15.12.1967
Neðri deild: 41. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 353 í B-deild Alþingistíðinda. (324)

75. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Gísli Guðmundsson:

Herra forseti. Það er ætlan mín að segja nokkur orð um þann hluta þessa frv., sem fjallar um eignarskatt, þ.e.a.s. hækkun á eignarskatti. Það má eins orða það svo, að hér sé um að ræða hækkun skatts á fasteignum. En í 2, gr. frv. er gert ráð fyrir því, að virðing á fasteign til eignarskatts sé miðuð við gildandi fasteignamat nífaldað, en þó í sveitum við minni margföldun, þ.e.a.s. 4.5. Það er gert ráð fyrir því, að upp úr þessu fáist tekjuauki fyrir ríkissjóð, sem nemi 30 millj. kr.

Nú hefur nokkuð verið að því vikið í þessum umr., hvort þörf muni vera á því um þessar mundir að hækka skatta til ríkisins, og hjá síðasta ræðumanni kom það fram, að þess væri alls ekki þörf, þar sem ríkissjóður ætti nú von mikils tekjuauka vegna gengisbreytingarinnar. Og auðsætt er það, að svo muni vera. Nú þykist ég samt dálítið vant við látinn að gera mér grein fyrir því, hvort ríkissjóður muni hafa þörf fyrir tekjuauka sem þessu nemur, vegna þess að fjárlög fyrir árið 1968 hafa enn ekki verið afgreidd, og við þm. höfum almennt engar upplýsingar um það, hvaða stefnu ríkisstj. hugsar sér að fylgja við afgreiðslu fjárl. við 3. umr. Brtt., sem boðaðar hafa verið, eru ekki komnar fram og ekki kunnugt um efni þeirra.

Nú vil ég segja það fyrir mitt leyti, að ég vildi gjarnan eiga þess kost, áður heldur en ég tek afstöðu til þess, hvort þörf sé á nýjum sköttum í ríkissjóðinn, eiga þess kost að sjá, hverjar till. hæstv. ríkisstj. og meiri hl. hv. fjvn. fyrir hennar hönd verða við 3. umr., um afgreiðslu útgjaldahliðar fjárl. og þá alveg sérstaklega um framlög verklegra framkvæmda víðs vegar um land. Það er náttúrlega hugsanlegt, að till. þær, sem fram verða lagðar af hálfu ríkisstj. um þessi efni, þ.e.a.s. um hækkun framlaga til verklegra framkvæmda víðs vegar um land, verði svo ríflegar, að óhjákvæmilegt verði fyrir þm. að taka það til athugunar, hvort einhverju þyrfti að bæta við skattana. Hins vegar, ef ekki verður um slíkt að ræða, er það náttúrlega auðsætt, sem 4. þm. Reykv., sem hér talaði áðan, sagði, að ekki yrði þörf nýrra skatta fyrir ríkissjóðinn. En þetta liggur ekki alveg ljóst fyrir fyrr en í 3, umr. og þess vegna vil ég mælast til þess, að lokaafgreiðslu þessa frv. verði frestað þangað til eitthvað liggur fyrir um það, hvernig sú afgreiðsla fjárl. muni verða og þar með tekjuþörfin. Það er mitt viðhorf, að ef um það er að ræða, að till. ríkisstj. um fjárframlög, sérstaklega til verklegra framkvæmda víðs vegar um landið, yrðu ríflegar, að þá mundi ég frekar vera til viðtals um það, að eitthvað þyrfti að athuga um það efni, sem hér liggur fyrir, annars ekki.

Um hækkun eignarskattsins eða fasteignaskattsins, sem hér liggur fyrir, vil ég að öðru leyti segja það, að komið hafa að máli við mig ýmsir sveitarstjórnarmenn úr mínu kjördæmi og rætt um þetta efni. Hjá þeim hefur komið fram svipað álit eins og kom hér fram frá hv. frsm. meiri hl. n., en einnig var í ræðu hans að einhverju leyti rakin afstaða Samb. ísl. sveitarfélaga. En frá þessum mönnum kom fram hið sama viðhorf, að þeir teldu, að það væri óheppilegt að hækka þennan skatt, vegna þess að hér væri um að ræða skattstofn, sem sveitarfélögin þyrftu mjög á að halda, en ættu því erfiðara með að nota, sem ríkið gengi lengra inn á skattheimtu á sama sviði.

Það er alkunna, að sums staðar erlendis nota sveitarfélög mjög verulega þennan skattstofn, þ.e.a.s. til álagningar fyrir sig. Mér finnst þetta eðlilegt viðhorf hjá sveitarfélögunum, að ef á annað borð á að skattleggja verulega þær fasteignir, sem og hefur verið gert, sé eðlilegra, að sveitarfélögin geri það og að ríkið taki þá sínar tekjur á annan hátt. Það er líka svo, að ef sveitarfélögin afla sér teknanna á þessu sviði, þá er það auðveldara fyrir þau en ríkið, því að þeim er fremur innan handar að gera sér grein fyrir gjaldstofninum, þ.e.a.s. hinu raunverulega verðmæti fasteignanna, sem lagt er á. Það getur hvert sveitarfélag gert á sínu svæði. Þetta vildi ég nú láta koma fram, sem ég nú hef sagt, og svo eitt atriði í viðbót, sem fram hefur komið nú á fundinum.

Hv. frsm. minni hl. gerði það að umtalsefni, sem menn sjálfsagt hafa gert sér grein fyrir, að í frv. eru ekki ákvæði um það, að því er varðar þennan eignarskatt, að hann skuli gilda um takmarkaðan tíma. Það sýnist þó liggja í augum uppi, að hann ætti ekki að gilda eða þessi ákvæði ættu ekki að haldast lengur heldur en þangað til nýtt fasteignamat gengur í gildi. Mér hefur raunar dottið í hug, að hér sé um einhvers konar mistök að ræða, sem mundu verða leiðrétt, a.m.k. ef eftir því væri gengið, og að gildi þessara ákvæða yrði takmarkað áður en lögin yrðu afgreidd. En nú kemur það fram hjá hv. frsm. minni hl., að í n. hafi þetta borizt í tal, að þarna vantaði ákvæði í frv. um takmörkun á gildistíma ákvæðanna og að í tilefni af því hafi meiri hl. n. tekið sér frest til athugunar málsins og muni hafa rætt við ríkisstj. um það mál. Hafi þá það svar komið, að ekki væri samþykki fyrir því, að svona ákvæði um takmarkað gildi ákvæðisins yrði sett inn í frv.

Þetta þykir mér satt að segja í mesta máta athyglisverð upplýsing, og sér í lagi vegna þess, að núna alveg nýlega var ég staddur á fundi í Stúdentafélagi Háskólans, sem haldinn var fyrir nokkrum dögum, en þar höfðu verið tilnefndir framsögumenn héðan úr þessari háttv. samkomu, hv. 1. þm. Austf. og hæstv. viðskmrh., til þess að hafa framsögu um markaðsbandalögin í Evrópu. Hæstv. viðskmrh. ræddi þar allýtarlega um þessi markaðsbandalög og hugsanlega möguleika á því, að Ísland tæki þátt í þessum markaðsbandalögum eða öðru þeirra, Fríverzlunarbandalaginu eða jafnvel Efnahagsbandalagi Evrópu. Hæstv. viðskmrh. lýsti þar bæði kostum og göllum á slíku fyrirtæki, að ganga í markaðsbandalag, og gerði það skilmerkilega. Ég minnist þess, að eitt af því, sem hann taldi, að mundi verða til baga, ef gengið væri í markaðsbandalag, væri, að tolltekjur ríkisins mundu minnka mjög við inngöngu í bandalagið, af því að þessi félagsskapur byggðist að verulegu leyti á lækkun tolla innbyrðis. Þá ræddi ráðh. jafnframt um það, hvað til ráða væri, ef úr þessu yrði og tollarnir minnkuðu mjög verulega, og ég minnist þess, að hann ræddi þá alveg sérstaklega um fasteignaskattinn. Sagði hann, að það væri einn möguleikinn til þess að bæta upp tollalækkunina í sambandi við markaðsbandalag að hækka til mikilla muna fasteignaskatta og lýsti því viðfangsefni nokkuð.

Nú vil ég leyfa mér að spyrja, ef hér er einhver, sem hægt er að spyrja. Ég verð að spyrja samt: Er það kannske einhver fyrirhyggja af þessu tagi, sem felst í þessu frv.? Og er það þess vegna, sem stjórnin synjar um það að setja inn í frv. ákvæði um takmörkun gildistíma ákvæðanna, að hún vilji hafa vaðið fyrir neðan sig og strax útvega þennan möguleika til þess að hækka fasteignaskattana mjög verulega, því að það er ekki neitt smáræði, sem hér er um að ræða? Heyrzt hefur, að í nýja fasteignamatinu, á því stigi, sem það er nú, sé, svo að ég nefni einhverja tölu, kannske um tíföldun að ræða frá því fasteignamati, sem nú gildir. Ég hef þá í huga tölur, sem ég hef heyrt nefndar í sambandi við jarðir, sem nýlega hafa verið metnar af héraðsnefndum samkv. reglum, sem um það eru settar. Ef það ætti svo að nífaldast eða þó ekki væri nema margfaldað með 4.5, er þarna um mjög mikla skattahækkun að ræða. Mér dettur nú þetta í hug og ég vil freista þess að afla upplýsinga um það, hvort þarna sé um fyrirhyggju af þessu tagi að ræða. En ef það er ekki, finnst mér, að hæstv. ríkisstj. ætti að fallast á það, sem minni hl. fjhn. hefur farið fram á, að takmarka gildistíma ákvæðanna um margföldun fasteignamatsins.