21.02.1968
Sameinað þing: 40. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 660 í D-deild Alþingistíðinda. (3162)

198. mál, framkvæmdaáætlun fyrir Norðurland

Dómsmrh. (Jóhann Hafstein):

Herra forseti. Það var eitt atriði, sem gaf mér tilefni til að taka lítils háttar þátt í þessum umr., en hv. síðasti ræðumaður talaði um nauðsyn þess að koma upp iðjuverum á landbúnaðarsviðinu í sambandi við Norðurlandsáætlunina og nefndi í því sambandi sútunarverksmiðju. Og það má vel vera, að reyndin verði sú. En ég hef áður varað við því hér á þingi og vara enn við því í sambandi við byggðaáætlanir og tal þm. um það að gefa landsfólkinu undir fótinn meira en góðu hófi gegnir um það, hvaða möguleika það geti eygt í einu eða öðru tilliti.

Hér var á sínum tíma skipuð atvinnuaukningarnefnd eftir till. þm., og hún starfaði á vegum iðnmrn. og skilaði bráðabirgðayfirliti. Það voru ýmsar till., sem þar komu fram, en þó reyndist það svo, að þegar til átti að taka, var það allt saman eitthvað bundið meira og minna við hráefni úr sjávarafurðum. Það var talað um sútunarverksmiðju, og það var talað um fleiri iðngreinar En þar var lítt hönd á festandi, en af þessari n. var svo síðar talið, að við hefði tekið gerð Norðurlandsáætlunar á vegum Efnahagsstofnunarinnar, og var því ekki um frekari nál. að ræða af hálfu þessarar nefndar.

Í sambandi við sútunarverksmiðju vil ég, að það komi fram, að Sauðkræklingar höfðu haft áhuga á því að koma upp slíku iðjuveri, stóriðjuveri, og fengið í lið með sér kunnáttumann til þess að vinna að áætlunargerð á þessu sviði. En skömmu eftir að hann hafði hafið starfsemi sína, leitaði iðnaðarnefnd frá Sauðárkróki til iðnmrn. og fór þess á leit, að það tæki við rannsókn þessa máls. Það var fúslega gert og í samráði við Iðnaðarmálastofnunina, en Jón Kristgeirsson, íslenzkur maður, sem búsettur hefur verið í Hollandi, var sá, sem upphaflega hafði verið talað um að athugaði málið af hálfu Sauðkræklinga. Var honum falið þetta verkefni af hálfu iðnmrn. Hann vann að málinu á annað ár og skilaði mjög ýtarlegu áliti um sútunarverksmiðju og þá möguleika, sem væru fyrir hendi til þeirra hluta. Þessi ýtarlega grg. var svo lögð fram á sínum tíma í iðnþróunarráði og einnig látin í té Félagi ísl. iðnrekenda, til þess að þau gætu komið henni á framfæri, og ég held, að einnig hafi verið fullkomlega séð til þess, að þeir, sem helzt hafi haft með þessi mál að gera hér, hafi haft aðgang að þessari skýrslu.

Nú er það svo, að þótt þessi ýtarlega skýrsla hafi verið samin og að það liggi fyrir samkv. henni áætlun um kostnað við að koma upp slíkri sútunarverksmiðju og einnig áætlun um rekstur hennar, hefur þetta ekki af neinum verið talið girnilegt enn þá, en það hafði staðið svo, þegar þessi athugun var sett í gang, að fjöldi manna hafði þá beðið um smálán hjá Framkvæmdabankanum, af því að þeir höfðu í hyggju að koma upp sútunarverksmiðjum, og nokkrar minni sútunarverksmiðjur hafa komizt upp á síðustu árum hér á landi, en með mjög vafasömum árangri.

Þegar Jón Kristgeirsson var hér á s.l. hausti, var þetta mál sérstaklega rætt í iðnþróunarráði og í undirnefnd iðnþróunarráðs, og þegar hann fór af landi burt, ég held, að það hafi verið í nóv. eða eitthvað um það leyti eða a.m.k. á haustmánuðunum, fékk hann það verkefni og erindisbréf frá iðnmrn. að leita eftir því, hvort erlendir aðilar hefðu hug á því að reisa hér í samvinnu við Íslendinga sútunarverksmiðjur í stórum stíl og leggja þar til bæði fjármagn og kunnáttu að sínu leyti, og ef um það væri að ræða, að hann kæmist að raun um, að vilji kynni að vera fyrir hendi hjá slíkum erlendum aðilum, sem um áraraðir og áratugi og um langan tíma hafa rekið stórar sútunarverksmiðjur úti í löndum,. að hann gerði þá aðvart. Það virðist vera sá minnsti vilji, sem þeir þurfa að sýna, að þeir komi hingað til lands til viðræðna við Íslendinga. Var þá hugmynd iðnmrn. að stefna saman þeim aðilum, sem hafa helzt að þessum málum unnið fram að þessu, til viðræðna við slíka aðila.

Það hefur ekkert borizt enn frá Jóni Kristgeirssyni um það, að neinir möguleikar séu til þess eða að það séu horfur á því, að erlendir aðilar, sem að þessum málum hafa unnið, telji, eins og nú standa sakir, líklegt eða efnilegt að setja upp stóra sútunarverksmiðju hér á landi. Og það hafa þeir sagt mér, sem hafa haft með þessi mál að gera, t.d. fyrir hönd S.Í.S., að þeirra iðnaður á þessu sviði hafi ætíð verið þröngur og ekki sízt á síðari árum, og kunnugt er, að margar af stærstu sútunarverksmiðjum í Evrópu hafa verið lagðar niður eða nokkrar af þeim allra stærstu, vegna þeirrar samkeppni, sem þessi iðnaður hefur lent í við gerviefni, eins og kunnugt er.

Allt þetta vil ég, að menn hafi í huga. Málið er þegar mjög ýtarlega rannsakað, og vissulega mun Efnahagsstofnunin og þeir aðrir, sem vinna á vegum Norðurlandsáætlunarinnar, geta haft aðgang að þeirri rannsókn, sem þarna hefur verið framkvæmd, en því miður eru miklu minni horfur á því, eins og nú standa sakir, að hér sé um mjög líklegan atvinnuveg að ræða, en margir hafa ætlað. Ég skal hins vegar ekki draga úr áhuga og vilja manna til þess, að slíkar atvinnugreinar komist upp og séu fullrannsakaðar, en það er þó nauðsynlegt, þegar liggur fyrir jafnýtarleg rannsókn og þegar hefur verið gerð í þessu máli og því miður jafnvafasamar horfur á, að hér geti verið um mikla atvinnuaukningu fyrir landsfólkið að ræða á Norðurlandi, eins og hér er verið að tala um, þá er, held ég, nauðsynlegt, að fram komi það, sem ég nú hef verið að seg;ja, svo að menn tengi ekki of miklar vonir við það og verði þá fyrir vonbrigðum, sem ástæðulaus væru.

Þetta er nú búið að standa yfir í 2—3 ár, og það hafa verið bundnar miklar vonir við, að slík stór sútunarverksmiðja gæti risið á Norðurlandi, t.d. á Sauðárkróki eða einhverjum héruðum þar um kring, þar sem mikil fjárrækt er, en því miður hefur sú vitneskja sem iðnmrn. hefur fram til þessa borizt á grundvalli ýtarlegrar rannsóknar, fremur dregið úr því, að hægt sé að búast við, að hér sé um mikla úrlausn að ræða í sambandi við nýjar atvinnugreinar eða atvinnuaukningu.