28.02.1968
Sameinað þing: 41. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 677 í D-deild Alþingistíðinda. (3181)

199. mál, Alþingishús

Fyrirspyrjandi (Þórarinn Þórarinsson):

Herra forseti. Í febrúarmánuði 1961 flutti ég till. ásamt hv. 3. þm. Vesturl., Halldóri E. Sigurðssyni, sem hljóðaði á þessa leið:

Alþ. ályktar að kjósa 5 manna n., er vinni að því í samráði við ríkisstj. að gera till. um stækkun alþingishússins eða byggingu nýs þinghúss eftir því. hvort betur þyki leysa þörf Alþingis fyrir viðunandi húsnæði. N. skal skila till. til Alþ. eigi síðar en haustið 1962.“

Í grg. till. var því lýst, eins og hv. þm. er kunnugt um, að húsnæði Alþ. nú er algerlega óviðunandi, en hins vegar mundi ekki verða hafizt handa um að bæta úr því, nema áður sé búið að ákveða, hvort notast eigi að einhverju leyti við núverandi þinghús eða byggja nýtt. Í n. var samkomulag um það að breyta till., og var hún afgreidd frá Alþ. 28. marz 1961 svo hljóðandi:

Alþ. ályktar að fela forsetum þingsins í samvinnu við fulltrúa frá þingflokkunum að gera till. um framtíðarhúsnæði Alþingis.“

N. hóf svo störf vorið 1961, en lítið var um árangur, og svo fór, að þetta kjörtímabil leið alveg á enda, án þess að nokkur árangur sæist af störfum n. Þess vegna var það, eftir að kosningar höfðu farið fram og nýir forsetar voru komnir til sögu haustið 1964, að mér fannst hlýða að gera fsp. um störf n. og beindi þeim til hæstv. forsrh., sem svaraði þeim hér á þingfundi 18. nóv. 1964 á þá leið, að enn hefði ekki tekizt að ná samkomulagi í n. Það hefði ekki þótt ráðlegt að láta skerast þar í odda, en n. mundi halda störfum áfram, og æskilegt væri, að till. frá henni kæmi sem fyrst.

Nú leið þetta kjörtímabil án þess að nokkurt álit kæmi frá n., og því finnst mér hlýða nú, þegar nýtt kjörtímabil er aftur hafið, að endurnýja þessa fsp. til hæstv. forsrh., — en undir hann heyrir Alþ. og húsnæðismál þess, — hvort hann álíti, að það sé að vænta nokkurra tillagna frá þessari n. á næstunni, því að ef svo er ekki, finnst mér, að það liggi beinast við að taka málið upp með einhverjum öðrum hætti og þá jafnvel með því að flytja beina till. um það hér á Alþ., hver staðsetning þinghússins skuli vera.