07.02.1968
Sameinað þing: 34. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 628 í D-deild Alþingistíðinda. (3141)

198. mál, framkvæmdaáætlun fyrir Norðurland

Fyrirspyrjandi (Gísli Guðmundsson) :

Herra forseti. Ég vil þakka hæstv. ráðh. fyrir þá viðleitni, sem kom fram hjá honum til þess að gefa upplýsingar í sambandi við þá fsp., sem hér er til umr. Hins vegar verð ég að harma það, að hæstv. ráðh. hefur ekki aðstöðu til þess að svara beint fsp. eins og hún liggur fyrir á þskj. 239, sem var um það, hvenær vænta mætti framkvæmdaáætlunar fyrir Norðurland, sem heitið var í júnímánuði 1965. Í raun og veru sagði hæstv. ráðh., að þessu væri ekki hægt að svara, eins og sakir stæðu. (Fjmrh.: Það hefur komið nægilega greinilega fram, að það er alla vega gengið út frá því, að það verði á þessu ári, án þess að ég þori að nefna dagsetningar, en henni verður alla vega lokið á þessu ári.)

Já, þá er nú komið nokkurt svar, að það muni verða á árinu 1968, og ég þakka það. Ég vil minna á það í þessu sambandi, að það var í júnímánuði 1965, sem ríkisstj. gaf út yfirlýsingu sína um, að unnið yrði að þessari áætlun, þannig að það er nú í rauninni liðið nokkuð á þriðja ár síðan samið var um þessa hluti. Hitt má raunar vekja athygli, sem upplýst er, að áætlunarverkin skyldi ekki vera hafið fyrr en í marzmánuði 1966. Það er sem sé liðið nokkuð hátt í ár frá því að þetta fyrirheit var gefið og þangað til byrjað er að vinna að áætluninni á vegum Efnahagsstofnunarinnar og ferðalög fulltrúa Efnahagsstofnunarinnar um Norðurland hófust ekki, eftir því sem hæstv. ráðh. sagði, fyrr en sumarið 1966. Nú er það auðvitað svo, að þessi dráttur á áætluninni kemur mönnum allmikið á óvart og það, að málið skuli í raun og veru enn ekki vera komið af skýrslustigi, því að eins og ég tók fram hér áðan, voru gefnar upplýsingar um það á s.l. vori, að áætluninni mundi verða lokið á „þessu ári“, þ.e.a.s. 1967. Ég get ekki heldur varizt því, að mér finnst eins og fram komi hjá hæstv. ráðh. nokkru minni trú á gildi slíkrar áætlunargerðar heldur en áður hafði komið fram, því að áður sagði hæstv. ráðh. það, og hefur það sjálfsagt þá verið skoðun stjórnarinnar, að mikilvægasta skrefið að því marki, sem er alhliða uppbygging, væri einmitt slík áætlun. Nú segir hæstv. ráðh., að áætlunargerð leysi út af fyrir sig engan vanda. Mér finnst þetta bera vott um, að áhugi fyrir áætlunargerðinni hjá hæstv. ríkisstj. sé ekki eins mikill og hann var, og tel ég miður farið, að svo skuli vera.

Hæstv. ráðh. komst einhvern veginn þannig að orði í svari sínu áðan, að Atvinnujöfnunarsjóður væri þess, eins og hann komst að orði, „auðvitað ekki megnugur“ að sinna þessu verkefni, þ.e.a.s. þeim verkefnum, sem áætlunin mundi fjalla um, að neinu ráði. Mér kemur þetta að vísu ekki á óvart, og ég hygg, að það sé alveg rétt, sem hæstv. ráðh. sagði um þetta efni. Hins vegar gefur það okkur alþm. ærið umhugsunarefni, þegar þessu er beinlínis lýst yfir af hálfu ríkisstj., og ætti að vera aukin hvöt til þess að íhuga nánar fjárhagshlið jafnvægisstarfseminnar í landinu.

Tími minn er á þrotum. Ég vil aðeins endurtaka það, að ég tel það mjög miður fara, að það skuli ekki hafa getað orðið, sem var gert ráð fyrir, að áætlunin kæmi fram á tilsettum tíma. Ég var sumarið 1966 viðstaddur á a.m.k. einum fundi, sem fulltrúar Efnahagsstofnunarinnar hér áttu með sveitarstjórnum á hlutaðeigandi svæði, og ég varð þess greinilega var, að í sambandi við þann áhuga sem kom fram hjá þeim mætu mönnum, sem þarna mættu, bundu menn allverulegar vonir við það, að árangur yrði af þessu starfi.