14.02.1968
Sameinað þing: 38. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 656 í D-deild Alþingistíðinda. (3158)

198. mál, framkvæmdaáætlun fyrir Norðurland

Fyrirspyrjandi (Gísli Guðmundsson):

Herra forseti. Ég vil aðeins geta þess í tilefni af ræðu hv. síðasta ræðumanns, hv. 5. þm. Vesturl., að ef hann hefur með orðum sínum viljað gefa í skyn, að við, sem stöndum að fsp. nr. 1 hér á dagskránni, og þeir, sem standa að fsp. nr. 2 á dagskránni, höfum gert einhver samtök okkar á milli um það að flytja fsp. um sama mál, þá er það ekki svo. Og það veit ég, að hv. 11. landsk. þm. getur vottað, að við höfum ekki gert neinn samblástur okkar á milli um það að koma fsp. svona fyrir, til þess að fá ríflegri ræðutíma.

Ég vil svo, án þess að lengja mál mitt, benda hæstv. forseta á það, að fsp. eru ekki algerlega um það sama. Því hefur hann e.t.v. ekki veitt athygli. Í fsp. frá hv. 11. landsk. o. fl. er spurt, „hvenær lokið verði“. Í fsp. okkar hv. 3. þm. Norðurl. v., „hvenær vænta megi“. Bók getur verið lokið, riti getur verið lokið, án þess að það sé gefið út, án þess að það komi fyrir almenningssjónir. En það, sem átt er við í okkar fsp., er það, hvenær umrædd áætlun verði gerð opinber. Á þessu er munur.

Ég skal svo ekki nota tímann til þess að fara að þrátta við hæstv. forseta um þessi mál.