14.02.1968
Sameinað þing: 38. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 656 í D-deild Alþingistíðinda. (3157)

198. mál, framkvæmdaáætlun fyrir Norðurland

Benedikt Gröndal:

Herra forseti. Ég vil aðeins benda á eitt atriði, er ekki hefur komið fram í þessari umr., sem er eftirfarandi: Ef fylgt væri þingsköpum á þann hátt, sem hv. 1. þm. Norðurl. e. telur rétt vera, en ekki eins og hæstv. forseti hefur túlkað þingsköp, væri vandalaust fyrir tvo eða þrjá eða fjóra þm. að flytja allir sömu fsp., en láta muna einu orði eða svo, krefjast þess, að hver og ein fái meðferð sem sjálfstætt mál, og geta þannig þrefaldað, fjórfaldað eða fimmfaldað ræðutíma sinn og gjöreyðilagt spurningatímann, svo gallaður sem hann er í dag. Þess vegna held ég, að meðferð forseta á þessu máli byggist á sjálfsagðri og heilbrigðri skynsemi á vinnutilhögun þingsins.

Ég vil taka mjög undir það, sem forseti sagði, að spurningatíminn er kominn langt frá því, sem honum er ætlað að vera, þar eð bæði þingmenn og þó alveg sérstaklega ráðh. nota tímann til þess að koma af stað almennum umr., en ekki til þess að fá svör við afmörkuðum og skýrum fsp.