14.02.1968
Sameinað þing: 38. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 655 í D-deild Alþingistíðinda. (3156)

198. mál, framkvæmdaáætlun fyrir Norðurland

Forseti (BF):

Forseti vill í tilefni af aths. hv. 1. þm. Norðurl. e. um þingsköp endurtaka það, sem hann áðan sagði, að hann telur báðar þær fsp., sem hér hafa verið ræddar, vera algerlega sama efnis. Önnur hljóðar svo:

„Hvenær má vænta framkvæmdaáætlunar þeirrar fyrir Norðurland, sem heitið var í júnímánuði 1965?“ o.s.frv.

Og síðari fsp. hljóðar svo:

„Hvenær má gera ráð fyrir, að lokið verði gerð Norðurlandsáætlunar?“

Í upphafi umræðnanna tilkynnti forseti, að þessar tvær fsp. yrðu ræddar sem ein, þar sem þær væru efnislega samhljóða, og um þá málsmeðferð kom ekki fram nein aths., fyrr en hjá sjöunda ræðumanni, sem spurði, hvort hann hefði ekkí leyfi til að tala í 10 mín. Þegar forseti svaraði honum úr þessum stóll, að hann hefði leyfi til að tala í tvisvar sinnum 5 mín., eins og um eina fsp. væri að ræða, lét hann sér það mynda og sætti sig við þá takmörkun ræðutíma, enda er hún í fyllsta samræmi við þingsköp, eins og reyndar kom fram hjá hv. 1. þm. Norðurl. e. í ræðu hans hér áðan..

Það er svo annað mál, sem hv. þm. minntist á og er alveg rétt, að eftir 31. gr. þingskapa hafa ráðh. ótakmarkaðan ræðutíma um fsp., en þm. hins vegar takmarkaðan við tvisvar sinnum 5 mín. Það má vel vera, að einhver önnur regla þyrfti að gilda um þetta, en líklega hefur hvorugur okkar, a.m.k. ekki ég, staðið að því að setja þessar reglur í þingsköp. Þó má vera, að hv. 1. þm. Norðurl. e. hafi átt sjálfur sæti á þingi, þegar þessi regla var upp tekin, en ég vil benda honum á, að einmitt í dag er útbýtt frv. til 1. um breyt. á þingsköpum, þar sem m.a. er lögð til önnur tilhögun á fyrirspurnatíma en tíðkazt hefur samkv. 31. gr. þingskapa. Vil ég leyfa mér að láta í ljós þá von, að þingheimur geti sameinazt um að sníða af fyrirspurnatímanum þá annmarka, sem vissulega hafa komið fram í reynd, en að mínum dómi eru þeir annmarkar þeir helztir, að bæði hv. þm. og hæstv. ráðh. misnota ræðutímann. Eins og hv. 1. þm. Norðurl. e. drap á er sagt í 31. gr. þingskapanna, að fsp. skuli vera skýrar, um afmörkuð atriði og mál, og sé við það miðað, að hægt sé að svara þeim í stuttu máli. Það hefur því miður viljað bregða út af þessu og fsp. hv. alþm. hafa ekki alltaf verið orðaðar þannig, að hægt væri að svara þeim í stuttu máli. Þess vegna hafa umr. um fsp. viljað dragast á langinn.

Ég sé svo ekki ástæðu til að svara aths. hv. þm. Norðurl. e. í lengra máli, en ég vil endurtaka þá ósk mína, að þingheimi takist að sníða af agnúana eða ókostina, sem verið hafa á fyrirspurnafyrirkomulaginu, samkv. gildandi reglum, þegar frv. til breyt. á þingsköpunum kemur til umr. og afgreiðslu í þinginu.