18.12.1967
Efri deild: 38. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 371 í B-deild Alþingistíðinda. (345)

75. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Frsm. minni hl. (Einar Ágústsson):

Herra forseti. Nál. okkar í minni hl. fjhn. hefur ekki verið útbýtt vegna tímaskorts, það hefur ekki unnizt tími til að prenta það, og ég mun þess vegna gera hv. d. grein fyrir því, en að öðru leyti mun ég að mestu vísa til þess, sem ég sagði hér á laugardaginn um þetta frv.

Eins og fram kom hjá hv. frsm. meiri hl., varð fjhn. ekki sammála um afgreiðslu málsins. Meiri hl. leggur til að samþykkja frv. óbreytt, en við í minni hl. viljum leggja til, að á því verði gerð breyting, áður en það nær samþykki.

Efnisatriðin eru tvö, eins og margoft hefur verið tekið fram. Við erum samþykkir því, að tekjufrádráttur hjá sjómönnum við skattálagningu sé gerður víðtækari en hann er nú, eins og lagt er til í 1. gr. frv. En hins vegar erum við andvígir þeim álögum, sem fjallað er um í frv. að öðru leyti, þ.e.a.s. hækkun á fasteignamati til eignarskattsálagningar. Við erum ósamþykkir því að leggja þær álögur nú á fólk, sem verður til viðbótar að taka á sig miklar byrðar vegna gengisfellingarinnar. Við erum sérstaklega ósamþykkir þessu vegna þess, að fyrir liggur, að ríkissjóður þarf ekki á þessari skattlagningu að halda, vegna þess hvað hann hefur fengið mikið auknar ríkistekjur af gengisfellingunni. Og auk þess er það skoðun okkar í minni hl., eins og ég reyndi að gera grein fyrir hér á laugardaginn, að ef og að svo miklu leyti sem það telst sanngjarnt og þarft að leggja gjöld á fasteignir, þá renni þær tekjur til sveitarfélaganna. Þess vegna leggjum við það til, að 2. gr. frv., sem fjallar um þessa margföldun á fasteignamatinu, verði felld og frv. þá samþ. svo þreytt. Ef ekki verður fallizt á þá málsmeðferð, eins og hv. 12. þm. Reykv. boðaði áðan, munum við flytja við 3. umr. þær brtt., sem hann gerði að umtalsefni hér áðan, en ég mun lítillega gera grein fyrir, ef á þarf að halda, þegar þar að kemur.

Ég sé ekki ástæðu til þess að gera að verulegu umtalsefni framsöguræðu hv. 12. þm. Reykv. hér áðan. Í raun og veru erum við nú sammála um mjög margt af því, sem hér hefur verið til umr. í þessu sambandi. Ég tók það fram á laugardaginn og það stendur enn, að ég hef ekki haft tækifæri til þess að reikna út, hverju þessi gjaldhækkun nemur í einstökum tilvikum. Mér skilst, að það sé ekki einfalt dæmi, og ég hef ekki treyst mér til að reikna það og ekki fengið það reiknað, en ég rengi hins vegar ekki þá útreikninga, sem hv. þm. lagði hér fram, en mér er þó kunnugt um, að í undantekningartilfellum getur þessi hækkun orðið verulega meiri heldur en hann gerði hér ráð fyrir, og raunar mátti heyra það á máli hans áðan, að honum var líka kunnugt um slík tilvik.

Hvort sem þetta mál er skoðað lengur eða skemur, verður niðurstaðan sú, að hér er verið að leggja 30 millj. kr. aukaskatt á fasteignir í landinu, sem eigendur þeirra verða að sjálfsögðu að borga, á sama tíma sem ríkissjóður fær hundruð millj. í auknar ríkistekjur, 450 millj. mun vera áætlun stjórnarvaldanna um auknar tekjur, fyrst og fremst af verðtolli og söluskatti. Aðrir draga þá áætlun í efa og gera ráð fyrir enn þá meiri hækkun ríkistekna og ég hygg, að það muni vera nær sanni. Að vísu er enn ekki vitað um magn innflutnings og hér er ein ágizkun kannske ekki endilega annarri réttari. En frá mínu sjónarmiði stendur það óhaggað, sem ég sagði hér á laugardaginn, að í fyrsta lagi þarf ríkissjóður ekki á þeim tekjum að halda og í öðru lagi tel ég réttara, að sveitarsjóðirnir hafi þennan tekjustofn heldur en að ríkið sé í vaxandi mæli að sækja álögur þangað, vegna þess að hvort sem gjaldið er kallað eignarskattur eða fasteignagjald, þá er það þó eigandi fasteignarinnar, sem þarf að greiða það, og það hlýtur að vera takmarkað gjaldþol, sem þarna er fyrir hendi, eins og alls staðar annars staðar.

Ég leyfi mér því, herra forseti, að leggja hér fram skriflega brtt. við frv., á þann veg, sem ég hef nú lýst, þ.e. að 2. gr. frv. falli niður, og leyfi mér að óska þess, að afbrigða megi verða leitað til þess að hún fái að koma fyrir.