19.12.1967
Efri deild: 39. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 374 í B-deild Alþingistíðinda. (350)

75. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Frsm. minni hl. (Einar Ágústsson):

Herra forseti. Eins og ég gat um við 2. umr. hér í þessari hv. d. í gær, höfum við nú, minni hl. fjhn. þessarar d., flutt hér tvær brtt. við dagskrármálið.

Ég sé ekki ástæðu til að eyða löngu máli til þess að kynna þessar till., með því að þær hafa áður verið ræddar nokkuð.

Önnur þeirra er við 2. gr., og þar er gert ráð fyrir því, að í kaupstöðum, þar sem íbúatalan er yfir 3000, verði virðing á fasteignum til eignarskatts eins og frv. gerir ráð fyrir, en í öðrum kaupstöðum og kauptúnum, sé aðeins miðað við fasteignamatið sexfaldað. Þá segir í till., að virðing á bújörðum með tilheyrandi íbúðar- og peningshúsum og öðrum mannvirkjum fari fram eftir fasteignamatinu margfölduðu með þremur og að ákvæði þessarar gr. skuli aðeins gilda, þangað til nýtt fasteignamat hefur tekið gildi.

Ástæðan fyrir þessum greinarmun, sem við viljum gera hér á virðingarverðinu, er augljós. Hún er sú, að víða er þannig ástatt, að eignir eru í svo lágu verði á frjálsum markaði, að það nær ekki einu sinni þessari fjárhæð, sem ætlazt er til að leggja til grundvallar við útreikning eignarskattsins. Það teljum við ranglátt.

Síðari mgr. lýtur að því, að lög þessi, sem nú á að setja, gildi aðeins, þangað til nýtt fasteignamat hefur farið fram. Það hefur að vísu verið talað um það hér af hendi hæstv. fjmrh., að vitanlega yrði að endurskoða skattstigann, þegar nýtt fasteignamat kæmi, en hvergi er það þó ákveðið í lögum, en það teljum við að ætti að gera.

Síðari brtt. er við 3. gr. og lýtur að því, að sú fjárhæð, sem undanþegin skuli vera eignarskatti, verði 400 þús. kr. í stað 200 þús. kr., eins og gert er ráð fyrir í frv. Þetta mál hefur áður borið hér á góma, og ég sé ekki ástæðu til að tefja tímann með framsögu um það.

Þar sem þessum till. hefur ekki enn verið útbýtt, verð ég að leggja þessar brtt. fram skriflega, og fer fram á það við hæstv. forseta, að hann leiti afbrigða.