18.12.1967
Efri deild: 38. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 368 í B-deild Alþingistíðinda. (344)

75. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Frsm. meiri hl. (Geir Hallgrímsson):

Herra forseti. Fjhn. hv. d. gat ekki orðið sammála um tillögugerð varðandi afgreiðslu þessa frv. Meiri hl. leggur til, eins og fram kemur í nál. á þskj. 169, að frv. verði samþ. óbreytt. Frsm. minni hl. mun að sjálfsögðu gera grein fyrir áliti þess hluta n., en boðað var á nefndarfundi, að minni hl. mundi flytja að nokkru þær brtt., sem fluttar voru í málinu í Nd., og mun ég síðar örlítið víkja að þeim.

Í frv. þessu eru tvö efnisatriði, eins og fram hefur komið í þessum umr. Það er annars vegar í 1. gr. frv. sjómannafrádrátturinn, að hann skuli gilda jafnt fyrir farmenn sem fiskimenn. Um þetta atriði frv. eru allir nm. fjhn. sammála og þeir, er um þetta frv. hafa rætt hér á hv. Alþ., en rétt er þó að vekja athygli á því, að það álit er ekki hjá öllum byggt á sömu forsendum. Þar sem hæstv. fjmrh. hefur tekið það fram, að forsenda þessa séu hin sérstöku störf og aðstæður og starfsskilyrðin við sjómannsstörfin, sem réttlæti þessa frádráttarheimild sjómönnum til handa, þá hafa aftur á móti formælendur stjórnarandstöðunnar bent á eða haft á orði, að þetta geti verið fordæmi öðrum stéttum.

Ég vildi aðeins taka það fram sem mína skoðun, að auk þess sem skýra verður slíka reglu í skattalögum mjög þröngt, þá er það einmitt vegna þess, að starf sjómannsins er sérstaks eðlis, vegna þess að það krefst fjarveru frá heimili og fjölskyldu og er unnið oft á tíðum við hættur, að löggjafinn á að taka tillit til þessa með sérstakri heimild þeim til handa um skattafrádrátt. En um leið og þessi skoðun er viðurkennd, er líka rétt að vekja athygli á því, að viðurkenning á þessum sérstöku aðstæðum sjómanna hlýtur e.t.v. í framtíðinni að fara fram á annan hátt en þennan, þegar staðgreiðslukerfi skatta kemst á, en það gerir kröfu til þess, að sem minnstar undanþágureglur séu í l. og almennar reglur gildi um slík atriði sem skattaálagningu. En með því að ágreiningur er ekki um þennan hluta frv., skal ég ekki fjölyrða nánar um hann.

Er þá komið að 2. gr. frv., sem gerir ráð fyrir því, að virðing á fasteign til eignarskatts miðist við nífaldað fasteignamat í stað sexfaldaðs fasteignamats, eins og nú er í I. Þessi breyting er ekki svo veigamikil, að ástæða sé til þess að ræða almennt um skattamál, þótt fara mætti e.t.v. nokkrum orðum um það, í hvaða átt skattamál og skattaálagning þróast víða, þar sem verið er nú að leggja áherzlu á eða í það minnsta leitast við að hverfa að nokkru frá skattlagningu á tekjum og eignamyndun og skattleggja fremur neyzlu eða eyðslu.

Ég held, að þrátt fyrir þær umr., sem víða fara fram, getum við verið sammála um, að eignarskattur verði áfram álagður og þó ýmsar undantekningar hafi verið gerðar þar um tilteknar eignir, eins og sparisjóðsinnistæður og skuldabréfaeign, að uppfylltum ákveðnum skilyrðum, þá fer tæpast á milli mála, að fasteignir sem slíkar verða metnar í framtíðinni til eigna og skattar þannig á þær lagðir. En sú skoðun hefur komið fram hér í umr., sem rétt er að undirstrika, að slíkur skattur má ekki koma í veg fyrir það, að menn séu örvaðir til þess að eignast þak yfir höfuðið og að allt sé gert, sem unnt er, til þess að sem flestir eigi þær íbúðir, sem þeir búa í. Það er þá spurning, hvort þessi breyting sé til þess fallin að koma í veg fyrir þá stefnu og þá þróun, og því er rétt að gera sér grein fyrir, hvaða skattauki verður á mönnum við samþykkt þessa frv.

Við skulum taka sem dæmi íbúð, þar sem fasteignamatið er 65 þús. kr. Í núgildandi fasteignamati mun hver rúmmálsmetri íbúðar vera metinn um 200 kr., þannig að það er eitthvað rúmlega 300 m3 íbúð, sem þarna er um að ræða, og ef skuldir eru annaðhvort engar eða 200 þús. kr., þá er skattaukinn 475 kr. Ef fasteignamatið er 90 þús. kr., þá mun skattaukinn, eftir því hvort um 200 þús. kr. skuld er að ræða eða ekki, vera um 850 kr. eða 1290 kr. Ef við lítum á hitt, að núgildandi reglur um skattaálagningu gera íbúðareigendum hægara um vik að því leyti til, að eigin húsaleiga er aðeins metin 11% af gildandi fasteignamati og til frádráttar frá tekjum koma einnig fyrning, sem er reiknuð 4% af fasteignamati, og fasteignagjöld, viðhald og vaxtagjöld, þá hygg ég, að með þessari breytingu sé þeim, sem þegar eiga íbúðir ekki gert erfitt um vik að halda sínum íbúðum, og heldur ekki hinum erfiðara um vik að eignast íbúðir.

Alla vega má á þessu sjá, að íbúðareigendur eru mun betur settir en hinir, sem ekki eiga íbúðir, og einkum þegar á það er litið, að nýleg breyting á gengi ísl. kr. hefur rýrt eignir manna, sem eiga lausafé, vörubirgðir eða sparifé, en hins vegar helzt raungildi íbúðaeignar eftir gengisbreytinguna sem áður. Þegar allt þetta er tekið með í reikninginn, hygg ég, að það sé ekki óeðlilegt, þótt á íbúðareigendur og fasteignaeigendur sé lagður þessi skattauki, þ.e.a.s. aukning á fasteignamati íbúðar frá sexföldu í nífalt fasteignamat.

Ég skal þó ekki neita því, að í einstaka tilvikum kann þetta að koma fram nokkuð þyngra en þau dæmi sýndu, sem ég gat um, og þá einkum þar sem um er að ræða fullorðið fólk, eða fullorðna ekkju eða fullorðinn ekkil, sem býr í tiltölulega stóru eigin húsnæði og vill gjarnan halda sínu fyrra heimili, þótt færra heimilisfólk sé e.t.v. í heimilinu og tekjumöguleikar minni heldur en þegar fólkið var á bezta starfsaldri.

Það getur einnig verið um það að ræða, að þetta komi nokkuð niður á fyrirtækjum, sem reka rekstur í eigin húsnæði og hafa ekki möguleika, t.a.m. vegna gildandi verðlagsákvæða, til að skapa sér tekjur til að standa sem skyldi undir reksturskostnaði, en ég legg áherzlu á, að í þessum tilvikum er það frv., sem við erum að ræða, aðeins ætlað til eins árs. Að einu ári liðnu, eða við önnur áramót er gert ráð fyrir því, að nýtt fasteignamat taki gildi. Ég skal ekki spá um það, hve hátt það verður, en ef dæma má af mismuni á núgildandi fasteignamati og gangverði fasteigna hér í Reykjavík, þá er hugsandi, að hið nýja fasteignamat verði allt að fimmtánfalt núverandi fasteignamat, þannig að í þessu frv. er ekki um að ræða nema 2/3 af því nýja fasteignamati, enda er þá skýrt fram tekið, að endurskoða verði alla skattstiga til lækkunar og í því sambandi hlýtur einnig að koma til athugunar endurskoðun á mati á fyrningum og öðrum því um líkum framkvæmdaratriðum, í samræmi við hið nýja fasteignamat.

En þá er ekki óeðlilegt, að spurt sé, eins og gert var við 1. umr. málsins: Af hverju er nauðsyn að gera þessa breytingu nú? Og þá held ég, að svarið sé það fyrst og fremst, að ef menn vilja reyna að leggja fram eitthvert fjármagn til þess að létta undir með þeim, sem verða harðast úti vegna gengisbreytingarinnar, og leitast við t.a.m. að lækka tolla af vörum til að lækka vöruverð í landinu, þá sé ekki óeðlilegt að skattleggja að einhverju leyti fasteignaeigendur, sem þó hafa haldið raungildi eigna sinna, gagnstætt því, sem er um aðra þjóðfélagsþegna, sem eiga eignir sínar í öðrum fjármunum. Og það er raunar efni málsins, hvort menn vilja taka þessar 30 millj. kr. inn sem skatt á fasteignaeigendur til þess að geta lækkað t.a.m. tolla og vöruverð almennt. Með tilvísun til þess, sem ég hef hér sagt, held ég, að frá almennu sjónarmiði sé það sanngjarnt.

Ég vil ekki ljúka máli mínu án þess að víkja að því málsatriði, sem hér hefur verið rætt, að fasteignaskattar eigi að renna til sveitarsjóða. sérstaklega þar sem ég er sammála því. En þá hljótum við að gera greinarmun á fasteignasköttum, sköttum, sem lagðir eru á fasteignir sem slíkar, án tillits til þess, hver er eigandi þeirra og án tillits til efnahags eigenda, og hins vegar á eignarskatti, þar sem fasteignin kemur inn sem hver önnur eign, en eignarskatturinn er lagður á persónur, og það fer eftir efnahag persónunnar, hve mikill skatturinn verður.

Ég býst við því, að í þeim löndum, þar sem lengst er á komið, að sveitarfélög taki tekjur sínar af fasteignum, sé samt sem áður til staðar eignarskattur, sem einnig miðist við fasteignaeign viðkomandi gjaldanda. Ég skal þó ekki fullyrða neitt um þetta, en vildi gjarnan, að fasteignir kæmu hvergi til skatts nema hjá sveitarfélögum, en með tilliti til þess, að fram hefur verið lagt frv. til I. um breytingu á tekjustofnum sveitarfélaga, þar sem gert er ráð fyrir níföldun fasteigna til eignarútsvars, eins og til eignarskatts, og þar sem gengið er út frá því, að eignarútsvörin skuli vera jafnhá og eignarskatturinn, en eignarskatturinn hefur verið hærri á yfirstandandi ári, þá tel ég þó nokkrum áfanga náð, til þess að sveitarfélög fái meira að þessu leyti í sinn hlut heldur en verið hefur.

Það er vissulega rétt, að endurskoða þarf tekjustofna sveitarfélaga og skiptingu tekjustofna milli sveitarsjóða og ríkissjóðs, því að nú er það svo, að hvorir tveggja eiga hlutdeild í flestum tekjustofnum. Þannig leggja báðir á eignarskatt, þ.e.a.s. sveitarfélögin eignarútsvör, báðir tekjuskatt, þ.e.a.s. sveitarfélögin tekjuútsvör, og báðir eiga aðild að söluskatti, þ.e.a.s. sveitarfélögin fá þaðan tekjur í jöfnunarsjóð sinn. Það væri e.t.v. eðlilegra, að hvor aðili um sig fengi eingöngu aðild að einhverjum þessum tekjustofnum og verkefnum væri síðan skipt niður í samræmi við þá möguleika, sem hvor aðili hefur fyrir sig um tekjuöflun.

Þær brtt., sem boðaðar hafa verið, eru aðallega tvær, hin fyrri um lægra fasteignamat í kaupstöðum og kauptúnum með undir 3000 íbúum og í sveitum, en meiri hl. fjhn. gat ekki fallizt á þá till. Ef ég skil þessa brtt. rétt, þá mundi afleiðing hennar verða sú, að fasteignamat til eignarskatts á Seltjarnarnesi yrði t.d. allt annað en í Reykjavík og að fasteignamat í Garðahreppi yrði allt annað en í Kópavogi og Hafnarfirði, og sýnast ekki nein rök mæla með því. Hvað seinni hluta till. viðvíkur, þá mun það rétt, að úti á landi, þar sem um bújarðir er að ræða, kann fasteignamatið sums staðar að vera tiltölulega hátt miðað við söluverð. Þó hygg ég, að gildandi lög veiti möguleika til endurskoðunar á því. En menn hljóta að átta sig á því, að fasteignamatið, jafnvel það gamla, þótt gamalt sé, gerir ráð fyrir töluvert hærra mati hér í Reykjavík og á öðrum þéttbýlissvæðum heldur en úti á landi.

Hvað seinni till. viðvíkur, vildi ég aðeins taka það fram, sem ég áður sagði, að hækkun á sköttum vegna venjulegrar íbúðar er ekki svo mikil, að torvelda eigi fólki nú á næsta ári að halda íbúðaeign sinni eða öðru fólki að eignast íbúðir. Og með því að mál þetta verður allt tekið til endurskoðunar með gildistöku nýs fasteignamats og þá endurskoðaðar þær reglur, er gilda um eigin húsaleigu, fyrningar og annað því um líkt, sem áhrif hefur á heildarskattþunga vegna fasteignaeignar, þá hygg ég, að með þessu frv. út af fyrir sig sé ekki langt gengið, en sanngjarnlega byrðum skipt, og þá unnt með samþykkt frv. að veita aðrar ívilnanir gjaldendum almennt. Með tilvísun til þess, herra forseti, legg ég til, að frv. verði samþ. óbreytt.