14.02.1968
Sameinað þing: 38. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 646 í D-deild Alþingistíðinda. (3150)

198. mál, framkvæmdaáætlun fyrir Norðurland

Jón Kjartansson:

Herra forseti. Á fundi í sameinuðu Alþ. s.l. miðvikudag fóru fram allýtarlegar og fróðlegar umr. um Norðurlandsáætlunina. Þessum umr. er nú fram haldið, og í framhaldi af því, sem áður hefur verið sagt, vil ég gjarnan segja þetta:

Norðlendingar fagna því, að boðað hefur verið af hæstv. fjmrh., að þessi margumtalaða og margeftirspurða áætlun muni verða birt á þessu ári, en hins vegar harma þeir, hversu langan tíma það hefur tekið að koma þessari áætlun saman. Ég hygg þó, að það gleymist, ef áætlunin, þegar hún loksins verður birt almenningi, ber með sér, að hún megni að leysa að verulegu leyti þann vanda sem að höndum hefur borið í atvinnu- og efnahagslífi Norðlendinga síðustu árin. Með þessu er ég ekki að segja, að það sé mín skoðun, að eftir að áætluninni hafi verið hleypt af stokkunum, hafi með henni verið sjósettur einn allsherjar björgunarbátur fyrir norðlenzkt atvinnu- og efnahagslíf, sem leysi allan vanda í þessum efnum. Því miður er málið ekki svo einfalt, en ég tel, að áætlunin verði að vera þannig úr garði gerð og hugur ríkisstj. slíkur í þessu máli, að áætlunin verði verulegur bakhjarl, já ég vil segja sverð og skjöldur þeirra norðlenzku einstaklinga, félagssamtaka og sveitarfélaga, sem bíða með óþreyju eftir áætluninni og telja, að með tilkomu hennar verði léttara og auðveldara að takast á við erfiðleikana, sem svo víða blasa við í norðlenzku atvinnulífi. Eins og það er sjálfsagt, að Norðlendingar fyrstir manna leggi fram krafta sína, hugvit og kjark til að reisa við samanhrunið atvinnulíf í þessum landshluta, er það og augljóst, að ríkisvaldið sjálft þarf að gera meira en benda til allra átta og líta á sig einvörðungu sem ráðgefendur. Það er þörf stórátaka nyrðra í atvinnuuppbyggingunni og ríkisvaldið verður að vera með í þeirri uppbyggingu.

Það þarf ekki alls staðar norðanlands að byggja upp mörg ný atvinnutæki. Víða eru þau til, en hvergi nærri fullnýtt. Í þessu sambandi minni ég á tunnuverksmiðju ríkisins á Siglufirði. Þar vinna nú um 40 manns og vinna þó aðeins dagvinnu. Þar eru framleiddar um 12 þúsund tunnur á mánuði í 5—6 mánuði. Ég bendi á að þarna gætu unnið 100—120 menn í 8 mánuði ársins og framleitt um 250—300 þús. tunnur, en árleg tunnunotkun Íslendinga er um 450—500 þús. tunnur. Ég trúi ekki öðru en þeir, sem vinna að Norðurlandsáætluninni, taki þessa staðreynd til athugunar. Ég hef heyrt mótbárur gegn innlendri tunnusmíði, en þær eru jafnan þessar: Tunnurnar innlendu eru of dýrar. En ég vil segja, að með meiri hagræðingu við tunnusmíðina, t.d. með samfelldri framleiðslu í einni verksmiðju, er hægt að koma tunnuverðinu niður.

Á Siglufirði er einnig annað fyrirtæki í ríkiseign í hálfgerðu svelti. Það er Niðurlagningarverksmiðja ríkisins. Með því að leggja fram verulegt fé í markaðsleit fyrir vöru þá, sem þessi verksmiðja framleiðir, og með því að fullgera verksmiðjuna og gera hana fjárhagslega sjálfstæða og gera henni kleift að láta verka allt hráefni, sem þarf til vinnslunnar, sem er svo til við verksmiðjuvegginn, þá er ég viss um, að þessi verksmiðja gæti veitt ekki tugum, heldur 100—200 kvenna vinnu yfir veturinn. Slíkt væri ómetanleg búbót. Í þessu efni þarf að ríkja ríkari skilningur en verið hefur hjá opinberum aðilum. Ef vel er haldið hér á spilum, mun að mínum dómi allt það fé, sem lagt verður í þetta fyrirtæki í sambandi við markaðsleit og afurðasölu og til hagræðingar, skila sér aftur og það með vöxtum.

Þriðja ríkisfyrirtækið á Siglufirði, sem vantar hráefni allt of oft, er hraðfrystihús Síldarverksmiðja ríkisins. Það er mín skoðun, að vélar þessa mannvirkis og færibönd þess færi eigendum, þ.e. ríkinu sjálfu, aldrei þann arð af þessu húsi, sem nauðsynlegur er, og fólki því, sem við það vinnur, sæmilegar tekjur, fyrr en byggður hefur verið floti, sem veiði fyrir þetta hraðfrystihús og tryggi þessu mannvirki nægilegt hráefni. Þó að ég noti orðið floti, vil ég segja, að bygging eins skuttogara nú á næstunni mundi vera góð byrjun og mikil hjálp, ég vil segja alveg eins ríkissjóði og því fólki, sem treyst hefur á þetta atvinnufyrirtæki sem haldreipi í lífsbaráttunni.

Ég hef minnzt hér á þrjú ríkisfyrirtæki á Norðurlandi, sem öll gætu látið í té margfalt meiri vinnu en þau gera nú, meiri atvinnu handa fleira fólki og fært meiri tekjur í þjóðarbúið. En þetta kostar fjármagn og trú á framtíðina. Þá vil ég leyfa mér að minna einnig á, að Síldarverksmiðjur ríkisins eiga allmargar síldarverksmiðjur staðsettar í Norðurlandskjördæmi, og með því að fjölga síldarflutningaskipum, er möguleiki á að útvega þessum verksmiðjum, sem eru ríkisins eign, mun meira hráefni en gert hefur verið á undanförnum árum.

Ég ætlaði nú að segja aðeins meira hér, en tími minn leyfir það ekki. En ég vil að lokum segja þetta: Það eru fleiri staðir en Siglufjörður á Norðurl. v., þó að ég ræði nú aðallega um hann. Á Skagaströnd ríkir mikið atvinnuleysi, og þyrfti að taka það mál til alvarlegrar athugunar, Sauðkæklingar eru núna að

vinna að því að kaupa togskip til Skagafjarðar, og ég treysti því og vil segja það hér, að ríkisstj. standi fast við bakið á þeim og geri þeim kleift að kaupa skipið, svo að unnt sé að auka þar atvinnu nú þegar á þessum vetri.