07.11.1967
Efri deild: 13. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 375 í B-deild Alþingistíðinda. (353)

41. mál, Bjargráðasjóður Íslands

Félmrh. (Eggert G. Þorsteinsson):

Herra forseti. Samkv. starfsskiptingu í ríkisstj. heyrir bjargráðasjóður undir félmrn. Af þeim ástæðum fellur það í minn hlut að mæla fyrir því stjfrv., sem hér er til umr., þótt mestur hluti undirbúningsstarfs að undirbúningi frv. hafi hins vegar farið fram á vegum landbrn., eins og nánar er frá greint í aths. með frv.

Tryggingamál landbúnaðarins hafa lengi verið í deiglunni og hafa bændur af ýmsum orsökum orðið fyrir uppskerubresti og afurðatjóni. Undanfarin ár hefur Bjargráðasjóður Íslands oft hlaupið undir bagga og veitt aðstoð, en reynslan hefur sýnt, að hann er lítils megnugur í þessu efni eins og uppbyggingu hans er nú háttað. Til eru að vísu lög um búfjártryggingar, en þrátt fyrir ýmsar breytingar á þeim og rækilega endurskoðun á árinu 1965, hafa þau ekki náð viðurkenningu bænda. Tryggingar búfjár samkv. þeim eru sáralitlar nema trygging á kynbótagripum.

Á Alþingi 1963 komu fram þrjár þáltill. um tryggingamál landbúnaðarins. Var öllum till. vísað til allshn. N. sameinaði öll þau meginsjónarmið, sem í till. komu fram, og flutti þál. um tryggingar gegn uppskerubresti og afurðatjóni, er samþ. var á Alþ. 5. apríl 1964. Samkv. þessari þál. skipaði landbrh. hinn 15. júlí 1964 4 menn í n. til að endurskoða lög um búfjártryggingar og önnur lög, er málið varða, í því skyni, að komið verði á fót fyrir landbúnaðinn tryggingum gegn uppskerubresti og afurðatjóni með hliðsjón af aflatryggingum sjávarútvegsins. N. þessi samdi síðan frv. til l. um Bjargráðasjóð Íslands, sem að meginstofni er hér flutt. Eins og alkunna er, hafa bændur margsinnis á undanförnum árum orðið fyrir alltilfinnanlegum fóðurskorti á nokkrum stöðum á landinu vegna lélegrar grassprettu og kals. Ljóst var á s.l. vori, að mikil brögð voru að kali og tún spruttu ekki á norðanverðu landinu.

Hinn 8. ágúst skipaði landbrh. n., er gera skyldi till. til úrbóta vegna lélegrar grassprettu og kals á Norðurlandi og víðar. N. þessi skilaði áliti 23. okt. s.l. og var í álitinu lagt til, að bændum á þessu svæði, sem illa urðu úti vegna fóðurskorts, verði veitt aðstoð og komi sú aðstoð úr bjargráðasjóði. Bendir n. á nauðsyn þess, að bjargráðasjóður verði efldur, til þess að hann geti staðið undir áföllum vegna uppskerubrests sem þessa og annarrar óáranar. Segir í nál., að n. hafi rætt þessa hugmynd við forráðamenn bænda á fundum sínum í sumar og henni hafi verið vel tekið í störfum sínum. Einnig hafi n. kynnt sér afstöðu stjórnar Stéttarsambands bænda og Búnaðarfélags Íslands til þessa máls og segir n. þær samþykkar því, að æskilegt væri, að frv. um eflingu bjargráðasjóðsins nái fram að ganga, sbr. ályktun búnaðarþings árið 1966 og ályktun aðalfundar Stéttarsambands bænda á árinu 1967. Segja nm., að þeim sé einnig kunnugt um, að bjargráðasjóðsstjórn sé hlynnt eflingu bjargráðasjóðs á þann hátt sem frv. þetta gerir ráð fyrir. Leggur n. til, að frv. það, er samið var af hinni stjórnskipuðu nefnd og áður er frá greint, verði lagt fyrir Alþ. með ákveðnum viðbótarbreytingum, sem ýtarlega eru raktar í nál. og grg. frv. þess, sem hér er nú til umr. Frv. er útbúið í landbrn., svo sem fyrr er frá greint. Það er, eins og áður er rakið, að meginstofni til samhljóða frv., er samið var af hinni stjórnskipuðu nefnd samkv. þál. frá 1. apríl 1964. Á því hafa verið gerðar breytingar í samræmi við till. harðærisnefndar 1967. Samkv. till. búnaðarþings á árinu 1966 var gert ráð fyrir, að formaður Stéttarsambands bænda taki sæti í bjargráðasjóðsstjórn. Aðrar brtt., er búnaðarþing hefur gert við hið upprunalega frv., eru yfirleitt þess efnis, að telja verður eðlilegra, að ákvæði þar um verði sett með reglugerð. Enn fremur hafa verið gerðar á frv. aðrar smávægilegar breytingar. Sérstaklega skal tekið fram, að bjargráðasjóðsstjórn mælir með frv. eins og það er nú lagt fyrir Alþ. Í frv. eru fólgnar eftirfarandi meginbreytingar frá núgildandi l., sem eru nr. 8 frá 1961:

Í fyrsta lagi, að stofnuð verður ný deild við sjóðinn, afurðatjónadeild, samkv. 2. gr. frv. og verður hlutverk þessarar d. að hjálpa bændum, sem verða fyrir tilfinnanlegu uppskerutjóni vegna grasbrests og óþurrka og afurðatjóni á nautgripum og sauðfé af völdum alvarlegra smitsjúkdóma.

Í öðru lagi, að bætt verður við sérstökum tekjustofnum fyrir afurðatjónadeild landbúnaðarins frá bændum á móti framlagi úr ríkissjóði. Í frv. er gert ráð fyrir 0.25% gjaldi af söluvörum landbúnaðarins, sem gjaldskyldar eru til búnaðarmálasjóðs, og jafnháu framlagi úr ríkissjóði.

Um innheimtu gilda sömu reglur og um búnaðarmálasjóðsgjaldið, en framlag ríkissjóðs greiðist ársfjórðungslega.

Í þriðja lagi er í 9. gr. frv. gerð sú breyting á tekjustofnum sameignardeildar, að hún fær auk ríkisframlagsins á móti sveitarfélögum aðeins 25% af framlagi sveitarfélaga í stað 50% áður, en 25% af framlagi sveitarfélaganna rennur til hinnar nýju afurðatjónadeildar, enda léttir hún á útgjöldum sameignardeildarinnar. Í afurðatjónadeildina rennur auk þess allt framlag bænda og framlag ríkissjóðs þar á móti.

Gert er ráð fyrir því í 16. gr. frv., að settar verði með reglugerð nánari reglur varðandi rekstur sjóðsins og ákvæði um lán og bætur úr honum. Þykir rétt, að bændasamtökin hafi tillögurétt um þau ákvæði reglugerðarinnar, er varða afurðatjónadeild eina.

Sérstaklega skal tekið fram, að umrætt 0.25% gjald af söluvörum landbúnaðarins, sem renna skal til afurðatjónadeildarinnar, er ekki hugsað sem nýtt gjald á búvörum, heldur er fyrirhugað að lækka núverandi gjald til bændahallarinnar sem þessu nýja gjaldi nemur.

Nái frv. þetta fram að ganga, má ætla, að árlegar viðbótargreiðslur afurðatjónadeildar landbúnaðarins, sbr. 2. gr. frv., verði um 9 millj. kr. Verði frv. að l. á Alþ. því, er nú situr, leggst gjaldið til bjargráðasjóðs samkv. c-lið 4. gr. frv. fyrst á vöru framleidda árið 1968 og innheimtist því lítið af búvörugjaldinu fyrr en árið 1969, þótt ríkisframlagið samkv. d-lið sömu gr. verði lagt fram fyrr.

Eins og áður er sagt, hafa bændur tíðum orðið illa úti vegna uppskerubrests eða annarrar óáranar. Þótt ríkissjóður hlaupi undir bagga, verður það tjón, er bændur verða að bera sjálfir, alltaf tilfinnanlegt. Það er því aðeins rökrétt, að farin sé sú leið, að safnað sé í sjóð til mögru áranna, þ.e. að bændur leggi allir af mörkum í sjóð, sem hægt sé svo að grípa til, þegar harðæri skellur á. Slíkum sjóði hefur sjávarútvegurinn þegar komið upp, þar sem aflatryggingasjóður sjávarútvegsins er.

Eins og áður segir, er gert ráð fyrir því, að ríkissjóður leggi fram jafnmikið fé í sjóðinn og framlagi bænda nemur. Hér er ekki um að ræða tryggingastarfsemi í venjulegri merkingu, heldur að aðstoð verði veitt, ef bændur verða illa úti í heilum héruðum vegna uppskerubrests eða búfjársjúkdóma. Rétt er að benda á, að sjóðir af því tagi, sem bjargráðasjóður hefur verið og verður áfram, eru mjög hagstæðir þjóðhagslega, því að slíkir sjóðir draga úr þenslu á þenslutímum og kreppu á krepputímum. Sú gamla góða og gilda regla „að spara til mögru áranna“ er enn þá í fullu gildi.

Herra forseti. Ég geri það að till. minni, að

frv. verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og hv. heilbr.- og félmn.