21.02.1968
Sameinað þing: 40. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 665 í D-deild Alþingistíðinda. (3165)

198. mál, framkvæmdaáætlun fyrir Norðurland

Fjmrh. (Magnús Jónsson):

Herra forseti. Það voru aðeins nokkur orð út af ræðu hv. síðasta ræðumanns, sem kannske gerist nú ekki mikil þörf á að svara. Hann svaraði sér dálítið sjálfur í lokin um það, að það væri í rauninni lítið að á Norðurlandi, þó að í upphafi segði hann, að það, sem allt ylti á, væri það, að atvinnumálin væru leyst, vegna þess að skólamál og samgöngumál mundu leysast nokkuð af sjálfu sér, ef þm. og ríkisstj. stæðu að því. Að vísu finnst manni það þá nokkuð, sem til þarf að koma, og ég er ósköp hræddur um, að Norðurlandsáætlun út af fyrir sig mundi ekki leysa atvinnumálin, ef ekki kæmu til þing og stjórn, því að það þarf nú líka að koma til eitthvert fjármagn til þess að leysa þau mál.

Eins og hv. 3. þm. Norðurl. e. sagði, er áætlun sem þessi góð út af fyrir sig, eins og ég hef áður sagt, en hún er vinnuplan, nauðsynlegt vinnuplan. En það, sem auðvitað þarf til að koma, er, að það sé auðið með skynsamlegum hætti að byggja upp fyrirtæki á þessum stöðum og leysa úr atvinnuvandamálunum þar. Og það, sem skiptir þar máli, er tvennt: Annars vegar að sjálfsögðu fjármagn, sem til þarf að koma, hins vegar framtak aðila heima fyrir í byggðunum til þess að standa að atvinnuuppbyggingunni með þeirri aðstoð, sem auðið er að veita, og að það verði lögð áherzla á að reyna að byggja upp á þessum stöðum arðbær fyrirtæki fyrir þjóðarheildina.

Það er alveg rétt, sem hæstv. iðnmrh. gat hér um, að því miður hefur okkur of oft sézt yfir það í okkar litla þjóðfélagi að kanna til hlítar, hvað væri arðbært, að það væri í fullu raunsæi skoðað niður í kjölinn, hvort fyrirtækin væru líkleg til að ganga eða hvort þau yrðu eilíflega á framfæri sem vandræðafyrirtæki.

Ég skal ekki fara lengra út í þá sálma. En mér datt í hug út af ræðu hv. 5. þm. Norðurl. v., að ég hélt nú ekki að mikil hætta væri á að hann félli í þá gryfju að hafa Tímann að leiðarljósi í því, sem hann teldi, að aðrir hefðu sagt hér í þinginu. Hann var ekki viðstaddur, að því er mér skilst, þegar ég flutti mína ræðu, hefur hins vegar flett upp í Tímanum og séð, hvað þar var sagt, að ég hefði sagt, og ég skil þá vel, þó að hann fari ekki nákvæmlega rétt með, úr því að hann hefur slíka heimild. Ég nenni nú varla í þriðja skipti að fara að taka það fram, að auðvitað er það fjarri öllu lagi, að ég hafi sagt, að það væru ekki atvinnumálin á Norðurlandi, sen skiptu máli, þau væru algert aukaatriði í þessu. Þetta er algjörlega út í hött og leiðinlegt að þurfa alltaf að vera að endurtaka þetta. (Gripið fram í: Ég hafði þetta eftir þér.) Í Tímanum, já. En ég held, að hv. þm. hafi ekki hingað til haft Tímann sem biblíu, og sé honum lof og þökk, að hann hefur haft dómgreind til þess. En honum virðist eitthvað vera farið að förlast. En vitanlega eru atvinnumálin eitt undirstöðuatriðið. Það eina, sem ég hef sagt og segi enn, er það, að áætlunin er ekki um það, að ríkið eigi að reisa tiltekin fyrirtæki á Norðurlandi, og frá því hverf ég ekki. Hún er ekki um það og verður ekki um það. Hún verður kortlagning á því vandamáli, sem þarna er við að glíma, athugun á því í samráði við verkalýðsfélög og sveitarstjórnir, hvað líklegast væri, að kæmi til álita að byggja upp á stöðunum, og síðan að leitast við með aðstoð Atvinnujöfnunarsjóðs og þeim aðilum, sem ætlað er það verksvið í lögum um framkvæmdaáætlanir, að byggja upp þessi fyrirtæki eða standa við bakið á þeim aðilum, sem vildu leggja sitt lið til þess að byggja þau upp, en ekki að áætlunin verði pöntunarlisti til ríkisins um það að byggja atvinnulífið upp með ríkisfyrirtækjum. Ég hélt, að hv. þm. væri ekki heldur baráttumaður fyrir því. (Gripið fram í.) Jú, það er nákvæmlega það, sem ég var að segja.

Varðandi það svo, að heilinn sé hér í Reykjavík og þar eigi hann að vera, það er út af fyrir sig alveg rétt, en ég hygg, að hv. þm. sé nú það vel að sér í heilsufræði, að hann viti, að það þurfi skilaboð til heilans til þess að hann viti, hvernig viðbrögðin þurfi að vera. Til þess eru taugar líkamans, og þær liggja út til hinna ýmsu stöðva, og sama gildir hér um Norðurlandsáætlunina. Áætlunin er um framkvæmdir á Norðurlandi og því ekkert óeðlilegt, að þar sé staðsett sú athugun, sem á að fara fram á þeim málum. Vitanlega verður svo endanlega gengið frá þessari áætlun hér í Efnahagsstofnuninni, og í áætlunargerðinni er beinlínis gert ráð fyrir því, að ekki eigi að hafa samband við þm. um þetta fyrst og fremst, heldur eigi að hafa samband í áætlunargerðinni við verkalýðsfélögin eða launþegafélögin og sveitarstjórnirnar á þessu svæði, enda kom það fram hjá öðrum hv. ræðumanni hér, hv. 1. þm. Norðurl. e., að hann varpaði fram þeirri hugmynd, hvort það væri ekki jafnvel eðlilegt, að þetta væri á vegum Fjórðungssambands Norðlendinga. Hann er auðvitað miklu nær lagi, sá skilningur, heldur en það, að allir menn, sem séu að vinna eitthvað í þjóðfélaginu að áætlanagerð, á hvaða sviði sem er, eigi að hafa aðsetur í Reykjavík.

En svo var það enn eitt atriði, sem ég var í rauninni mjög hissa á hjá þessum hv. þm., sem annars er háttvís maður. Hann kom með dylgjur um það, að þessi ungi maður, sem hefur verið ráðinn í þetta, hafi verið ráðinn þar, vegna þess að hann hafi verið á lista með mér í Norðurl. e. Þessu vil ég mjög harðlega mótmæla. Sá maður, sem var í þessu starfi áður, Bjarni Einarsson, sem er ósköp vitanlegt að hefur ákveðnar stjórnmálaskoðanir, sem ekki eru mínar skoðanir, sinnti þessu máli með ágætum og engin ástæða til að ætla, að hann hafi ekki lagt þar fram sitt lið sem verði mátti. Hann vann þarna mjög gott starf, og hefði vitanlega unnið að þeim málum áfram, ef hann hefði ekki ráðizt til annars starfs, og þá þurfti að leita eftir manni. Ástæðan til þess, að Lárus Jónsson var valinn í þetta starf, er ekki barátta mín, heldur mat forstjóra Efnahagsstofnunarinnar sjálfs, sem stakk upp á þessu, vegna þess að Lárus Jónsson hefur svipaða menntun og Bjarni Einarsson og hefur sérstaklega lagt sig eftir byggðaáætlunum og hefur haft aðstöðu til þess að kynna sér þær erlendis.

Ég skal játa, að ég studdi það mjög eindregið, að þessi starfsemi yrði staðsett á Akureyri, af því að mér fannst, að þegar um er að ræða byggðaáætlanir, væri ekki óeðlilegt, að að þeim væri unnið úti á landi. Við höfum oft heyrt það hér í þinginu, og margar raddir hafa komið fram um það, að flytja ætti ýmsar stofnanir út á land, og það er ekkert íslenzkt mál. Það er rætt um það í mörgum öðrum löndum, að það sé æskilegt, að ekki sé allt saman komið í höfuðborginni. Og þegar svona vildi til, að hér var einmitt verið að vinna að sérstökum málefnum landsbyggðarinnar, sem ekki þurfti nauðsynlega að staðsetja hér í Reykjavík, fannst okkur mjög eðlilegt og skynsamlegt að setja þessa starfsemi þarna niður. Og ég er alveg reiðubúinn til að taka ákúrum út af þeirri ráðstöfun, ef það þykir þess virði. En ég get ekki komizt hjá því, og ég vona, að hv. þm. skilji, að það eru eðlileg viðbrögð frá minni hendi, að mótmæla því, að það sé verið að dylgja um það, að þessi ungi maður, sem í þetta hafi ráðizt, hafi eingöngu verið til þess ráðinn, af því að hann hafi verið einhver pólitískur jábróðir minn, en ekki vegna þess, að hann hafi verið talinn til þess sérstaklega hæfur. Það er algjörlega ósatt mál, og ég harma, að þessi mæti þm. skuli hafa tekið sér slík orð í munn.