13.12.1967
Neðri deild: 38. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 346 í B-deild Alþingistíðinda. (316)

75. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Halldór E. Sigurðsson:

Herra forseti. Eins og ég lagði áherzlu á við fjárlagaumræðu þá, sem fór fram hér fyrir tveim dögum, væri það mikil nauðsyn, að hæstv. ríkisstj. félli algerlega frá þessari skattheimtu, sem hún stefnir að í sambandi við fasteignir í landinu, til þess að rýma fyrir sveitarfélögunum, því að þau mun skorta tekjur í sambandi við sína starfsemi. Nú hefur hæstv. ríkisstj. hins vegar horfið að því ráði að Áætla sér helming þeirra tekna, sem hún hugsaði sér að ná af fasteignum í sambandi við þetta frv., og boðað það, að fyrir sveitarfélögunum verði greitt með því, að þau megi fá tekju- og eignaútsvar af þessari margföldun á fasteignamati. Við þetta vil ég gera þá athugasemd, að miklu heppilegri og farsælli leið hefði verið að hætta við margföldun á fasteignamatinu, en leyfa hins vegar sveitarfélögunum að hækka fasteignaskattana. Eins og ég vék að í umræðum um fjárlögin, væri með því móti hægt að ná til þeirra stofnana, sem hvorki grelða útsvar eða aðstöðugjald, en með þeirri leið, sem hér er farin, er það ekki hægt. Hér verða þeir einir að greiða, sem eignarskatt greiða, en stofnanir þær, eins og bankar, sparisjóðir, Póstur og sími o.fl., sem eru undanþegnar fasteignagjaldi, útsvari og aðstöðugjaldi, greiða hins vegar fasteignaskatt, og til þeirra stofnana var hægt að ná með því að hækka fasteignaskattinn, en ekki með þessari margföldun.

Ég tel því, að hér sé stefnt í öfuga átt og ítreka það, að það sé skynsamleg leið og skipti litlu í tekjuöflun ríkisins, þó algerlega hefði verið fallið frá þessari tekjuöflun, en það hefði hins vegar verið hægt að greiða mjög fyrir sveitarfélögunum með því að rýmka heimildina til fasteignaskattsálagningar.