21.02.1968
Sameinað þing: 40. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 676 í D-deild Alþingistíðinda. (3176)

202. mál, húsaleigugreiðslur ríkisstofnana

Fyrirspyrjandi (Þórarinn Þórarinsson):

Herra forseti. Ég vil þakka hæstv. fjmrh. fyrir þessa ýtarlegu og greinargóðu skýrslu hans. Ég hygg, að þm. séu sammála um, að hún sé athyglisverð að mörgu leyti.

Mér finnst sérstök ástæða að undirstrika tvennt, sem kom fram í ræðu ráðh. Í fyrsta lagi það, að þessar tölur, sem voru lesnar hér upp, sýna nauðsyn þess, að ríkið stefni að því að eiga sem mest eigið húsnæði eða það húsnæði, sem það og stofnanir þess þurfa að nota, því að þar er ekki aðeins að líta á leiguna eina, heldur hitt, að með því að hafa stofnanirnar í sameiginlegu húsnæði er hægt að koma við ýmiss konar hagræðingu, sem ella verður ekki við komið, eins og ráðh. benti réttilega á. Þá hygg ég, að þessi skýrsla sýni það einnig mjög ljóslega, sem ráðh. minntist einnig á að það sé nauðsynlegt að samræma meira leigumála heldur en hingað til hefur verið gert, og þess vegna læt ég í ljós ánægju mína yfir því að ráðh. sagði, að það væri nú ætlun fjmrn. að vinna að því að koma þeirri skipan á.

Það væri að sjálfsögðu freistandi að ræða nokkuð almennt um þetta mál, en til þess er yfirleitt ekki ætlazt um fsp., að það sé haldið uppi almennum umr., heldur fyrst og fremst leitað eftir upplýsingum og dregnar aðeins meginniðurstöður af þeim. Þess vegna skal ég ekki orðlengja þetta frekar að sinni, en mun e.t.v. koma að því síðar, en árétta þetta tvennt, að mér finnst þessi skýrsla sýna nauðsyn þess, að stefnt sé markvissara að því en áður, að ríkið og stofnanir þess eignist sitt eigið húsnæði og að leigumálar verði samræmdir.