06.03.1968
Sameinað þing: 43. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 698 í D-deild Alþingistíðinda. (3208)

150. mál, starfsaðstaða tannlæknadeildar háskólans

Fyrirspyrjandi (Einar Ágústsson):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. menntmrh. fyrir þessa skýrslu, sem hann las upp, frá menntmrn. um aðstöðu tannlæknadeildarinnar. Það er glöggt, að það hefur ekki verið nein vanþörf á því að hreyfa þessu máli einhvers staðar, og ég tel nú, að það sé prófessor tannlæknadeildarinnar, sem hafi hreyft því fyrstur með viðtalinu, sem hann átti í útvarpinu, því að það kemur sem sé í ljós, að menntmrn. hefur ekki vitað um það, að Háskólinn setti stúdentum þessi skilyrði, sem hér hafa verið rakin, og það er sannarlega kominn tími til þess, að æðstu yfirmenn menntamálanna í þjóðfélaginu fái vitneskju um það, hvernig þessi mál standa.

Það er gott að heyra það út af fyrir sig, að menntmrn. skuli líta svo á að þetta mál sé til athugunar hjá háskólanefnd. En ég tel, að menntmrn. hljóti að vita af eða á í þessu, ekki sízt þar sem fulltrúi frá því rn. er einmitt í þessari margnefndu háskólanefnd, og ætti hann þá nú, þegar honum er málið kunnugt, að koma hreyfingu á það í háskólanefndinni.

Það er greinilegt, enda kom það fram af skýrslu hæstv. ráðh., að fyrir nokkurri frambúðarlausn hefur alls ekki verið hugsað, að því er þessa tannlæknadeild snertir. Og afleiðingin er sú, eins og ég rakti hér áðan lauslega og staðfestist af skýrslu hæstv. ráðh., að stúdentar gefa sig ekki að því að nema við þessa deild. Þessu þarf að breyta, og ég treysti því, að hæstv. menntmrh. beiti áhrifum sínum til þess að svo verði gert.

Það er góðra gjalda vert að hækka fjárveitingar í hlutfalli við aukna dýrtíð og eitthvað aukinn nemendafjölda. Ég vil sízt gera lítið úr því. En aðalefni þessa máls er þó það, að fyrir húsnæðismálum deildarinnar hefur ekki verið hugsað og aðsókn að henni hefur stórdregizt saman vegna þess. Afleiðingin er svo fyrirsjáanlegur tannlæknaskortur.

Í þessu sambandi mætti ég kannske minna á það, að hér á landi er mjög mikil þörf fyrir tannlækna og meiri en víðast hvar annars staðar. Samkv. rannsóknum, sem hér hafa farið fram og voru framkvæmdar af Pálma Möller tannlækni í samvinnu við háskólann í Alabama eða kostaðar af honum að verulegu leyti, eru tannskemmdir hér hjá tveggja ára börnum tvöfalt meiri en t.d. hjá Norðmönnum, sem eru þó lægstir af þeim þjóðum öðrum, sem þessi rannsókn náði til. Það er ekki búið að vinna úr rannsóknum á fullorðnu fólki, en ég tel alveg víst, að þær niðurstöður séu síður en svo hagstæðari fyrir okkur Íslendinga. En það kemur í ljós. Hér starfa nú milli 80 og 90 tannlæknar, en lágmarksþörf fyrir tannlækna mun hvarvetna vera talin einn tannlæknir á hverja 2000 íbúa, svo að okkur vantar enn nokkuð á að ná því marki, auk þess erum við, eins og ég áður sagði, verr á vegi staddir heldur en flestar aðrar nágrannaþjóðir okkar í þessu tilliti.

Í þessu margnefnda útvarpsviðtali, sem ég hef gert hér að umtalsefni, var forstöðumaður deildarinnar spurður að því, hvaða ráð væru til þess að útrýma þessari tannskemmdatíðni hér. Og hann minntist á tvennt. Hann minntist á það að blanda flúor í vatn og sagði, að það hefði verið nokkuð rannsakað hér, en á því væru töluverð vandkvæði, en yrði þó athugað. Hin leiðin, sem hann benti á, var að koma upp skipulegu tanneftirliti með fjölgun tannlækna og aðstoð, og helzt þyrfti að koma því þannig fyrir, að fylgzt yrði með tönnum fólks til tvítugsaldurs.

Ég skal láta þessu lokið, herra forseti. Ég vil aðeins minna á það, áður en ég lýk máli mínu, að formaður Tannlæknafélagsins hefur skýrt mér frá því, að mjög mikill áhugi væri fyrir því hjá tannlæknum að koma upp slíkum miðstöðvum utan þéttbýlisins og mikil nauðsyn, og yfirleitt eru þessi mál þannig á vegi stödd, að full ástæða er til að gefa þeim gaum. Það er ekki hægt í takmörkuðum fyrirspurnatíma að gera þessum málum nein skil. Ég vil ekki níðast á þolinmæði forseta, en ég minni á, að þessi mál þurfa rækilegrar athugunar við.