16.12.1967
Efri deild: 37. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 366 í B-deild Alþingistíðinda. (341)

75. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Einar Ágústsson:

Herra forseti. Út af því, sem hæstv. fjmrh. sagði, skal ég nú ekki flytja hér langt mál, en ég vildi, áður en ég sný mér að því með örfáum orðum að svara því, sem hann beindi til mín, leiðrétta það, sem ég sagði hér áðan, að Reykjavík eða borgarstjórn Reykjavíkur hefði fullnotað heimildir til þess að leggja á fasteignaskatt. Borgarstjórinn í Reykjavík, hv. 12. þm. Reykv., upplýsti mig um það eða minnti mig á það, sem ég átti náttúrlega að muna, en var búinn að gleyma, að þegar breytt var fasteignagjöldunum síðast hér í Reykjavík, var það gert á þann hátt, að gjöldin á húseignir voru aðeins hækkuð um 100%, en heimild laganna er 200%. Hins vegar var álagið á lóðir fullnotað. Ég ætlaði ekki að fara hér með rangt mál, og af því að mér var bent á þetta í tæka tíð, vil ég hafa það, sem sannara reynist í þessu efni, og leiðrétti það, þótt það skipti í sjálfu sér litlu sem engu máli um það, sem hér er til umræðu.

Hæstv. ráðh. sagði, að það væri lítið, sem bæri á milli hjá okkur. Það má vera, að það sé lítið. Það eru þessar 30 millj., sem á milli ber. Ég legg til, að þær verði ekki innheimtar. Hæstv. ráðh. leggur til, að þær verði lagðar á. Annar er nú náttúrlega munurinn ekki. Það er rétt, sem hann sagði, að kannske er höfuðágreiningurinn um sjálft málefnið sá, hver eigi að hafa fasteignirnar sem skattstofn. Ég held því fram, og það er ekki ég einn, sem geri það, — þær raddir hafa verið margar hér á hv. Alþingi og víðar, — að stefna bæri að því, að talsverðu leyti a.m.k., að sveitarfélögin hefðu þær tekjur, sem sanngjarnt teldist að leggja á fasteignir. Og ég vil segja, að hafi það verið réttlætanleg eða réttlát stefna fyrr, er hún það enn fremur nú, þar sem skattheimta ríkissjóðs hefur margfaldazt á liðnum árum og ríkið teygir sig lengra og lengra og víðar og víðar til fanga, þannig að það verður færra og færra, sem sveitarfélögin hafa til þess að afla tekna af, og útsvörin fara að verða þar geysihár liður.

Þar að auki sagði ég í þessum fáu orðum áðan, að ég teldi nánast fjarstæðu að vera að fikta við þetta fasteignamat æ ofan í æ, þegar upplýst er, að aðalfasteignamat skv. lögunum frá 1963 eigi nú að koma á næsta ári, og ég legg bara áherzlu á, að farið sé eftir þeim lögum, því að í þeim segir, að á 5 ára fresti milli aðalmata skuli yfirfasteignamatsnefnd kanna, hvort fasteignaverð hafi breytzt verulega á tímabilinu. Nú telur yfirfasteignamatsnefnd, að svo sé, og getur fjmrh. þá ákveðið breytingu á mati fasteigna í landinu í samræmi við það, og í sambandi við þetta verður að hafa í huga bráðabirgðaákvæðið, sem segir, að áður en nýtt aðalmat fasteigna skv. lögum þessum gengur í gildi, skuli fara fram endurskoðun á gildandi ákvæðum laga, sem fasteignamat hefur áhrif á, og miðist endurskoðunin við, að skattur á fasteignum hækki ekki almennt vegna hækkunar fasteignamatsins.

Ég segi bara það sem mína skoðun, að við eigum að bíða eftir þessu aðalfasteignamati, og þá verða þessi mál endurskoðuð. Þá gefst tækifæri til þess að gera það upp við sig endanlega, hver fasteignagjöldin til ríkisins eiga að vera eða eignarskattur af fasteignum, og ég sé ekki annað með hliðsjón af því, sem nú hefur gerzt og ég áðan rakti, en að mjög auðvelt sé að bíða þess tíma.

Þar að auki legg ég áherzlu á það, þótt ég viðurkenni, að fasteignir geti verið réttlátur gjaldstofn sveitarfélaganna a.m.k., að hófs sé gætt í því, hversu mikið er lagt á fasteignir, og ég undirstrika nauðsyn þess, að viss lágmarkseign sé skattfrjáls, hvernig sem það kann nú að verða reiknað. Ég skal játa það, að ég er ekki vel að mér í útreikningi á eignarskatti, en ég legg áherzlu á það, að meðalíbúð, sem á hvíla meðalskuldir, á ekki að vera tekjustofn fyrir einn eða neinn. Það á að vera talið eðlilegt hér, að menn eigi slíka eign, án þess að það sé skattlagt sérstaklega. Það er búið að skattleggja tekjurnar um leið og þær myndast, og það er ekki sanngjarnt að mínum dómi að skattleggja slíka meðaleign öðru sinni. Það er allt annað mál með stóreignir og stóreignamenn, ég er ekkert að biðja um neina vægð gagnvart þeim, en þessi almenna smáeign bjargálna manns, hún tel ég að eigi ekki að vera tekjustofn, hvorki fyrir ríkið né sveitarfélögin.

Ég skal svo ljúka máli mínu. Þessu máli liggur auðvitað á, eins og öllum öðrum málum, og sízt vil ég verða til þess að tefja þinghaldið meira en þörf er á.