unnið að þessari byggðaáætlunargerð á vegum Efnahagsstofnunarinnar.

Ég sé ekki á þessu stigi, herra forseti, ástæðu til að orðlengja þetta frekar. En ég tek undir það, sem hv. fyrirspyrjendur hafa lagt áherzlu á, að það er brýn nauðsyn að ljúka Norðurlands áætluninni sem allra fyrst. Ég játa það, að það hefur orðið á henni dráttur af þeim ástæðum, sem ég hef getið um. Það hefur ekki verið auðið að ljúka þessu með þeim hraða vegna mannaskorts, en ég mun leggja á það áherzlu, að nú verði lagt kapp á það að vinna samfellt og kerfisbundið að því að ljúka áætluninni, og geri mér vonir um það, að það geti orðið fyrr en seinna á þessu ári, enda þótt ég vilji ekki tiltaka neina dagsetningu í því efni. Það er vissulega margt, sem knýr á um, að þessari áætlunargerð verði lokið, en ég vil vekja athygli á því, að ég tel það meira um vert varðandi þessa áætlunargerð, að það verði lögð rækt við að hafa hana sem vandaðasta, þar sem hér er um að ræða fyrstu heildaráætlunargerð í þessu efni, sem unnin er hér á Íslandi og algerlega af íslenzkum sérfræðingum, heldur en hitt, að stofnunin reyni vegna pressu að afgreiða frá sér áætlunina áður en hún endanlega hefur gengið þannig frá henni, að hún telji viðhlítandi.