06.03.1968
Sameinað þing: 43. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 692 í D-deild Alþingistíðinda. (3202)

144. mál, vegabætur og rannsókn á brúarstæði

Halldór E. Sigurðsson:

Herra forseti. Ég skal nú ekki lengja þessar umr., en ég vil undirstrika það, að það gleður mig stórum, að hæstv. samgmrh. skuli nú lýsa því skorinort yfir, að þessi rannsókn skuli gerð. Ef þetta verður framkvæmt og brúin kemur, ætla ég að fyrirgefa það, þó að það hafi tekið 10 ár að hugsa um málið.

Út af því, sem fram kom í ræðu hans og hv. 4. þm. Vesturl., vil ég segja það, að þau rök, sem þar voru nefnd, voru líka notuð hér fyrir 10 árum, og þá sáu menn hér á hv. Alþ., hvert stefndi með samgöngurnar í landinu, þær væru óðum að færast inn á landleiðir, og bentu á, að þetta yrði sú leiðin, sem væri einna fjölförnust, og þess vegna yrði í tíma að hugsa fyrir málinu. Fyrir 10 árum voru menn það framsýnir hér á hv. Alþ., að þeir sáu það, að þessa leið yrði að rannsaka. Þeir gerðu sér það ljóst, að það yrði að byggja nýja brú yfir Hvítá. Ferjukotssíkisbrýrnar mundu ekki anna þeirri umferð, sem í framtíðinni mundi á þær lögð, og annað því um líkt.

Þess vegna ályktuðu þeir hér samhljóða, að þessi rannsókn skyldi fara fram. Það er hins vegar hryggðarefni, að í valdastóli samgöngumála skuli hafa setið menn, sem ekki hafa komið auga á þetta fyrr en nú, að samgöngurnar eru daglega stöðvaðar, eins og hefur verið síðustu dagana, vegna þess að leiðin getur ekki annað því hlutverki, sem henni er ætlað. Þess vegna gleðst ég — og enginn meira en ég — yfir því, að nú skuli þó loksins vera skilnings að vænta í þessu máli, og þegar framkvæmdin verður hafin, vona ég, að þeir biðjist ekki afsökunar á því, forustumenn í samgöngumálum, að þeir hafi eitthvað verið við það riðnir, eins og kom fram í blaðaummælum á s.l. hausti.