13.12.1967
Efri deild: 32. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 379 í B-deild Alþingistíðinda. (357)

41. mál, Bjargráðasjóður Íslands

Ásgeir Bjarnason:

Herra forseti. Ég vil strax taka það fram, að hér er um þýðingarmikið mál að ræða, eins og ég veit, að ykkur hv. þm. er vel kunnugt um, þar sem verið er að efla Bjargráðasjóð Íslands til meiri starfa heldur en hann hefur verið vaxinn til þessa. Enda þótt við hv. 4. þm. Sunnl. og ég flytjum hér nokkrar brtt., er það ekki af því, að við séum á neinn hátt ósamþykkir þessu frv. eins og það liggur fyrir, heldur hitt, að við teljum, að einstakar greinar þess geti farið betur. Það kom fram í ræðu hv. 5. þm. Sunnl., sem var frsm. n., að það hefur verið leitað umsagnar Búnaðarfélags Íslands og Stéttarsambands bænda um þetta mál og báðir þessir aðilar mæla með frv. En Búnaðarfélag Íslands hefur óskað eftir, að nokkrar brtt., sem samþykktar voru á búnaðarþingi, yrðu teknar inn í þessi lög, sem hér er verið að fjalla um. Og þessar brtt. eru á þskj. 134.

1. brtt. er við 12. gr. frv., en í 12. gr. segir, að heimilt sé að veita lán úr afurðatjónadeildinni. En aðalatriðið í okkar brtt. við 12. gr. er það, að skylt sé að veita lán eða greiða bætur úr afurðatjónadeild og á þessu er nokkur munur, hvort það er aðeins heimilt eða það er skylda. Og við byggjum till. okkar á því, að þar sem bændum er ætlað að greiða meira en helming af tekjum afurðatjónadeildar, eigi þeir tvímælalaust rétt á að fá lán hjá deildinni, þegar þeir framvísa fullnægjandi gögnum þar að lútandi. Ég vil minna á það, að í l. um Stofnlánadeild landbúnaðarins — en samkv. þeim l. greiða bændur 2/3 hluta af því fjármagni, sem stofnlánadeildin eignast árlega, — er hliðstætt ákvæði orðað þannig: „Stofnlánadeildin veitir lán.“ Hún er m.ö.o. skyldug að veita lán. Hér finnst mér, að standi líkt á og því vona ég, að hv. þm. finnist samræmi þarna á milli og samþykki brtt. okkar um, að það sé skylda að lána, þegar bændur leggja svo mikið af mörkum til afurðatjónadeildarinnar, að það verður meira en helmingur af árstekjum deildarinnar hverju sinni.

Undirliðir 12. gr. í brtt. okkar kveða nánar á um það, hvenær skuli veita framlög eða lán úr afurðatjónadeildinni. Þarna er t.d. á það minnzt, að tjónþoli beri sjálfur 20% af þeim skaða, er hann verður fyrir í uppskerubresti, 8% af afurðatjóni búfjár og 12%, ef um dauða á búpeningi er að ræða. Það má að sjálfsögðu um það deila, hvort þetta skuli standa í l. eða hvort það skuli tekið fram í reglugerð, en ég tel þó öruggara, að það standi í l. heldur en hætta á, hvort það verður sett í reglugerð eða ekki, því að um það hefur Alþingi enga möguleika á að segja sitt álit.

2. brtt. okkar er við 15. gr. frv., þar sem rætt er um það, ef sameignardeild og afurðatjónadeild skortir fjármagn, þegar mikil vandræði steðja að. Þá er svo ráð fyrir gert, að ríkissjóður ábyrgist lán eða láni bjargráðasjóði, en þó er svo til ætlazt, að því er varðar afurðatjónadeildina, að hún taki ekki hærri lán en sem nemur árstekjum hennar, og þurfi hún meira fjármagn, beri ríkissjóði að leggja það til, sem á vantar. Þetta er í brtt. okkar og er miklu nánari skilgreining á 15. gr. heldur en í frv., eins og það liggur núna fyrir og því æskilegt, að þetta ákvæði kæmist inn í l.

Við 16. gr. leggjum við til, að það verði tekið fram í reglugerð, að bjargráðasjóðsstjórn hafi trúnaðarmenn í öllum sýslum landsins á svipaðan hátt og tryggingafélög hafa sína umboðsmenn víðs vegar um landið til þess að meta tjón, þegar þess er þörf og annast ýmis störf heima í héruðum, sem sjóðsstjórnin hefur að sjálfsögðu ekki aðstæður hverju sinni til að vega og meta nema hafa einhverja kunnuga til þeirra hluta.

Herra forseti. Ég hef hér með gert grein fyrir brtt. okkar hv. 4. þm. Sunnl., og ég vænti þess, að þær nái samþykki hv. alþm., vegna þess að ég tel, að þetta frv., enda þótt ég sé því samþykkur, eins og það liggur fyrir, sé fullkomnara og tryggi bændum betur rétt sinn, ef okkar brtt. ná fram að ganga.