15.12.1967
Neðri deild: 41. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 348 í B-deild Alþingistíðinda. (321)

75. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Fjmrh. (Magnús Jónsson):

Herra forseti. Ég sé ekki ástæðu til að fara í orðræður við hv. þm. út af því atriði, hvort ástæða sé til þess að samþykkja þessa margföldun fasteignamatsins eða ekki. Viðhorfin til þess máls byggjast á því sama eins og er ákaflega áberandi hjá ýmsum hv. þm., að það sé alltaf ástæðulaust að sjá ríkissjóði fyrir tekjum til eins eða neins, það sé sjálfsagt að láta hann greiða allt, sem mönnum dettur í hug að láta hann greiða, en það þurfi enga peninga til þess. Um það sé ég enga ástæðu til þess að orðlengja, en það voru aðeins tvö atriði í hans ræðu, sem ég vildi lítillega minnast á.

Annað var það, að ósanngjarnt væri að margfalda fasteignamatið eins og gert er og taka ekki tillit til þeirrar mismunandi aðstöðu, sem er á ýmsum stöðum á landinu. Ég sagði í framsöguræðu minni um þetta mál, að það væri efnislega rétt, að í þessu kynni að verða eitthvert misræmi, en benti hins vegar á, að því fer víðs fjarri, að það sé ekki tekið tillit til þess í dag, vegna þess að grundvöllurinn er mjög mismunandi eftir því, hvar fasteignirnar eru á landinu. Hins vegar held ég, að það ætti að vera öllum hv. þm. ljóst, að það er útilokað að fara nákvæmlega nú að gera endurskoðun á þessu, enda er það ekki framkvæmanlegt. Það er einmitt þetta, sem fasteignamatið er nú að kanna, og áður en þeirri könnun lýkur, er ekki hægt að endurskoða grundvöllinn, enda hefur ekki verið vakin sérstök athygli á þessu, t.d. í sambandi við till. Samb. ísl. sveitarfélaga, sem óskar eftir því að fá sams konar ákvæði lögfest varðandi útsvörin. Ég held því, að ástæða til andmæla gegn frv. af þessum ástæðum sé ekki haldgóð.

Varðandi seinna atriðið finnst mér nú nánast sagt, að hv. þm. geri sig næstum hlægilegan að vera að halda því fram, að nokkrum detti í hug að margfalda nýja fasteignamatið með 9, þó að það standi ekki í þessu frv., og að nauðsynlegt sé að setja ákvæði í frv. til að girða fyrir það, það finnst mér nánast fjarstætt. Það hefur engum manni komið til hugar að gera það, enda segir svo í lögunum um fasteignamatið sjálft, að þegar það taki gildi, skuli endurskoða öll þau gjöld, sem miðuð eru við fasteignamat, þannig að það lagaákvæði er þegar í gildi. Það er alveg rétt, að það var haft samband við mig frá hv. n., og ég taldi fyrir mitt leyti og tel enn, að það sé gersamlega ástæðulaust að setja slíkan fyrirvara inn í þetta frv., því að þetta liggi svo í augum uppi, að engum manni muni hugkvæmast að nífalda nýja fasteignamatið.