21.02.1968
Sameinað þing: 40. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 663 í D-deild Alþingistíðinda. (3164)

198. mál, framkvæmdaáætlun fyrir Norðurland

Björn Pálsson:

Herra forseti. Það eru örfá orð. Ég hlustaði ekki á ræðu hæstv. fjmrh. um daginn að öllu leyti, en mér var sagt, að komið hefði fram hjá honum, að þessi Norðurlandsáætlun ætti fyrst og fremst að snúast um samgöngumál og skólamál, en ekki nema að litlu leyti um atvinnumál. Það er allt vel um samgöngumál og skólamál, en ég hygg, að við ættum að vera menn til að leysa það nokkurn veginn án aðstoðar í heimabyggðum og á þingi og með aðstoð ráðuneytanna. Samgöngumál þjá okkur ekki svo mikið í okkar kjördæmi. Það er búið að koma vegi til Siglufjarðar. Vegirnir eru raunar ekki góðir, en ekkert verri hjá okkur en öðrum. Það er búið að koma vegi til Ólafsfjarðar. Skólamálin mættu eðlilega vera betri. Þó er þetta allt í áttina. Það er verið að reisa myndarlegan gagnfæðaskóla á Sauðárkróki. Það er verið að reisa myndarlegan skóla á Reykjum á Reykjabraut. Þetta þjáir okkur ekki svo mikið, og við getum leyst þessi mál, þingið, ráðh. og heimabyggðirnar; en atvinnumálin — það eru mál, sem þarf að leysa.

Ég er ekki hneigður fyrir smjaður. Það er verið að hæla því, að nú sé verið að styðja dreifbýlið með því að hafa einhvern mann norður á Akureyri, sem vinnur í þessu. Ég satt að segja get ekki verið að svona smjaðri.

Því ráðizt þið ekki á guð almáttugan fyrir að hafa ekki fært einhvern hluta af heilanum fram í fingurgómana eða niður í tærnar? Höfuðborg er höfuðborg og hér er samgöngumiðstöð landsins. Ég vil miklu heldur hafa mann hér, sem ég get talað við, heldur en einhvern mann, sem ég veit, að heitir Lárus og er norður á Akureyri og enginn getur haft tal af. Satt að segja hélt ég, að það væri nú eðlilegra, þegar á að leysa svona mál, að það sé ekki tekinn neinn maður af lista eða einhver smali fyrir einhvern ákveðinn flokk til að láta vinna úr málunum. Þeir voru búnir að láta nefnd ferðast um og kynna sér málin, Bjarna nokkurn og Jónas Haralz og fleiri góða menn og Þóri, held ég. Þetta voru allt viti bornir og góðir menn, svo er bara þetta tekið úr höndum þeirra og fært til einhvers Lárusar, sem var á einhverjum lista, sem Magnús Jónsson hefur verið 2. maður á í Norðurlandskjördæmi eystra.

Það er allt vel um dreifbýlið. Jú, þeir fóru að setja einhvern mann norður á Siglufirði til að útbýta einhverjum aurum, sem átti að vera uppbót á fiskinn. Ég gerði þá út á Skagaströnd. Afleiðing: Ég hef engan eyri fengið. Vegsami þeir, sem vilja vegsama, en ég held, að þetta styrki okkur lítið. Við þurfum að efla atvinnulífið í þessum byggðum, en ekki að fá einhvern mann, sem úthlutar aurum, eða einhvern mann, sem á að fást við atvinnumál og enginn maður getur talað við. Það er ekki það, sem við þurfum að vinna að. Vitanlega er þetta okkar eigin sök að rífa þetta ekki upp, en ef menn eru ekki færir um það eða gera það ekki, þarf að rétta þeim hjálparhönd, og ég er búinn að margtaka það fram. Við þurfum að stunda togveiðar þá árstíma, sem hagstæðastir eru á Norðurlandi, því að það er eini útvegurinn, sem getur borið sig. Við þurfum að afla hráefnisins á skynsamlegan hátt. Það er allt vel um að flytja síld til Siglufjarðar. Það er allt vel um að nýta þau atvinnutæki, en við þurfum bara meira. Ég er búinn að margbenda á þetta. Við þurfum hentug skip. Ég vil ekki láta hjá líða að þakka fjmrh. það, að hann studdi Sauðárkróksbúa í því, að þeir geta keypt togbát. Ég vil þakka honum fyrir það. Hann gerði það af vinsemd og skilningi. Þrátt fyrir það, að ég tek það fram, að þar hafi fleiri menn unnið, þá lagði hann þar lóð á metaskálarnar.

Við verðum að líta á aðalatriðin, en ekki aukaatriðin. Atvinnulífið verðum við að efla með hráefnisöflun á hagkvæman hátt. Þetta er það eina, sem gildir. Þetta er það eina, sem fólkið biður um, og það eina, sem fólkið þráir. Við getum leyst okkar skólamál og vegamál í félagi og þurfum engan Lárus til þess, en við þurfum samræmda áætlun. Það þarf að koma rekstri frystihúsanna á heilbrigðan grundvöll og skynsamlegan. Við þurfum að hafa hentugan skipakost og hentug veiðarfæri, þannig að fólk geti haft nóg að gera, og svo verður heilinn að vera í höfðinu, hvorki í tám eða fingrum. Það er bara eðli líkamsbyggingarinnar. Það eru fyrst og fremst atvinnumálin, sem við þurfum að fá leyst og höfum þörf fyrir, annars er það að taka á aukaatriðunum, en ekki aðalatriðunum. Hitt getum við leyst sjálfir með hjálp góðra manna og með því að aðstoða hver annan. Og vafalaust getum við þetta. T.d. á Húsavík, þar eiga þeir miklu styttra á miðin. Þeir geta notað sína smábáta. Þeir spjara sig. Við eigum lengra á miðin, og því miður hefur komizt pólitík og flokkadráttur inn í starfsemina í mínu kjördæmi, og þeir hafa unnið hver öðrum skaða þannig, því sannleikurinn er sá með þessi byggðarlög, að ef þau hjálpast ekki að að leysa sín vandamál og horfa yfir smávegis kryt og erjur, getum við ekki leyst þau, við höfum ekki efni á því. Við þurfum sem sagt að koma okkar útgerðarmálum á gott horf.

Svo get ég ómögulega tekið undir þennan sífellda barlóm um þetta blessað kjördæmi. Sannleikurinn er sá að Skagafjörður og Húnavatnssýslur eru einhverjar þær indælustu sýslur, sem til eru á landinu. Þar er veðráttan bezt, þar hefur jafnan verið búið jafnbezt á Íslandi. Og þó að sjávarþorpin hafi ekki getað aflað sér hráefnis eins og skyldi og rekstur á frystihúsunum hafi ekki verið að öllu leyti hagkvæmur og síldin hafi í bili lagzt frá landi, skulum við ekki örvænta. Raunverulega þarf ekkert nema framtak og kjark og lítils háttar aðstoð, þá er þetta allt í góðu lagi. Sem sagt, það er þara að halda skynsamlega á málum. Héruðin eru góð, fólkið er vel stætt, og engir eiga meira í innlánsdeildum en bændurnir í þessum héruðum.