12.10.1967
Sameinað þing: 0. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 56 í B-deild Alþingistíðinda. (36)

Stjórnarsamningur

Lúðvík Jósefsson:

Herra forseti. Við Alþb.- menn erum andvígir þeim ráðstöfunum í efnahagsmálum, sem ríkisstj. hefur nú boðað. Þær ráðstafanir, sem hér er um að ræða, munu leiða af sér miklar verðlagshækkanir og beina kjaraskerðingu allra launþega í landinu. Þær eru brot á júní-samkomulaginu, sem ríkisstj. gerði við verkalýðssamtökin um fulla vísitölugreiðslu á laun, og brot á yfirlýsingu stjórnarinnar um verðstöðvun. Og þær leysa á engan hátt þann vanda, sem nú steðjar að atvinnulífi landsmanna. Það hlýtur að vekja athygli allra, sem virða fyrir sér till. þær, sem ríkisstj. nú boðar, að þær miða allar að því að afla ríkissjóði nýrra tekna með nýjum sköttum eða að því að létta af ríkissjóði útgjöldum, sem beint hljóta að leiða af sér aukna dýrtíð í landinu.

Ríkisstj. heldur sér því enn við dýrtíðarstefnuna. Hins vegar bólar ekki á neinum till. frá stjórninni um það að leysa þann mikla vanda, sem framleiðsluatvinnuvegirnir eiga nú við að glíma og daglega birtast í stöðvun framleiðslufyrirtækja eða í samdrætti í framleiðslu. Það er skoðun okkar Alþb.- manna, að brýnasta verkefnið, sem nú bíði úrlausnar í efnahagsmálum, sé að leysa rekstrarvandamál framleiðsluatvinnuveganna og skapa þeim viðunandi starfsgrundvöll. Á þann hátt einan er hægt að tryggja fulla atvinnu og þá heildarframleiðslu, sem tæki og auðlindir þjóðarinnar gera mögulega. Það er skoðun okkar, að óhjákvæmileg forsenda þess að leysa vandamál atvinnuveganna sé, að breytt verði um stefnu í efnahagsmálum í grundvallaratriðum. Við teljum, að þegar í stað eigi að lækka vexti af lánum til framleiðslunnar verulega. Við teljum, að tryggja verði nauðsynlegum atvinnufyrirtækjum eðlileg stofnlán. Við teljum, að lengja eigi stofnlán frá því, sem nú er. Við teljum, að skipa þurfi rekstrarlánum framleiðslunnar á annan veg en nú er gert, þannig að fullt tillit sé tekið til óhjákvæmilegra þarfa. Við teljum, að lækka megi ýmis útgjöld framleiðsluatvinnuveganna, eins og t.d. há útflutningsgjöld á þeim afurðum, sem fallið hafa mikið í verði að undanförnu. Við teljum óhjákvæmilegt, eins og nú er háttað verðlagi í landinu, að ýmsar greinar iðnaðarins séu verndaðar gegn hömlulausum innflutningi erlendra vara. Það er skoðun okkar Alþb.- manna, að óhjákvæmilegt sé að taka upp nýja stefnu í verðlagsmálum og fjárfestingarmálum, þar sem reynt verði að hamla gegn óeðlilegum milliliðakostnaði og skipulagslausri fjárfestingu. Það er skoðun okkar, að óhjákvæmilegt sé að taka upp heildarstjórn á þjóðarbúskapnum í stað þess skipulagsleysis, sem nú ríkir á flestum sviðum.

Það er skoðun okkar Alþb.- manna, að sú stefna, sem ríkisstj. nú boðar og felur í sér stórhækkað verðlag og beina lækkun á umsömdu kaupi og m.a. lækkun á lágmarkstekjum verkafólks, sé alröng og fái ekki staðizt í framkvæmd. Við vörum við slíkri framkvæmd.

Sú ræða, sem hæstv. forsrh. flutti hér og átti að túlka nýja stefnuyfirlýsingu af hálfu ríkisstj., gæti vissulega gefið tilefni hér til langra umr., en umr. munu væntanlega verða um þá stefnuyfirlýsingu síðar hér á þinginu, og leiði ég því hjá mér að ræða þar einstök atriði að þessu sinni. Það fer því ekki á milli mála af því, sem ég hef sagt, að við Alþb.- menn styðjum ekki núv. ríkisstj. Við teljum, að skipta þurfi um stefnu í grundvallaratriðum frá þeirri stefnu, sem hún hefur tekið sér. Við teljum, að við þjóðinni blasi nú mikil vandamál í efnahagsmálum, vandamál, sem jöfnum höndum stafa af lækkandi verðlagi á útflutningsvörum þjóðarinnar og af rangri stefnu, sem haldið hefur verið fram í efnahagsmálum undanfarin ár. Sá vandi, sem við er að glíma í þessum efnum, er svo mikill, að það má ekki dragast að koma atvinnuvegum landsmanna til hjálpar. Við hljótum að vekja athygli á því, að hæstv. ríkisstj. hefur svo að segja ekkert gert til þess að bægja frá þeim vanda, sem atvinnuvegirnir eiga við að stríða. Hún hefur enn ekkert gert í þá átt að rétta við hag íslenzkrar togaraútgerðar, þó að allir landsmenn hafi séð, hvað þar að fór. Hún hefur nálega ekkert gert til þess að framkvæma þær margvíslegu till., sem mþn., sem fjallaði um vandamál vélbátaútvegsins, lagði fyrir ríkisstj. Og hún hefur ekkert gert til þess að mæta þeim margvíslegu vandamálum, sem nú hafa komið upp hjá síldariðnaði landsmanna. Og hún hefur ekkert gert heldur til þess að koma í veg fyrir það, að þýðingarmiklar greinar íslenzks iðnaðar lytu í lægra haldi eða yrðu að gefast upp við sinn rekstur.

Þessu þarf að breyta hið allra fyrsta og á það leggjum við Alþb.-menn höfuðáherzlu. Að ráðstöfunum til úrlausnar þessum vandamálum þarf að vinna í fullu samráði við launastéttir landsins, en ekki á þann hátt, sem ríkisstj. virðist kjósa sér að gera það, með því að ganga á þýðingarmikla samninga, sem hún hefur gert við verkalýðssamtökin um hagsmunamál vinnustéttanna.

Afstaða okkar Alþb.-manna til núv. ríkisstj. er óbreytt. Við erum í andstöðu við hennar stefnu í grundvallaratriðum.