15.12.1967
Neðri deild: 42. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 358 í B-deild Alþingistíðinda. (330)

75. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Þórarinn Þórarinsson:

Herra forseti. Í tilefni af því, sem seinasti ræðumaður sagði, eða í framhaldi af því finnst mér einmitt ástæða til að beina sérstöku þakklæti til Farmanna- og fiskimannasambands Íslands fyrir þá baráttu, sem það hefur háð fyrir því að koma þessari 1. gr. fram. Eins og hér hefur verið rakið nýlega í sambandi við þessar umr., hefur þetta réttlætismál farmanna því aðeins náð fram að ganga, að þeir höfðu lagt í tvö verkföll á þessu ári til að koma málinu fram. Og ég sé alveg sérstaka ástæðu til þess að þakka farmönnum fyrir þessa skeleggu framkomu. Og af því að síðasti ræðumaður er nú nokkuð tengdur þeim, vildi ég biðja hann þess að koma þessu þakklæti mínu fram á réttum vettvangi.

Annars stóð ég hér aðallega upp til þess að vita framkomu hæstv. fjmrh. í sambandi við þetta mál, sem mér finnst að hafi verið óþingleg. Hæstv. ráðh. var hér staddur við nokkurn hluta 2. umr. um þetta mál, en vék síðan af fundi og lét ósvarað ýmsum fsp., sem fram voru komnar í sambandi við málið, m.a. frá hv. 1. þm. Norðurl. e. Ég lít svo á, að það sé skylda ráðh. að vera viðstaddir í þinginu, þegar umr. fer fram um þau mál, sem þá snertir. Vitanlega getur það komið fyrir, að ráðh. séu forfallaðir af eðlilegum ástæðum, en þá eiga þeir að gera grein fyrir því og þá helzt að sjá svo um, að málið sé tekið út af dagskrá, svo að þeir hafi aðstöðu til þess að vera viðstaddir umr. Til þess er ráðh. ætlað að sitja hér á Alþ., að þeir séu viðstaddir umr. um þau mál, sem þá snerta sérstaklega, bæði til að upplýsa ýmis atriði og til að svara fsp., sem þm. bera fram. Ég álít það mjög vítavert, þegar ráðh. temja sér þá framgöngu að hlaupa burt í miðjum umr. um mál, sem undir þá heyra og embætti þeirra varðar, og láta ósvarað mjög málefnalegum fsp., sem til þeirra er beint. Þess vegna sé ég ástæðu til þess að vita framkomu hæstv. fjmrh. við 2. umr.