06.03.1968
Sameinað þing: 43. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 693 í D-deild Alþingistíðinda. (3203)

144. mál, vegabætur og rannsókn á brúarstæði

Jón Árnason:

Herra forseti. Ég skal ekki lengja þessar umr. mikið. Ég vil aðeins nota tækifærið og þakka hv. fyrirspyrjanda fyrir að hafa hreyft þessu máli hér og enn fremur hæstv. samgmrh. fyrir þær upplýsingar, sem hann hefur gefið af því tilefni.

Eins og kunnugt er, er nú síðasta árið af fjögurra ára vegáætluninni, og stendur því yfir nú endurskoðun og mótun þeirrar vegáætlunar, sem við tekur á næsta ári. Það er því ekki óeðlilegt, að ýmsum málum, sem snerta samgöngur á landi, sé hreyft hér á þessu þingi, og vitanlega er það svo, að margar þál. till. hafa verið samþ., sem fela í sér að rannsaka eitt og annað, sem snertir vegasamgöngur. Og það er ekki óeðlilegt, að oft sé rætt um þessa leið hér fyrir Hvalfjörð og Vesturlandsveginn og samgöngurnar yfir Hvalfjörð, þar sem þessar vegasamgöngur snerta hvorki meira né minna en samgöngur fyrir þrjá af fjórum landsfjórðungum. Við vitum það, sem kunnugt er, að allar samgöngur á landi til Vestfjarða, til Norðurlandsims og enn sem komið er til Austurlandsins eru undir því komnar, hvernig þessi vegur hér fyrir Hvalfjörð er hverju sinni. Og eins og hér hefur komið fram, var samþ. á síðasta þingi þátill. um að athuga sérstaklega, hvernig bezt yrði fyrir komið vegasamgöngum hér fyrir Hvalfjörð. Það var nokkru eftir að till. var samþykkt skipuð þriggja manna n., og mér er kunnugt um það, af því að ég hef haft áhuga á því að fylgjast með störfum þessarar n., að hún hefur þegar unnið að margvíslegum og miklum upplýsingum, sem nauðsynlegt er að afla í sambandi við það mál.

Það var ákveðið með samþykkt þessarar till., að upplýsingarnar skyldu liggja fyrir í lok yfirstandandi árs, og að því tel ég að sé stefnt. Það var gert fyrst og fremst með tilliti til þess, að þessar upplýsingar geti legið fyrir, þegar hin nýja vegáætlun, sem á að koma til framkvæmda á árinu 1969, verður mörkuð og samþ. hér á Alþ. Og það er einmitt með tilliti til þess, að hér er um mjög mikið hagsmunamál og nauðsynjamál að ræða í sambandi við samgöngur á þessu landi.

Ég tel ekki ástæðu til að fjölyrða frekar um málið. Ég vil taka það fram að nýju, að ég þakka þeim, sem hér hafa átt hlut að máli, að þessum umræðum var hreyft, og ég tel, að það hafi ýmislegt komið fram í sambandi við þessar umr., sem undirstrikar það, hve mikil nauðsyn er á að þessar vegaframkvæmdir og auknu samgöngubætur, sem hér um ræðir, verði númer eitt í þeirri vegáætlun, sem samþ. verður fyrir næsta tímabil.