28.02.1968
Sameinað þing: 41. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 680 í D-deild Alþingistíðinda. (3188)

201. mál, Stjórnarráðshús

Fyrirspyrjandi (Þórarinn Þórarinsson):

Herra forseti. Á þingi vorið 1954 lögðu þeir fram Steingrímur Steinþórsson og Ólafur Thors í sameinuðu þingi svo hljóðandi till.:

„Alþingi ályktar að heimila ríkisstj. að verja úr ríkissjóði á árinu 1954 eða leggja til hliðar á því ári:

1. 2 millj. kr. til þess að reisa nýtt stjórnarráðshús í Reykjavík.

2. 1 millj. kr. til kirkjubyggingar í Skálholti.“ Ólafur Thors mælti fyrir þessari þáltill. hér á Alþ. 13. apríl 1954 og fórust m.a. orð á þessa leið, með leyfi hæstv. forseta:

„Ég leyfi mér þó aðeins að minna á að hinn 1. febr. s.l., þegar liðin voru 50 ár frá því að stjórnin fluttist inn í landið, þá gaf ríkisstj. út tilkynningu um það, að hún mundi beita sér fyrir því, að byggt yrði stjórnarráðshús. Ríkisstj. hefur rætt um þetta við flokka sína og hefur nú talið sér fært að bera fram till. um, að fyrsta sporið verði stigið til þess að efna það fyrirheit, sem þá var gefið, með því að varið verði úr ríkissjóði eða lagðar til hliðar í þessu skyni á yfirstandandi ári 2 millj. kr.

Ég veit, að öllum hv. þm. er kunnugt um, hversu þröngur er húsakostur æðstu stjórnar landsins, og þá jafnframt, hver bagi ekki aðeins sjálfri stjórninni og hennar starfsmönnum er að þessu, heldur oft og einatt öllum þeim, sem á hennar fund þurfa að leita. Hin ytri merki um þessa fátækt eru náttúrlega mál fyrir sig. Það er leiðinlegt, að ríkisstj. og hennar starfslið skuli þurfa að una því, sem allt of lengi hefur verið sætt sig við, og á ég þar ekki aðeins við núverandi ríkisstj. né fyrrverandi, heldur á þetta við, þótt farið sé miklu lengra aftur í tímann. Hitt er stærra atriði, að vegna húsnæðisþrengslanna verður sú starfræksla, sem þar fer fram, miklu kostnaðarmeiri.

Ég geri ráð fyrir, að hv. alþm. viti, að það, sem stjórnin hefur í huga, er að hagnýta lóðir ríkisins á milli Bankastrætis og Amtmannsstígs til þess að reisa þar myndarlegt stjórnarráðshús. Aðeins fyrstu frumdrættir hafa verið teiknaðir af þessu húsi, og hefur stjórnin haft þá til athugunar, en að sjálfsögðu þarf það mál að sæta miklu nánari meðferð, áður en auðið er að stíga fyrsta sporið í framkvæmdunum. Geri ég ráð fyrir, að ríkisstj. muni fela starfsmönnum sínum að sjá um, að málið fái þann undirbúning, sem það verðskuldar. Við þær aðstæður, sem við búum hér, þar sen saman fer höfuðstaður fátækrar menningarþjóðar og fiskibær, ber hinu opinbera að vanda eftir föngum til þeirra bygginga, sem það reisir, og ríkisstj. mun hafa hug á því að koma þarna upp veglegu húsi, en þó án alls íburðar.“

Þessi till. var samþ. samhljóða á Alb., og á næstu þingum var veitt sérstakt framlag á fjárl. til umræddrar stjórnarráðsbyggingar. Það mun einnig hafa verið skipuð sérstök n. til að vinna að undirbúningi hennar og einnig eitthvað unnið að teikningum. Nú um nokkurt skeið hefur hins vegar lítið heyrzt af þessu máli, og því er það, sem þessi fsp. er borin fram, að rétt þykir að minna á það, því að ég hygg, að enn séu í fullu gildi öll þau rök, sem koma fram í þeim ummælum Ólafs Thors, sem ég hef nú lesið upp.