28.02.1968
Sameinað þing: 41. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 681 í D-deild Alþingistíðinda. (3189)

201. mál, Stjórnarráðshús

Forsrh. (Bjarni Benediktsson):

Herra forseti. Það er sízt að tilefnislausu, að um þetta mál er spurt, því að játa verður, að áframkvæmd þess hefur orðið mjög verulegur dráttur. Þar til liggja þó ýmsar ástæður. Rétt er að geta þess fyrst, hvernig málið stendur nú. Að því hefur verið unnið, meira og minna slitrótt þó, allt frá árinu 1954 og þá fyrst og fremst með athugunum arkitekta á því, hvers konar bygging þetta nýja stjórnarráðshús ætti að vera. Till. þeirra hafa verið bornar undir ríkisstj., bæði þá sem nú situr, og aðrar áður fyrri. Þar hafa verið uppi mjög mismunandi hugmyndir. Í fyrstu var ætlunin að byggja mjög stórt hús á lóðum ríkisins milli Bankastrætis og Amtmannsstígs og þá jafnvel að kaupa upp verulegan hluta byggingarreitsins alla leið upp að Þingholtsstræti. En eins og kunnugt er, á ríkið ekki samfellt nema einungis frá Lækjargötu og upp að Skólastræti. Þá var ætlazt til, að þarna væri um að ræða háhýsi, sem gæti rúmað alla starfrækslu stjórnarráðsins, allar stjórnarskrifstofur, eins og þær eru nú og menn gátu þá hugsað sér. Þetta hlaut að verða mjög mikil bygging og kostnaðarsöm og í litlu samræmi, sannast að segja, við aðrar byggingar á þessum slóðum. Vegna þess, hvað þarna var um mikla byggingu að ræða, kom svo upp sú hugmynd að byggja til bráðabirgða á stjórnarráðslóðinni gömlu byggingu, sem þó gæti staðið til frambúðar og væri fyrir ofan gamla stjórnarráðið og lokaði byggingarreitnum þar fyrir ofan, þ.e.a.s. húsum Sigurðar Kristjánssonar og Garðars Gíslasonar, þannig að þau blöstu ekki lengur við, en yrði allhátt hús, sem setti svip sinn á umhverfið. Að athuguðu máli leizt mönnum ekki á þessa hugmynd, vegna þess að með þessu væri allt of nærri höggvið stjórnarráðshúsinu, eins og nú er, enda tel ég, að sú hugmynd sé með öllu fráleit, jafnvel þó að játa verði, að bakgrunnur Stjórnarráðsins sé nú ekki beint fallegur að sjá vestan frá.

Við nánari athugun kom í ljós, að hugmyndirnar um stórhýsi, sem rúmaði allar stjórnarskrifstofur, féll ekki inn í skipulagið, án tillits til þess, hvort það væri heppilegt eða ekki heppilegt frá rekstrarsjónarmiði ríkisins. Þá er skipulag bæjarins var endurskoðað eða ákveðið, kom í ljós, að þarna þurfti að vera miklu lægra hús og miklu minna hús en í fyrstu var fyrirhugað. Síðustu teikningar, sem gerðar hafa verið af þessari byggingu, hafa verið gerðar á árinu 1965 og árinu 1966, og hafa verið gerðir þrír mismunandi uppdrættir, þ.e.a.s. endurbættir hvað eftir annað, af mun minna húsi heldur en áður var fyrirhugað og þá ráðgert, að sumar stjórnarskrifstofurnar yrðu annars staðar. Sjálfum lízt mér miklu betur á þessar teikningar heldur en hinar fyrri, húsið fallegra, samsvarar sér betur og verður viðráðanlegra í byggingu. Ríkisstj. hefur hins vegar ekki tekið endanlega ákvörðun um, hvort unnið skuli samkv. þessum uppdráttum. Það var seint á árinu 1966, þegar mjög var farið að líða að kosningum, sem við fengum þessa uppdrætti, skömmu fyrir kosningar, og síðan hafa menn haft ærnu að sinna, eins og nógsamlega er kunnugt. Þessir uppdrættir liggja nú fyrir, og allir þeir þm., sem áhuga hafa, geta að sjálfsögðu fengið að skoða þá. En ég tel brýna þörf á því, að ríkisstj. taki nú skjótlega um það ákvörðun, hvort hægt sé að una við þær teikningar, sem nú eru fyrir hendi.

Í byggingarsjóðnum er sagt, að í byrjun febrúar hafi verið í kringum 18 1/2 millj. Það nægir auðvitað hvergi nærri til þess að ráðast í þá byggingu, sem þarna er um að ræða, en er þó góð undirstaða. Við skulum játa það, að það er tvennt til viðbótar þessum skipulagsbreytingum, sem hafa orðið á tímabilinu, sem hefur gert það að verkum, að menn hafa ekki talið tímabært að hraða mjög ákvörðun.

Annars vegar hefur sú mikla þensla, sem hér hefur verið á vinnumarkaði að undanförnu leitt til þess, að menn töldu ekki ástæðu til þess að ráðast í slíka stórbyggingu. Nú eru e.t.v. horfur á að breyting sé orðin eða verði í þeim efnum. Það kemur betur í ljós á næstu mánuðum, og þá er einmitt mjög heppilegt að geta ráðizt í slíka byggingu eins og þessa. Jafnframt hefur það lengi verið skoðun mín, að þó að brýn nauðsyn sé á að koma upp slíkri byggingu, sé rétt að skoða vel sinn hug um hana. Hún á vonandi að standa um mjög langa tíð. Okkar þjóðfélag hefur verið í ákaflega örum vexti. Við sjáum, hvernig þær byggingar, sem reistar voru jafnvel fyrir fáum árum, svo að ég segi ekki áratugum, eru nú orðnar gersamlega úreltar og fjarri okkar hugmyndum. Þess vegna hef ég talið, að það væri eðlilegt, að þessi mál væru undirbúin, en það lægi ekki lífið á og væri betra að búa við þröngan hag í bili og taka heldur rétt tækifæri, þegar aðstæður gerðu það ráðlegt, að í slíka byggingu væri lagt, og reyna þá frekar að koma henni upp á skemmri tíma. Nú hefur málið verið mjög lengi til athugunar, og tel ég, — það er einungis mín einkaskoðun; — en ég tel, að þær teikningar, sem nú liggja fyrir, séu góðar, a.m.k. í meginatriðum, og þess vegna ætti, hvenær sem ákvörðun verður um þær tekin, að vera hægt að ráðast í þessar framkvæmdir.